Af hverju sagði enginn okkur neitt?

Þegar við farþegarnir afturí horfum nú út um afturgluggann og sjáum í forundran rústirnar þá hljótum við að spyrja fólkið í framsætunum - af hverju sagði enginn okkur neitt? Okkur var bara sagt að góðærinu væri lokið og að við tæki samdráttur - en enginn sagði okkur af þeim möguleika að allt gæti og væri líklegt til að fara á annan endann. Er það nokkuð?

Hvorki stjórnarflokkar né stjórnarandstaða sögðu okkur frá líklegum stóráhrifum og afleiðingum hinnar alþjóðlegu krísu á okkur.Enginn af snillingunum í greiningardeildum bankanna vöruðu okkur við og sögðu okkur t.d. að dreifa og tryggja á annan hátt sparnað okkar. Og því miður fyrir mína stétt þá bættu fjölmiðlar hér ekki úr með raunsæjum "dómsdagsspám", "svartagallsrausi" og "fjölmiðlafári".

Hví? Mátti ekki segja það? Kannski þurfti að tala varlega? En, bíddu við, hafa ekki sterk orð fallið á undanförnum mánuðum að staða þjóðarbúsins og fyrirtækjanna væri þrátt fyrir allt STERK og bara lægð framundan? Erum við enda ekki búin að lesa um það í mörg árs hversu einkum bankarnir væru að skila tugmilljarða hagnaði á hverju ári, gott ef ekki ársfjórðungi? Og voru Seðlabanki og Fjármálaeftirlit ekki einmitt að fylgjast með eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankanna - fyrir OKKAR hönd? Var einhverá þeim bæjum, einhverjir snillinganna þar, að impra á því að ósköp gætu dunið á?

Mátti kannski ekki segja okkur neitt af ótta við viðbrögð okkar? Voru allir snillingarnir og sérfræðingarnir sammála um það að segja Jóni og Gunnu ekki frá hinni miklu vá - af því að við værum svo... gjörn á að örvilnast og grípa til óþarfra ráðstafana?

Mátti ekki segja að krónan væri svo ömurleg að Jón og Gunna ættu kannski að kaupa sér Evrur? Að staða bankanna væri svo tæp að ráðlegt væri að dreifa sparnaði OKKAR þar og grípa til skynsamlegra ráðstafana? 

"Subprime" loans í Bandaríkjunum, Fanny Mae og allt það - alþjóðlega krísan sem forsætisráðherrann talar um - blasti þetta ekki við sérfræðingunum og snillingunum? Áhrif þessa og keðjuverkanir - áttu sérfræðingarnir ekki að geta séð möguleg og líkleg stóráhrif á okkur og afleiðingar, nóg til þess að siðferðilega væri rétt af fólkinu í landinu að huga að eignasamsetningu sinni og skuldum, byrja að semja við lánadrottna tímanlega o.s.frv? Ég man bara eftir kurteisum orðum um lægð og að góðærinu væri kannski lokið í bili.


mbl.is Glitnisaðgerð ekki endapunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held nú reyndar að fólk hafi sagt þetta oft með beinum eða óbeinum hætti. Margir vöruðu við  gengisfalli, margir vöruðu við að íslenskir bankar eru ofvaxnir miðað við landið og það er mikið fé í jöklabréfum eða alls konar gengismunalánum.

það hins vegar kemur alltaf jafnmikið á óvart hvað keðjuverkunin er mikil, þetta er eins og snjóskriða sem byrjar að falla og verður meiri og meiri þegar hún fellur til jarðar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.10.2008 kl. 09:31

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er einmitt að tala um það, Salvör, að okkur var sagt að það væru holur í veginum framundan, ekki að vegurinn gæti og myndi rofna og við kannski steypst niður í gil. Kannski átti ekki að tala um eld og brennistein, en andskotinn hafi það það mátti segja þjóðinni með ákveðnari hætti að huga að eigna- og skuldasamsetningu sinni með áþreifanlegum hætti. Líklega hafa bankarnir brugðist okkur mest og þeirra greiningadeildir og þjónustufulltrúar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 09:39

3 identicon

Auðvitað var margoft búið að tala um hættuna á að illa kynni að fara. Þeir sem voguðu sér hins vegar að láta eitthvað slíkt frá sér fara þóttu hins vegar hundleiðinlegir og ekkert skemmtilegir viðmælendur.

* Ef það voru útlendingar sem voguðu sér að tala á þessum nótum, þá var skýringin annað hvort sú að þeir væru öfundsjúkir (eða skildu ekki snilld íslenskra viðskiptamanna og víkingaeðlið) eða að annarleg sjónarmið réðu ferðinni og þeir ættu hagsmuna að gæta af því að tala niður íslenskt efnahagslíf.

* Ef það voru Íslendingar sem létu slíkt út úr sér, þá var skýringin líka öfund eða að viðkomandi skildu hreinlega ekki nútímahagkerfi og vildu helst hverfa aftur til ársins 1978 (hohoho!)

* Síðast en ekki síst, var hverri gagnrýnisrödd svarað með því að draga fram 3-4 álitsgjafa sem dásömuðu snilli Íslendinga í peningamálum.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 09:43

4 identicon

Þeir sem vöruðu við voru Davíð nokkur og svo útlendingar, aðallega í Danmörku og Bretlandi, sem sagt var að væru bara öfundssjúkir og eða vissu ekki hvað þeir voru að tala um og uppskáru háð og spott.

Fyrir utan "óvart-hagnað" við sölu hlutabréfa í EasyJet getur einhver bent á viðskipti útrásarvíkinganna, sem skilað hafa "öllum þessum" hagnaði til landsins - sem lofað var?

Áttavilltur maður veit ekki hvert skal halda, landið að verða olíulaust og ekki til erlendur gjaldeyrir til að kaupa sbr. viðtal við forstjóra N1-s í Viðskiptablaðinu í dag.

Skárra er það nú sjálfstæðið!

Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 10:03

5 identicon

Viðkvæði stjórnmálamanna í  dag er "Það gat enginn séð þetta fyrir". Þetta er rangt eins og allir vita, margir vöruðu við. Rakst á þessa grein í morgun:  http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=791753

Hér er í grein frá 2004 varað við ástandinu en ekki mátti taka mark á "svrtsýnisrausi og niðurrifsstarfsemi". Bönkunum var örugglega fullljóst hvaða afleiðingar ofurfjárfestingar og lántökur íslenskra fyrirtækja og banka erlendis myndi hafa en þar var eingöngu horft á skammtímasjónarmið og skyndigróða.

Stjórnmálamenn báru -og bera enn- ofurvirðingu fyrir hinum snjöllu útrásarvíkingum og þorðu ekkert að segja né gera sem gæti spillt fyrir þeirra bisniss (að víðu er til eitt frægt dæmi þar um) enda hótuðu þessir aðilar að "flytja starfsemina til útlanda" ef þeirra hastæða lagaumhverfi yrði eitthvað skertt.

Er ekki prógrammið í stjórnmálamönnunum ennþá stillt á þennan tíma? Ekkert má segja, gera, vara við, sem getur spillt fyrir auðjöfrunum. Skítt veri með pakkið.

sigurvin (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 12:07

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Davíð!? hverju varaði hann alþýðu manna við? Ég man ekki eftir rassgati í bala þaðan. Man hins vegar að í bræðis- og æðiskasti fór hann eitt sinn með fjölmiðla á hælunum í KB-banka og tók út allar innistæður sínar þar, vegna persónulegra skoðana sinna í garð vissra einstaklinga. En það var í miðju góðærinu.

Hefur einhver farið í banka í dag? Ég ætlaði að taka út dollara þar (mína eigin, ekki kaupa af bankanum, til að geyma undir koddanum um hríð (eða þannig sko)), en fékk smá smávegis upp í og varð að panta restina til að sækja í Mjóddina á mánudag. Bankinn var með bara smáræði af gjaldeyri. Hvurs lags eiginlega er þetta?

Ég hef minni áhyggjur af því að landið verði olíulaust, en samt; allsvakalegt ef ekki verður til bensín fyrir bílana. Þeir halda samfélaginu gangandi (eða akandi).

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 13:20

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þetta er að mörgu leyti hárrétt hjá þér, en kannski ekki að öllu leyti.

Margir voru búnir að vara okkur við, m.a.. Davíð Oddsson, sem ráðlagði fólki að taka ekki lán í erlendri mynt. Menn vöruðu við græðgisvæðingunni frá hægri til vinstri. Bjarni Ármannsson - hinn brosmildi, góði tengdasonur þjóðarinnar og maraþonhlaupari - sem á líklega mesta sök á því, hvernig fór fyrir Glitni og stakk af með milljarða út úr öllu saman, varaði þjóðina líka við.

Þessar viðvaranir voru bara ekki nógu sterkt orðaðar - það hefði þurft að mála þetta í sterkari litum.

Hins vegar er allt málað í of sterkum litun núna og ástandið - held ég - ekki jafn slæmt og fólk heldur. Útflutningurinn gengur vel og hefur aldrei verið meiri. Innflutningur hefur minnkað gífurlega og viðskiptajöfnuðurinn er að ná jafnvægi. Ef það væri ekki fyrir þessa bankakreppu og okkar handónýtu mynt værum við í stórfínum málum.

Ég hef fylgst náið með þýskum, breskum og bandarískum fjölmiðlum undanfarna daga. Þýskir bankamenn, viðskiptajöfrar og stjórnmálamenn segja að þeirra happ sé núna að hafa evruna og hrósa henni í hástert hvað hún hefur staðið þetta óveður vel af sér. Þeir segja öll lönd ESB í raun hagnast af evrunni um þessar mundir og styrk Evrópska seðlabankans.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.10.2008 kl. 13:44

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Í færslunni minni tek ég viljandi mjög sterkt til orða, vitandi vits að sumir voru kurteisilega að reyna að benda og ráðleggja. Eimitt kannski of kurteisislega, ofan í bjartsýnishjal ráðamanna og forstjóra.

Á tímabili var virkni í sambandi þjónustufulltrúa bankans míns við mig, með boðum um ráðgjöf og vildarkjör. Ég hef ekki heyrt í þjónustufulltrúa lengi. 

En sumir fjölmiðlar hafa vissulega reynt að mála myndina réttum litum (og það kallað æsifréttamennska kannski). Mér er ljúft og skylt að koma eftirfarandi á framfæri frá ritstjóra DV, Jóni Trausta Reynissyni:

"Það er rétt að upplýsingar sem voru fyrirliggjandi strax í janúar gáfu til kynna að hætta væri yfirvofandi, og þá sérstaklega fyrir skuldsetta íbúðaeigendur. Samt voru þeir sem vöruðu almenning við hættunni gagnrýndir, bæði af stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og formanni félags fasteignasala, svo eitthvað sé nefnt... við reyndum, allt frá janúar, að vara fólk við á mannamáli, á meðan leiðtogar þjóðarinnar gerðu lítið úr hættunni. Einhvern veginn var viðhorfið það að ekki mætti „tala niður“ efnahagslífið, og því fékk almenningur fyrst og fremst hvítar lygar.

 Sjá grófa upptalningu fyrir neðan.

 Bestu kveðjur,

Jón Trausti

 17.01.2008 - Ekki kaupa íbúð (fors) og Ekki kaupa strax (grein)

 11.02.2008 Bankar hætta að lána (forsíða og grein)

 13.02.2008 - Tugprósenta verðhækkanir

 05.03.2008 - Yfirdrátturinn yfirþyrmandi

 19.03.2008 - Skelfilegar verðhækkanir (grein og forsíða)

 20.03.2008 - "Framtíð margra heimila er í húfi"

 27.03.2008 Þið tapið milljónum á íbúðinni (grein og forsíða)

 03.04.2008 Borgum tíund í vexti

 15.04.2008 Skuldug skólastúlka út í netvændi

 29.04.2008 Risahækkun fasteignalána (forsíða og grein)

 17.06.2008 Síðasti séns fyrir sólarferð

 25. júní 2008 Á bara eftir að hækka (forsíða og grein)

 15.07.2008 Þú borgar 115 þúsund meira

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 14:12

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hér er kannski vísbending (mbl.is):

"Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í fréttum Útvarpsins, að mikilvægt væri að menn töluðu varlega um efnahagsástandið vegna þess hve allt væri kvikt bæði hér og annarstaðar. Afar þýðingarmikið sé að menn, sem teknir séu alvarlega vegna fræðaþekkingar sinnar, tali eins varlega og þeir geti án þess að tala sér þvert um hug. Heilu hagkerfin hristust ef rangar fréttir bærust".

En ég vil sem sagt meina að menn hafi tala svo varlega að fólk fékk einmitt RANGAR fréttir...

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 14:18

10 identicon

Það er makalaust að ekki hefur nokkur fréttamiðill talað við formann bankaráðs Landsbanka Íslands.  Ætli það sé tilviljun?

Er verið að hlífa honum sérstaklega? Eða er mögulega verið að forða þjóðinni að fara hjá sér við að hlusta á mann, sem ekkert getur sagt um bankamál - þótt í teinóttum fötum sé?

Miðað við fréttir á vefmiðli í þessu (DV) mætti ætla að síðuúthaldari hér hafi lagt leið sína í Landsbankann og ekki fengið dollara ... bara cent !

Sir Price (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 14:29

11 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Er ekki málið að menn Glittnis vissu vel af þessum möguleika en þorðu ekki að segja frá vegna ótta um að bankinn færi endanlega í þrot ?

Ég trúi ekki öðru nema "mannleg hegðun" hafi valdið þessu geigvænlega hruni.  Ég trúi því ekki að Davíð Oddson og félagar hans í seðlabanka grípi til slíkra örþrifaráða nema vegna gríðarlegs ótta um að bankinn hafi verið að fara á hausinn. Samsæriskenningar um hatur hans á Jóni ásgeriri er eitthvað sem ég vil fá algjöra sönnun fyrir því ég trúi ekki að nokkur maður myndi gera slíkt við þessar aðstæður. 

Annars... held ég að skýringin sé sú að þjóðhagsstofnun var lögð niður en hennar verk var einmitt að búa til viðvaranir um efnahagslífið. 

Ef þú skoðar þessa frétt.... og dagsettninguna 

þá finnst mér fréttin segi það sem segja þarf..

Viss hroki í ráðamönnum um gagnsleysi þessarar stofnunar sem ég tel að sé að ríða þeim til falls núna. 

Annars ítreka að ég er engin fjármálaspekingur og er eingöngu að koma hér með svona hálfgerða kaffihúsaheimspeki sem lítið marktakandi er á.  

Brynjar Jóhannsson, 3.10.2008 kl. 15:27

12 identicon

Ég á ennþá þessa stóru grein frá danska viðskiptabladinu Boersen fra 6. mars 2006 "Et edderkoppespind af risiko" Hér var íslenska "kerfið" greint á fágaðan og ítarlegan hátt og bent á kosti og galla en einnig stóra hættu ef illa áraði. Þessi sama grein var birt í dagblöðum á Ísland í mjög mikið styttri úgáfu og þannig klippt, skorin og útúrsnúin að það leit út sem allgjört þvaður og blaðið, já danir almennt væru bara með skítkast út í Íslendinga og þar að auki grænir af öfundsýki! Þann dag varð ég fráhverfur hinum íslensku, svokölluðu "óháðum" fjölmiðlum.

Nú vill ég ekki vera einhver leiðinda svartsýnisrausari. En það sem er að gerast núna er nánast sem leikgerð beint upp úr FYRSTA hluta greinarinnar um áhættumöguleikana við Íslenska "kerfið". Ég vona að við komum aldrei til annars kafla!

Thor Svensson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 15:28

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það eru nokkrar ástæður fyrir andvaraleysi íslenskrar alþýðu nú. Ein stór ástæða er að stærstu fréttamiðlar okkar voru (og eru) með einum og öðrum hætti tengdir þeim fjármálamönnum sem virtust geta búið til peninga úr engu. Fjölmiðlar dásömuðu snilld þeirra og töluðu um afrekin og ársreikningar fyrirtækja sýndu mikinn hagnað. Stundum var þessi hagnaður tilkominn vegna þess að pappírsfyrirtæki í gegnum krosseignatengsl keyptu hvert af öðru.

Ein ástæða er líka að stjórnmálamenn ofmeta vald sitt og áhrif. Í fyrsta lagi ofmeta þeir möguleika sína til að hafa áhrif á gang heimsmála, þeir halda að þeir ráði við ástand sem þeir ráða alls ekkert við. Í öðru lagi þá halda þeir að með orðum sínum þá geti þeir haft áhrif, geti blöffað svo mikið að þeir geti talað gengið upp og niður. Til skamms tíma er það hægt, til skamms tíma er hægt að tala gengi upp og niður. En til lengdar þá er það ekki hægt. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.10.2008 kl. 16:30

14 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Það þarf að gera eitthvað af viti og hætta að þrasa og þrugla um hvernig ástandið er og hverjum það sé að kenna.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.10.2008 kl. 17:39

15 identicon

Auðvitað á að komast að því hvers vegna eitthvað gerðist og ef það er kallað "þras og rugl" að komast að því hverjum er um að kenna þá er það bara svo.

Sé ekki komist að því hvað gerðist (hverjum sé um að kenna); hvað sé að þá er jú ekki hægt að gefa meðalið - og alls ekki hægt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir annað eins aftur.

Er þetta ekki svona "elementary" eins og Holmes sagði við Watson? 

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 18:16

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Auðvitað verður að kryfja vandann til að læra af honum. Fyrir utan hið auljósa; að era eitthvað af viti.

Ég var hins vegar ekki síst að velta fyrir mér hver hefði átt að gefa okkur góð ráð, eftir að hafa sagt okkur að taka varnaðarorðin alvarlega en ekki af kæruleysi. Fyrir hverja vinna greiningardeildirnar? Hvar liggur hollusta þjónustufulltrúanna? Átti Fjármálaeftirlitið að segja eitthvað djúpt? Neutendasamtök og Talsmaður neytenda? ASÍ? Ingólfur Ingólfsson ráðgjafi? Mátti virkilega enginn segja fólki hreint út að nú væri best að huga að bankainnistæðum, fyrir utan að taka til í skuldamálum? 

Var bannað að tala um kreppu af því að það ýtti undir kreppu? Voru stjórnvöld og stofnanir nauðbeygð til að segja: Allt er í himnalagi? Er Björgvin bankamála nauðbeygður til að segja að sparifé fólksins sé gulltryggt, en er það kannski ekki?

Við hjónin fórum í banka í dag og ætluðum að taka út dollarana okkar, en fengum það ekki - dollararnir okkar voru ekki til í bankanum. Hvurn fjárann á það að þýða?

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 22:24

17 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þú átt ekki bankann heldur hann þig. Ert þú að hugsa um hag bankans þegar þú leggur inn spariféð þitt eða tekur lán? Hver ætlar að græða þegar spilað er í happdrætti, þú? Í upphafi var allt borgað í sömu mynt, asni fyrir asna og svín fyrir svín. Þetta hefur löngu breyst og nú er asni borgaður með svíni og öfugt.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.10.2008 kl. 22:50

18 identicon

Mikið hefur verið talað um „tryggingu“ hins opinbera á sparifé almennings í bönkum landsins.

Um er að ræða einn reikning á hverri kennitölu í sérhverjum banka og er viðmiðunarupphæðin tilgreind í Evrum - nú einhvers staðar á bilinu 3 - 3.5 milljónir.

En það sem enginn hefur spurt um eða verið sagt frá er hvað það tækil hinn almenna borgara langan tíma að fá aurinn sinn frá ríkissjóði.

Viku? 

Eitt ár?

Alla vega yrði aurinn ekki notaður til einhvers brúks daginn eftir "fallíttið" !

En aurinn mun vera „vel“ tryggður.... og svo sofa allir vel fyrst peningurinn er ekki undir koddanum!

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 23:38

19 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ábending Viðskrifarans er gott innlegg. Hvað tæki langan tíma að fá aurinn sinn ef allt færi á versta veg með innistæður alþýðu manna í bönkunum? Ég get ekki svarað þessu. Umsókn? Urmull skjala?

Óskar; varlega með palladómana.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 23:45

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Afsakið; Óskar þessi skrifaði komment við "Uggvænlegar..." færsluna hér neðar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband