22.10.2008 | 22:04
Hve mikið verðum við neydd til að borga fjárkúgurunum?
Það var gott að heyra Geir segja að ekki standi til að láta Breta (og IMF) fjárkúga okkur. Ég vildi samt geta verið öruggur um að hann meini þetta eða geti staðið við þetta loforð. Eina lykilspurningu leyfi ég mér að bera hér og nú upp í von um að einhver geti svarað.
Hvað nákvæmlega erum við að fara að borga Bretum? Hér á ég við þetta: Það er ljóst að til eru alþjóðasamþykktir og -lög um það hvað ríki eigi að ábyrgjast mikið ef og þegar svona lagað gerist. Í þessu tilviki er upprunaríki bankans skuldbundið til að tryggja upp að vissu marki og starfsstöðvar-ríkið ofan á það upp að vissu marki. Alþjóðasamþykktir gera alls ekki ráð fyrir því að ríki borgi í topp skuldir einkaaðila (í þessu tilviki einkafyrirtækisins Landsbankans). Það væri enda fráleitt.
Ég fæ ekki betur séð en að það sé verið að kúga okkur skattgreiðendur á Íslandi í nútíð og framtíð til að borga áhættuinnistæður Bretanna upp í topp. Borga fyrir ekki bara óreiðu bankanna, heldur fyrir óráðsíu-, græðgis- og áhættuávöxtun óábyrgra Breta. Hvernig má það vera? Geta IMF og Bretar virkilega kúgað okkur til að gera þetta? Það er aldeilis "hjálpsemin" við Bretana, sem undir handleiðslu ruddans Browns settu hryðjuverkalög á ekki bara Landsbankans heldur Íslenska ríkið (okkur) líka. Og keyrðu Kaupþing í þrot í kaupbæti.
Nú eru bankar að hrynja um öll Vesturlönd og væntanlega reynir víða á tryggingasjóði þeirra og stjórnvaldsábyrgðir. Stendur til að við borgum allt Icesave draslið í topp, meðan að í sambærilegum málum annarra hruninna banka sé bara borgað upp að vissu marki eins og alþjóðasamþykktir kveða á um? Getur verið að þetta skerði möguleikann á að bæta skaða innlendra "tapara" og skaðinn þá tvöfaldur?
Svo þetta í lokin: Horfum framhjá landamærunum ögn og þá sjáum við að "Íslendingar" rústuðu ekki Icesave og öðrum gylliboðsreikningum. Það gerðu alþjóðlegir áhættu-kapítalistar.
Við munum ekki láta kúga okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gangi þetta eftir er ekkert annað að gera en að ryðja stjórnvöldum frá með valdi.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 22.10.2008 kl. 22:22
Það er handrukkun í gangi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 22:29
Friðrik. Bretar lögðu fé sitt á hefðbundinn netreikning; IceSave. Það að svikararnir buðu betri vexti merkir ekki að um hafi verið að ræða "óráðsíu-, græðgis- og áhættuávöxtun óábyrgra Breta". Því talar þú ekki svona til sparifjáreigenda á Íslandi?
Ég hef persónulega dregið mörkin við að svívirða fólk sem á um sárt að binda, hvort sem um er að ræða hundruðir þúsunda um alla Evrópu, eða Íslendinga sem óttast um sitt sparifé.
Bloggið á Íslandi er þó að verða með þeim hætti að maður fyllist viðbjóði á þjóðarsálinni.
Gargandi og vælandi um samúð og virðingu meðan drullað er yfir saklaust fólk um allan heim sem ekkert vann sér til saka annað en að treysta Íslendingum.
Ótrúlegt. Alveg hreint ótrúlegt hvað stór hluti þjóðarinnar er rotinn.
baldur mcqueen (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 22:49
Eftir framkomu Breta eiga þeir skilið að fá greitt að því marki sem lög og alþjóðlegir samningar kveða um, og ekki krónu meir! Ef Geir samþykkir eitthvað annað en það þá skuldar hann okkur ærlegar skýringar á því hvað fleira hafi hangið á spýtunni. Kannski neyðumst við aftur til þess að spyrja Þorgerði Katrínu hvað hann var að meina...
Guðmundur Ásgeirsson, 22.10.2008 kl. 23:22
Ég vil fá að gera smávægilega athugasemd við síðasta komment frá Baldri Mcqueen.
Þeir sem lögðu inn á Icesave voru ekki að treysta Íslendingum enda kom íslenska þjóðin ekki nálægt þessum reikningum og bar enga ábyrgð á þeim. Reikningarnir voru á ábyrgð Landsbankans sem vill til að er íslenskt fyrirtæki en það er ákaflega heimskulegt að halda því fram að þ.a.l. sé fyrirtækið alfarið á ábyrgð Íslendinga.
Það fyrirtæki og útbú þess störfuðu skv. lögum á evrópska efnahagssvæðinu og voru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins Íslenska (FME) og Fjármálaeftirlitsins breska (FSA).
Það er því ljóst að þeir sem lögðu þar inn urðu að meta fyrirtækið út frá fyrirtækinu sjálfu og treysta á að stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í Bretlandi væru starfi sínu vaxnar. Þess má geta að FSA var fyrir löngu síðan búið að gera sér grein fyrir vandanum án þess að upplýsa um það. Hvorki til sparifjáreigenda né til fólksins á Íslandi. Hvorugur hópurinn gat því nokkuð gert í málinu.
Ábyrgðin er því eftirlitsstofnana og stjórnvalda í þessum löndum. En þá komum við að lykilatriði og það er að skv. fyrrgreindum lögum þá nær ábyrgð Íslenskra stjórnvalda að mesta lagi upp að rúmum 20 þús. evrum. Og jafnvel eru áhöld um það og rétt að dómsstólar skeri úr um það. Látum ekki bresk stjórnvöld kúga okkur með aðstoð IMF.
Aftur á móti kenni í jafn mikið í brjósti um breska sparifjáreigendur sem treystu sínu fjármálaeftirliti og íslenska sparifjáreigendur sem treystu því íslenska.
Egill Jóhannsson, 22.10.2008 kl. 23:23
Baldur, ég ætla ekki að greiða þetta, ekki eyri, ég ætla ekki heldur börnum mínum að greiða þetta. Fyrr skal ég dauður liggja og af dauðum manni er ekkert að hafa. Ég bið ekki um samúð. En velta vil ég íslenskum stjórnvöldum úr sessi með þeim ráðum sem duga og versla síðan við þá sem við okkur vilja versla hvort sem þeir heita Rússar eða Íranir.
Staða Íslands er ekki ósvipuð og staða Þýskalands eftir styrjöldina 14-18 og jafnvel styrjöldina 39-45.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 22.10.2008 kl. 23:32
enn einu sinni segi ég: Við eigum að standa við trygginguna og ekki feti lengra. Ég held að Geir sé að lenda þessu rétt (vona það).
baldur mcqueen. Ég ætla ekki að verja mitt fólk og það ættir þú ekki að gera heldur. Þú þarft að átta þig á því að banki sem rekinn er í Bretlandi, vottaður þar og starfar undir Bresku Fjármálaeftirliti er og á að vera undir Breskri ábyrgð.
Íslenskir eigendur, jú nokkrir íslendingar. Hvað kemur mér það við?
Sparifé fólks í Bretlandi naut trygginga upp að vissu marki eins og lög í Bretlandi gera ráð fyrir og eiga þær bara að duga. Ég hef engan áhuga á að greiða skuldir Jóns Ásgeirs með matarpeningum fjölskyldu minnar hér.
Er það þín skoðun að íslenska ríkið eigi að greiða meira en tryggingarnar hljóða upp á?
sandkassi (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 23:44
Ég er ekki fyrst og fremst að tala um hinn almenna Breta sem lagði inn á þessa reikninga Baldur og hefði mátt tala skýrar. Það hefur komið vel fram að afar stór hluti þessara peninga lögðu inn meintir ábyrgir aðilar; sveitarstjórnir, góðgerðarfélög, lögreglufélög og fleiri þvílíkir aðilar, sem eiga samkvæmt kenningunni að hafa á sínum snærum bókhaldara, endurskoðendur og fjármálastjóra og sækja sér ráðgjöf hjá sérfræðingum - enda um mikla peninga að ræða.
ÞETTA meinta ábyrga fólk féll fyrir vöxtunum og hafði aðstöðu til að fylgjast vel með eða kontakta til að láta sig vita af þróun mála. Þessir aðilar brugðust sínum skjólstæðingum; ekki síst sveitarfélögin, sem eiga að heita upplýst apparöt. Um margra mánaða skeið hefur verið deginum ljósara hvert Íslensku útrásarbankarnir hafa verið að stefna; niður á við og með buxurnar á hælunum. Þú getur vorkennt þessum aðilum allt til enda veraldar Baldur, sama er mér, ég geri það ekki. Hins vegar vorkenni ég auðvitað venjulegu fólki sem lét bankana og ráðgjafana plata sig. Það gerðist líka hér á landi - og það fólk mun ekki fá allt sitt tap bætt, ólíkt Bretunum. Auðvitað væri það út af fyrir sig fínt að allir fái tap sitt bætt að fullu, en að óbreyttu þá kemur það í hlut saklauss fólks að bæta fyrir gylliboð útrásar-kapítalistanna.
Tek fyllilega undir með Agli; Íslendingar sviku ekki þetta fólk; hvorki þetta venjulega Breska fólk né óábyrgu samtökin og félögin. Það gerðu kapítalistar án landamæra. Um 30 manns kenndir við Ísland, en sem sumir hverjir búa ekki einu sinni á Íslandi.
Og ég tek undir spurningu annars bloggara: Hvar er aurinn? Hvar eru allir þessir (tugir, hundruð) milljarðar sem Bretar (og fleiri) lögðu inn á reikninga útrásarbankanna? Eru þetta peningarnir sem notaðir voru til að kaupa símafyrirtæki hér og þar? Borga "rannsókn" Hafskipsmálsins? Risasnekkjur og einkaþotur? Sumarhúsahallir? Hvert fóru þessir peningar? Er hægt að endurheimta þá? Má ekki setja hryðjuverkalög til að ná í þetta?
Svo við fáum eitthvað upp í að borga meira en alþjóðlegar skuldbindingar segja að við eigum að gera?
Baldri má finnast þetta vera rotnar spurningar mín vegna. Verði honum að góðu.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 23:52
Baldur hefur rétt fyrir sér.
Sannleikanum er hver sárreiðastur.
Peningarnir sem Íslendingar stálu af bankareikningum almennings í Finnlandi, Englandi, Hollandi og víðar voru notaðir til að reka bankana.
Þetta var gert með blessun og samþykki íslenskra stjórnvalda.
Viðbrögð Breta, Finna og annarra þjóða við þessu eru skiljanleg.
Æsingur íslenskra stjórnvalda gagnvart Bretum er til að beina athyglinni frá eigin sök.
Íslensk stjórnvöld hafa brugðist þjóðinni.
Stór hluti íslenskra stjórnmálamanna seldu sig fyrir pening.
Bankarnir dældu peningum í kosningasjóðina og fengu þannig frjálsar hendur.
Skortur af upplýsingum veldur að stór hluti þjóðarinnar er ekki meðvituð um að henni hefur verið stjórnað af glæpaklíku til fjölda ára.
Meginþorri íslenskra stjórnmálamanna eru núna ærulausir.
Sumir þeirra verða eftirlýstir af Interpol þegar fram líða stundir.
RagnarA (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 01:46
Þú afsakar RagnarA, en þar til annað verður sannað vil ég halda fram sakleysi mínu; ég stal ekki af nokkrum manni, erlendum eða innlendum. Þú kemur ekki ábyrgðinni af svikamyllu hákarla-kapítalistanna yfir á mig, börn mín og barnabörn. No way. Það er fullkomlega réttmætt að gagnrýna stjórnvöld fyrir sinnu- og eftirlitsleysi, en láttu mig og mitt fólk í friði fyrir þessum ásökunum.
Friðrik Þór Guðmundsson, 23.10.2008 kl. 01:57
Þetta er hneisa fyrir mig og mitt fólk líka.
Venjulegt fólk á Íslandi hefur verið blekkt af valdhöfunum og klíku þeirra.
Almennir borgarar á Íslandi lenda í skömminni eins og þýskir þegnar eftir hrun Þriðja ríkis Hitlers.
Skuldaviðurkenning eða "játning" íslenskra stjórnvalda á sekt sinni liggur þegar fyrir á alþjóðavettvangi.
Davíð Oddsson og handlangari hans dýralæknir Árni Mathiesen hafa síðustu daga skrifað undir skuldaviðurkenningar upp á hundruði milljarða.
Íslenskar eignir hafa verið hafa í stórum stíl verið gerðar upptækar til að borga skuldirnar.
RagnarA (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 02:25
Síðasti punktur í bloggfærslunni:
...er eitt af aðalatriðunum í þessum málum öllum, og verður seint ofhamrað á. Það er ekki hægt að leggja almenning að jöfnu við pínulitla elítu.
Vésteinn Valgarðsson, 23.10.2008 kl. 04:28
Athugasemd Baldurs er hrikalega vitlaus. Það vita það flestir að hærri ávöxtun fylgir meiri áhætta. Þess vegna er t.d lægri ávöxtun á ríkisskuldabréfum.
Íslendingar tóku ekki þátt í tilboðsstríðinu með ríkisábyrgðir á innistæðum, enda hefur ríkið ekki burði til þess. Af þessum sökum bjuggu íslenskir bankar við ósanngjarnar samkeppnisaðstæður gagnvart bönkum frá stærri ríkjum. Allt tal um að okkur beri nú að "standa við" ábyrgðir sem við veittum aldrei er gjörsamlega absúrd.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 04:45
Getur verið að að ástæðan fyrir því hvað Darling og Brown eru æstir að Breska fjármálaráðuneitið hafi lagt fast að sveitafélögum og opinberum aðilum að nota IceSave og jafnvel þvingað þessa aðila til þess?
Einar Þór Strand, 23.10.2008 kl. 08:29
Maður á erfitt með að trúa því, Einar Þór, en ekki er það útilokað og auðvitað ætti að spyrja þessa meintu ábyrgu aðila að því. Breska pressan ætti að vera búin að því þegar.
Maður hlýtur enn á ný að velta fyrir sér hvað sagt var í samtali Árna Matt og Darlings þann 7. október, eins og ég hef spurt að áður, en samtal það notuðu Darling og Brown til að frysta Íslensku bankana og Íslenska ríkið í ofanálag. Darling sagði að (Árni) Íslendingar hefðu, believe it or not, neitað að standa við ábyrgðir sínar og örfáum klukkustundum eftir símtalið var búið að frysta allt og breskan banka Kaupþings í kaupbæti!
Friðrik Þór Guðmundsson, 23.10.2008 kl. 08:56
Hér á landi hefur ekki komið fram hvort Brow og félagar hafi fryst gullforða Íslands, gjaldeyrisforða eða annað, sem skiptir okkur svo miklu máli að hafa aðgang að í dag.
Hafa skal í huga að Geir Haarde sagði gjaldeyrisvaraforða okkar duga til 9 mánaða rekstur þjóðarbúsins án tilliti til innkomu og ekki tók hann fram að grípa yrði til skömmtunar frá fyrsta degi.
Hvar er þessi gjaldeyrisforði sem Geir Haarde og ríkisstjórn Íslands sagði okkur frá fyrir þremur vikum síðan?
Frystur hjá „vinum“ okkar Bretum.
Já - skv. "Landsbanki Freezing Order 2008", en hvers vegna hefur enginn fréttamaður spurt t.d. Haarde að þessu beint og af krafti?
Gagnslausir - eins og svo oft áður? - eða bara fattlausir.
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 09:21
Það er nú en beðið eftir fréttum og er ekkert annað en að bíða og sjá hvað er á borðinu. Baldur verður bara að lesa Snorra Eddu til þess að rækta íslendinginn í sjálfum sér.
Annars er ég á þeirri skoðun að við íslendingar stöndum bretum framar á flestum sviðum, við erum skemmtilegri, fallegri, gáfaðri og kjarkmeiri heldur en bretar. Við þurfum heldur ekki að þjófkenna aðrar þjóðir til þess að breiða yfir haug af mannréttindabrotum í okkar eigin landi.
Svo legg ég til að við stækkum landhelgina út í 400 mílur, dustum rykið af klippunum sem nú verða tölvustýrðar og gefum þeim West Ham í jólagjöf.
sandkassi (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 09:54
Fjármálaeftirlitið íslenska er sem sagt stikkfrí? Veitir starfsleyfi, lofar ákveðinni tegund bótakerfis og hættir svo bara að fylgjast með?
Það stöðvaði þó ekki snillingana í að agítera fyrir íslensku bankanna líkt og auglýsingastofa væri.
Þegar ég segi að fólk hafi treyst "Íslendingum" þá á ég við nákvæmlega það. Eða hefur sjálfsblekkingin náð því stigi á Íslandi að útrásarvíkingarnir viðurkennast ekki lengur sem íslenskir?
Öll vorum við blekkt af bastörðum, en hvernig menn eru að afsaka stjórnvöld og embættismenn heima fyrir er algerlega ólíðandi.
Annars er ég sammála Agli með það að Íslendingar bera einungis ábyrgð upp á 20.000 evrum. Allt umfram það á að sjálfsögðu að útkljá fyrir dómstólum.
------
Eigi síðar en þremur mánuðum frá því að Fjármálaeftirlitinu bárust upplýsingar skv. 2. mgr. skal það senda staðfestingu til lögbærra yfirvalda gistiríkis á að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins.
Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum gistiríkis upplýsingar um eigið fé fyrirtækisins, gjaldfærni, tryggingar innlána og bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins. Hlutaðeigandi fyrirtæki skal samtímis tilkynnt að framangreindar upplýsingar hafi verið sendar.
Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.
(Lög um fjármálafyrirtæki 2002 / nr. 161 / 36. gr.)
baldur mcqueen (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 10:27
Það er bara svo margt óljóst í icesave málinu að arla nokur leið að festa fingur á.
En ég held að ísl. verði einfaldlega að semja um þetta einhvernveginn.
Ísland sem ríki hlýtur að verða að bera ábyrgð á lágmörkunum (um 20.000 evrur)
Það sem mér finnst samt dáldið furðulegt eru viðbrögð ríkisst. Breta.
Árni fjármálaráðherra segist hafa sagt við bretana; við borgum "direktífin" (sem er þá þessi lágmörk.
Annað, að hve há ætli samanlögð lágmörkin séu ? Er það ekki sirka þessi upphæð sem FT talaði um að bretar ætluðu að lána ísl.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.10.2008 kl. 11:23
"útrásarvíkingarnir viðurkennast ekki lengur sem íslenskir?"
Nei þú getur ekki dæmt þjóðina fyrir þessa menn. En þú verður líka að sjá hluta breta í þessu máli. Hingað til hef ég ekki séð þig færa nein rök í málinu nema gegn íslendingum.
Ég vil spyrja þig "mcqueen", ert þú íslendingur?
sandkassi (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 11:29
Það er algjörlega ástæðulaust að vera að veitast að Baldri hvað þjóðerni varðar. En um leið alger óþarfi af Baldri að tala um "Íslendinga" sem sökudólga hvað útrásarbankana varðar.
Kjarni minnar færslu var (sem Baldur segist sammála Agli um) að það verður að koma skýrt fram hvort til standi að láta Íslensku þjóðina borga Bretum (og fleirum) umfram alþjóðlegar skuldbindingar, með fjárkúgun/handrukkun. Við ætlum ekki að láta fjárkúga okkur, sagði Geir í Kastljósinu og það hljómar vel, en að fenginni reynslu treysti ég því ekki að þessi orð út af fyrir sig svari spurningu minni.
Og aftur spyr ég: Hvar eru peningarnir sem útlendingarnir lögðu inn á reikninga útrásarbankanna. Hvert runnu þeir? Er hægt að ná í þá (t.d. með ígildi hryðjuverkalaga!!!)?
Friðrik Þór Guðmundsson, 23.10.2008 kl. 13:04
Ég er ekki að veitast að honum, einungis að spyrja einfaldrar spurningar. Eins og ég sagði þá virðast öll hans rök beinast gegn íslendingum. Svar væri vel þegið.
sandkassi (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.