Ekki gleyma Framsóknarflokknum

Íslendingar eru hvarvetna óvelkomnir erlendis (einkum þó í Bretaveldi), mæta reiði og andstyggð, er meinuð innganga eða vísað burt. Slíkur er orðstír okkar um þessar mundir vegna útrásarsnillinganna, viðskiptabanka þeirra (sjóða!) og getu- og eftirlitsleysis stjórnvalda. Bretar hafa ekki aðeins fryst Landsbanka og Íslenska ríkið, heldur lagt venjulega Íslendinga í klakabönd.

Í öllum ömurlegheitunum fær stjórnarandstaðan eðlilega að tjá sig og eins og gefur að skilja hefur hún fátt gott um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að segja. Þó vakti óþarflega litla athygli þegar Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sagði á þingi á dögunum að ekki ætti að skipta um ríkisstjórn; efna til stjórnarkreppu og kosninga. Guðni veit sem er, þótt hann gagnrýni út og suður, að Framsóknarflokkurinn þolir illa of mikið dagsljós þegar aðdragandi kreppunnar á Íslandi er skoðaður.

Það er enda full ástæða til að gleyma ekki þætti Framsóknarflokksins. Sá flokkur sat linnulaust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 23. apríl 1995 til 24. maí 2007 eða í rúm 12 ár. Rétt er að halda til haga eftirfarandi:

Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra og leiðtogi nr. 2 nánast allan tímann (á eftir Davíð) og um skeið forsætisráðherra.

Finnur Ingólfsson, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra 23. apríl 1995 - 31. des. 1999.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 31.12.1999  til 15. júní 2006. Meðan hún var bankamálaráðherra (í 6 og hálft ár) var bönkunum gefnar algerlega frjálsar hendur en Fjármálaeftirlitið mátti hafa hendur sínar bundnar. Bindiskylda bankanna var afnumin.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 15. júní 2006 til 24. maí 2007.

Valgerður, Jón, Halldór og Davíð Oddsson stýrðu efnahags- og bankamálum á veigamestu útrásartímunum og hönnuðu hið ófullnægjandi eftirlitskerfi.


mbl.is Óvelkomnar í gæludýraverslun í Glasgow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Alveg hárrétt. Ég hef bent á þetta líka í mínum pistlum en ekki farið svona nákvæmlega út í hlutina eins og þú.

Við megum engu gleyma.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.10.2008 kl. 10:12

2 identicon

Já menn mega ekki gleyma því að framsókn var við stýrið lengi vel... og svo samfylking, ekkert af þessu liði spáði í þessum málum þó svo að þeir hafi verið margvaraðir við.
Þessir 3 flokkar er aðalsökudólgarnir í þessu máli, þessu má fólk alls ekki gleyma.
Með réttu ættu þessir flokkar að hverfa af sjónarsviðinu í næstu kosningum... ef það gerist ekki þá verð ég að segja að íslendingar eru fífl og eiga skilið að fara í ræsið... SORRY

DoctorE (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 10:15

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er auðvitað rétt að halda vel til haga þætti Framsóknarflokksins í hrunadansi undanfarinnar ára. Sá flokkur á í engu að sleppa undan ábyrgð sinni.

Hæfileg refsing fyrir Framsóknarflokkinn væri, að hann þurrkaðist út við næstu alþingiskosningar.

Jóhannes Ragnarsson, 22.10.2008 kl. 10:27

4 identicon

Takk fyrir þessa samantekt. Merkilegt að þessi vinkill hefur ekki verið sýnilegur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 10:36

5 identicon

Sumum lætur líka vel að minnast í engu á að Fjármálaeftirlitið er búið að heyra undir ráðherra Samfylkingarinnar síðan í fyrravor og seðlabankastjórar og stjórn sitja auðvitað lika á ábyrgð Samfylkingarinnar. Opnum svo bókhald stjórnmálaflokkanna í eitt skipti fyrir öll. Þá fyrst verður hægt að skúra út.

Gáfnaljósið (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 10:36

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta liggur fyrir "Gáfnaljós" (!). Ég er "bara" að segja: Ekki gleyma aðdragandanum og samábyrgð fyrri ríkisstjórna og þar með Framsóknarflokksins (sem þú líkast til tilheyrir). Almennt séð og yfirleitt hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei haft áhuga á sterku og virku fjármála- og samkeppniseftirliti. Sá flokkur er efst á lista, síðan koma Framsókn og Samfylking.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 11:49

7 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Friðrik.

Ég verð að viðurkenna að þú veldur mér vonbrigðum. Með alla þína reynslu við fjölmiðlun, hlýtur þú að geta fært fram betri rök fyrir því hvernig þú ætlar að klína sök á framsóknarmenn. Eftirlitskerfið sem þú nefnir er að alþjóðlegri fyrirmynd og vil ég benda þér t.d. á að lesa tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr 12/2000, um stofnun og rekstur lánastofnana. Við erum líka aðilar að EES samningnum, sem setur pínulítið strik í reikninginn, svo það væri MJÖG fróðlegt að fá ráðgjöf frá þér, sem þú væntanlega byggir á þinni aldarfjórðungs reynslu, um það hvað þú sjálfur hefðir gert öðruvísi.

Eða ertu kannski bara á veiðum??

Helga Sigrún Harðardóttir, 22.10.2008 kl. 13:58

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þú veldur mér sömuleiðis miklum vonbrigðum, Helga Sigrún. Verulegum. Lög eru eitt, framkvæmd annað - það veit lífsreynt fólk. Lög geta verið uppfull af fallegum meiningum, en reyndin allt önnur. Þú getur þulið upp allar þær tilskipanir og lög sem þú vilt en það dugar ekki til.

Þú kallar mig (ígildi) menntaskólakrakka á framsóknargræna blogginu þínu og vísar til einhverrar "nákvæmari" reifunar á málunum á vefsíðu Framsóknarflokksins. En það er ekki trúverðug heimild að mínu mati og það mat ætla ég að leyfa mér að eiga hvað sem þínu mati varðar og Framsóknarflokksins.

p.s. ég er ekki með "mörg" háskólapróf, eins og þú leyfir þér að segja ósatt um á blogginu þínu. Ég er með tvö. Tvö er ekki mörg, en þú lærðir kannski annars konar reikning en ég? 

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 14:24

9 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Skrýtið að maður með alla þessa fjölmiðlareynslu skuli ekki vilja sjá nema eina hlið mála? Og ekki eiga betri rök... en þú verður að eiga það við sjálfan þig.

Helga Sigrún Harðardóttir, 22.10.2008 kl. 14:29

10 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Jahérna. Helga Sigrún virðist í fullri alvöru halda að Framsóknarflokkurinn beri enga ábyrgð á hvernig komið er í efnahagmálum þjóðarinnar.

Annað hvort er, að Helga Sigrún álítur almenning samansafn af 100% vitleysingum, eða það er eitthvað bogið við hana sjálfa og trúsytkyni hennar. Það þarf a.m.k. töluverða óskammfeilni til að halda fram sakleysi Framsóknarflokksins eins og hún gerir.

Jóhannes Ragnarsson, 22.10.2008 kl. 14:35

11 identicon

Hver er bankamálaráðherra í dag?

Steinþór (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 15:03

12 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Og kannski er eitthvað bogið við þinn málflutning Jóhannes. Það væri þá ekki í fyrsta skipti!

Helga Sigrún Harðardóttir, 22.10.2008 kl. 15:15

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sko, jú jú, í EES er náttúrulega þetta "frjálst fjármagnsflæði" og sona.  Leyfi til að stofna banka eðaútibú erlendis etc.  En það þýðir ekki að þeir þurfi að vera eftirlitslausir og engum komi við hvernig að málum er staðið á flestann hátt.

En eg held að það komi skýrt fram að slík starfsemi er á ábyrgð heimaríkis.  Td. í tilfelli Íslands er Fármálaeftirlitið mikilvægur aðili.

Eg er farinn að hallast að því að Fjármálaeftirlitið hafi verið  hvorki fugl né fiskur.  Eitthver smá kontor bara í samanburði við umfang bankanna og óvinnandi verk fyrir þá að hafa eitthvert eftirlit að viti með starfsemi þeirra undanfarin ár.

Ergo: Það var auðvitað vítavert gáleysi af Íslenskum stjórnvöldum að búa þannig um hnútanna að bankarnir gætu stofnað þjóðarhag í hættu.  (En þetta var að vísu kennisetningin.  Best að hafa sem minnst eftirlit.(

Í Íslands tilfelli var auðvitað einstaklega mikilvægt að allt væri undir kontrol.  Það gerði örgjaldmiðillinn sem guttarnir álitu mikla snilli að æða með útí galopið globalt peningakerfi... meina, það er bara eins og það hafi ekki verið í lagi með menn !

Hvaða aðila með fullu viti dettur í hug að bankar geti skuldsett sig svo og svo margfada þjóðarframleiðslu með aðstæður í heimaríki eins og var í tilfelli Íslands ?  Nei, ég veit það ekki.  Líklega rétt hjá Norðmanninum sem sagði að íslendingar hefðu verið heppnir að kreppan kom núna og stoppaði dæmið.  Ef ástandið hefði fengið að vinda uppá sig 2-3 ár í viðbót þá hefi það verið algjörlega óviðráðanlegt.

(Og auðvitað bera Frammarar ábyrgð og hana stóra.  Þeir létu frjálshyggjuguttana valtra yfir sig, fyrst áfram og síðan afturábak.  Engin fyrirstaða.  Gamla félagshyggjuframsókn  var jörðuð.  Horfin.  Ég er hræddur um að Jónasi frá Hriflu og Hermanni gamla hefði brugðið í brún að sjá slíkt.  Eg er hræddur um það.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.10.2008 kl. 15:31

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Helga Sigrún; eina hlið mála? Það er rangt hjá þér. Ég skoða allar hliðar, í réttri forgangsröð út frá trúverðugleika. Það hlýtur að koma að reifuninni. Þú verður að átta þig á því að ég er ekki starfandi blaðamaður og er ekki á launum við að viðra hér mínar persónulegu skoðanir. Maður leggur því ekki hvað sem er á sig!

Steinþór; Bankamálaráðherra í dag er Björgvin G. Sigurðsson. Ráðherra efnahagsmála er Geir (það er sem sagt á verksviði forsætisráðherra).

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 16:02

15 identicon

Flestir framsóknarmenn hafa vit á því um þessar mundir að læðast með veggjum og láta lítið á sér bera. Það er skynsamlegt. En ekki er öllum sú skynsemi gefin, sumir hrópa upp "þetta er ekki okkur að kenna" sem að sjálfsögðu beinir athyglinni að þeim.

"EES setti leikreglurnar" segja sökudólgarnir. Ég hef heyrt því haldið fram (einhver getur leiðrétt eða staðfest) að EES samningurinn feli í sér ákveðin grunnlög, sem hverju ríki er síðan heimilt að byggja frekari reglugerðir á.

Öllum er kunnugt um þátt framsóknarflokksins við einkavæðingu bankanna. Þegar einnig er litið til þess að þessi flokkur fór með stjórn viðskipta og bankamála í meira en áratug undrar mig að einhver skuli efast um sök flokksins á því ástandi sem upp er komið.

Framsóknarflokkurinn lagði kræsingarnar fyrir framan hungraða úlfana, - og losaði böndin. Ef þessi flokkur hefði verið starfsmaður hjá einkafyrirtæki hefði hann ekki bara verið rekinn, heldur einnig dæmdur til refsingar - fyrir stórkostlega vanræksu í starfi.

sigurvin (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 18:06

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Svona, svona, Árni. Helga Sigrún er holl sínum flokki og ber að virða það. Hún trúir á flokkinn sinn og trúir því sem leiðtogar hennar segja. Við erum á öðru máli og erum sjálfsagt ósammála innbyrðis.

Flokkshollusta og leiðtogadýrkun er með ýmsum hætti og langar mig til að setja hingað inn kommenti frá mér á færslu Gunnars Waage í gær eða fyrradag: 

"Það er til annars konar Davíðs-heilkenni, Gunnar. Það er fólgið í því að sjá í Davíð oddssyni ekkert annað en snilling, besta stjórnmálaskörung Íslandssögunnar (og þótt víðar væri leitað), ofurmann raunar. Þá telst Ísland vart hafa verið til fyrir daga Davíðs nema í moldarkofum, hnepptir í helsis-ánauð kommúnisma og SÍS-isma, forugir og horugir, sífullir og driftlausir. Fyrir þetta fólk byrjaði nútíma-tilvist ekki fyrr en Davíð varð borgarstjóri og tók ekki að blómstra fyrir alvöru fyrr en 1991 þegar hann varð forsætisráðherra og "innleiddi frelsið".

Fyrir þetta fólk er sérhver gagnrýni á Davíð guðlast og öfundsýki, enda er hálf-guðinn óskeikull og orð hans eru Biblía. Allt sem aflaga fer er vitaskuld öðrum að kenna; fólki sem syndgar gegn orði Davíðs.

Í upphafi var orðið og orðið var Davíð. Amen".

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 18:09

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Framsóknarflokkurinn  myndaði fyrstu helmingaskiptastjórnina árið 1950 og síðan aftur 1974-78, 1983-87 og loks 1995-2007. Síðasta tímabilið er í raun að enda nú, þótt rúmt ár séð síðan Framsókn fór úr stjórn.

Það var Framsókn sem fékk Búnaðarbankann í sinn hlut í einkavæðingu bankanna á gjafverði til handa gæðingum sínum og gekk fram í því með uppsprengingu húsnæðislánakerfisins og virkjanaframkvæmdum 2003 að setja af stað þá þenslu, sem varð fljótt óviðráðanleg í taumlausri græðgisvæðingu.

Ómar Ragnarsson, 22.10.2008 kl. 22:05

18 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hin blinda pólitíska afneitun lýsir sér vel í skrifum Helgu Sigrúnar. Þessi blinda stjórnarherranna sem hér hafa farið með stjórn mála undanfarin kjörtímabil er búin að koma okkur á kaldan klaka. Af hverju sáu framsóknarmenn allt í einu blikur á lofti um leið og þeir voru komnir í stjórnarandstöðu?  Var það af því að þá var  pólitísku afneituninni allt í einu aflétt, eða urðu þeir allt í einu svona  gáfaðir? Allir meðalgreindi  menn voru þá löngu búnir að sjá hvert stefndi.  Sjálfstæðismenn sáu hins vegar ekkert athugavert fyrr en hrunið blasti við. Bara af því að þeir sátu áfram við stjórnvölinn og kíkirinn var hafður fyrir blinda auganu.   Þá vaknar spurningin  hvort er verra  að  neita staðreyndum vegna pólitísks rétttrúnaðar eða að vera illa greindur.  Mín niðurstaða er sú að þetta  sé skynsamt fólk.  En það neitaði að viðurkenna staðreyndir og fyrir stjórnmálamann er það meiri ókostur en að vera vitgrannur.  Afleiðingarnar blasa nú við þjóðinni.

Þórir Kjartansson, 22.10.2008 kl. 22:15

19 identicon

Helga er algerlega blind... hún finnur sér forystusauð og fylgir honum í blindni... fram af klettum... en samt segir hún að sauðurinn sé svalur.
Þetta er gott dæmi um "group thinking"

DoctorE (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 10:39

20 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

"Það var Framsókn sem fékk Búnaðarbankann í sinn hlut í einkavæðingu bankanna á gjafverði til handa gæðingum sínum og gekk fram í því með uppsprengingu húsnæðislánakerfisins og virkjanaframkvæmdum 2003 að setja af stað þá þenslu, sem varð fljótt óviðráðanleg í taumlausri græðgisvæðingu."

Þið hljótið að vera að grínast?? Hvar hefur þessi maður verið á undanförnum árum?

Ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu að Búnaðarbankinn var seldur HÆSTBJÓÐANDA á markaðsvirði sem fékkst fyrir hann... átti að selja hann lægstbjóðanda af því sá stóð einhver staðar annars staðar í pólitík? Hvaða kjaftæði er þetta?

Baulið um 90% lánin er er þvæla frá upphafi til enda... enda voru bankarnir farnir að bjóða 100% lán án þaks og skilyrða um raunveruleg kaup um það leyti sem ÍLS var að byrja að taka sín varfærnislegu fyrstu skref með öllum sínum skilyrðum og þökum.

Og svo held ég það sé til lítils að reyna að svara Ómari Ragnarssyni með vitrænum hætti nokkru sem varðar nýtingu náttúruauðlinda. Hef ekki séð að það hafi orðið nokkrum til gagns.

Helga Sigrún Harðardóttir, 23.10.2008 kl. 15:41

21 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er næsta öruggt að mistök hafa verið gerð í peningamálastjórn og stjórnsýslu. Það verður að fara fram opinská umræða um það. Vonandi verður hin nýja staða til að ný sýn kemur innan flokkanna. Það er hugsanlega betra fyrir Ísland að stjórnmálaflokkarnir breytist fremur en að þeir leysist upp.

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnumanna, flokkur þeirra sem aðhyllast það að manngildi sé ofar auðgildi. Þannig hafa flestir framsóknarmenn alltaf hugsað. 

Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinnn flokkur sem barðist fyrir sjálfstæði Íslands gagnvart Dönum. Svo er ekki lengur.

Einu sinni var aðalmál herstöðvarandstæðinga að herstöðin færi. Svo er ekki lengur.

Flokkar geta breyst eins og fólk.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.10.2008 kl. 21:12

22 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég er framsóknarmaður. En ég ætla ekki að læðast með veggjum fyrir það.

Ég skal viðurkenna að ég er af gamla skólanum. Hreifst af flokknum um það leyti sem Steingrímur Hermanns tók við formennsku. Hann var ástsæll leiðtogi, kannski ekki síst fyrir að kunna að viðurkenna mistök þegar við átti. Eflaust var hann mistækur, en man einhver eftir betri forsætisráðherra síðan 1980?

Ég er ekki stoltur af pakki eins og Halldóri Ásgríms, Finni Ingólfs og Birni Inga. Ég var búinn að fá upp í kok og farinn að íhuga að kjósa eitthvað annað.

Þá kom Jón Sigurðsson fram. Merkilegt nokk, þrátt fyrir að Halldór hefði stungið upp á honum þegar hann fékk ekki Finn, þá held ég Jón hafi verið einhver besti forystumaður sem framsókn fékk í langan tíma. Mjög lýðræðislegur og á hans tíma gekk flokkurinn í að játa mistök (sbr. Íraksstríðið).

Ég held að framsókn þurfi að halda áfram á þeirri braut. Að vísu var brekkan niður á við bröttust eftir síðustu stjórnarskipti, en ef við ætlum að segja að ekkert sé okkur að kenna, þá er það stærilæti.

Já, við höfðum bankamálin lengi á okkar könnu. Já, trúðurinn Finnur Ingólfs var þar. Og þó Valgerður og Jón séu vandaðri stjórnmálamenn, þá hafa þau eflaust gert mistök líka.

Flokkurinn er ekki fullkominn. En það sama á við um þjóðina Íslendinga, og mannkynið allt. Við þurfum að læra af mistökum og feta nýjar brautir.

Framsókn þarf að endurskipuleggja sig og finna rætur sínar. En geri hann það, þá á hann mikið erindi inn í íslensk stjórnmál. Hann þarf að höfða til fólksins, en ekki með tækifærismennsku, heldur með einlægni, heiðarleika og þekkingu. Þetta vil ég sjá.

Einar Sigurbergur Arason, 31.10.2008 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband