27.9.2008 | 19:22
Er Löggan heltekin af slagsmálum?
Viðtalið við Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum er kostulegt og hressandi að fá upplýsingar um það í gegnum fjölmiðla hvernig ástandið er. Lýsingar á því hvernig menn skulu þéra og bukta sig og beygja í námunda við Björn dómsmálaráðherra og gott ef ekki Harald ríkislögreglustjóra eru grátbroslegar. Svo er að heyra að Björn og Haraldur lifi og starfi í fílabeinsturni. Skrifast áreiðanlega á með Zetu.
Það er sjaldgæft að fá svona "veislu" um rannsóknar- og ákæruvald þjóðarinnar og réttarkerfið yfirleitt og það frá topp-rannsakanda. Venjulegir embættismenn segja ekki múkk og storka ekki ráðherrum. Ég er viss um að víða sé að finna hundsvekkta embættismenn sem dauðlangar til að tjá sig, en gera það ekki.
Í tilefni nýrrar bókar um Hafskipsmálið dettur mér enda í hug að ýmsir af þeim tugum embættismanna réttarkerfisins og sérfræðingar á þeim vegum sem eiga að hafa hundelt Hafskipsmenn og bankamenn og Baugsmenn sömuleiðis fari nú brátt að öðlast dirfsku til að standa upp og rífa kjaft, eins og Jóhann. Menn sem hafa ekki sett fram sína sýn á Hafskipsmálið eins og Hallvarður Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson, Ragnar H. Hall, Páll A. Pálsson, Markús Sigurbjörnsson, Þórir Oddsson, Bragi Steinarsson, Gestur Jónsson, Jóhann H. Níelsson, Viðar Már Matthíasson, Jón Þorsteinsson, Valdimar Guðnason, Jón Skaftason, Atli Hauksson og Stefán Svavarsson (biðst afsökunar ef einhverjir þarna eru látnir). Kannski eru margir þessara manna bundnir þagnarskyldu og telja sig ekki getað tjáð sig og á meðan koma söguskýringar aðallega úr einni átt.
Um leið og ég las viðtalið sá ég líka fyrir mér fína klósettið með gull-zetuna frá tíð Sólveigar í ráðuneytinu. Fjölmiðlar mega gjarnan fiska upp og veita almenningi upplýsingar um þennan furðuheim Fílabeinstirninga. Að vísu gætu þeir fengið á sig ásakanir um "ofsóknir" og "fjölmiðlafár", en sú hætta er alltaf fyrir hendi.
Lögregla í sandkassaleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Breytt 29.9.2008 kl. 10:38 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Friðrik
Já, maður er gáttaður á þessu. Virkilega gáttaður. Og eins og þú segir þá lifa þessir menn, samkvæmt lýsingunni, í sannkölluðum fílabeinsturni - í einhverjum veruleika sem ekki er í takt við veruleika okkar hinna....
Velta má vöngum yfir því hvort rétt sé að fara með þetta í fjölmiðla. Um leið verður að velta því fyrir sér hvort það sé ekki ábyrgðarhlutur að gera það ekki. Málin eru farin, að því er virðist, að þróast svo langt á óheillaveg að samfélagshagsmunir eru í húfi. Það er því spurning um á hvaða stigi fara verður með málin í fjölmiðla.
Sú mynd sem við manni blasir í þessu máli er mjög alvarleg. Ég virði framkomu Jóhanns.
Nú er það spurning hvað ráðamenn vilja gera til að stinga á þessu vandamáli. Ég vona að fjölmiðlar fylgi þessu fast á eftir því hér er ekkert smá mál á ferðinni.
Eiríkur Sjóberg, 27.9.2008 kl. 22:07
Það er nú þannig að engin fær virðingu ókeypis. Menn ávinna sér virðingu með verkum sínum en ekki atvinnutittli. Ekki öllum tekst jafn vel upp í þeirri baráttu. Í þeim hópi sem mistekist hefur gersamlega með að ávinna sér virðingu eru sennilega þeir báðir tveir Björn dómsmálaráðherra og Haraldur ríkislögreglustjóri.
En það er ekki bara virðinguna sem þá vantar. Þá vantar líka allt sem heitir sjálfsgagnrýni og að vera meðvitaðir um stöðu sína. Þess vegna bregðast þeir við með valdjroka og krefjast "virðingar" af undirmönnum sínum.
En auðvitað er sú virðing sem þeir fá eins og nýju fötin keisarans. Ekkert.
Þess vegna er gott að Jóhann R kemur fram með sína hlið á viðskiptum við dómsmálaráðherra. Það er að vísu bara hans hlið en hún kemur fram og getur orðið öðrum til eggjunnar.
Dunni, 28.9.2008 kl. 10:17
Björn heldur uppi mjög sérkennilegum andsvörum í Fréttablaðinu í dag og segir meðal annars um meinta sambandsleysið milli hans og Jóhanns að hann, Björn, hafi átt með Jóhanni langan einkafund vorið 2007. Fyrir nær einu og hálfu ári síðan!
Sambands- og samskiptaleysi af hálfu Björns er fjölmiðlamönnum kunnuglegt ástand. Björn ræðir helst ekki við blaða- og fréttamenn nema í gegnum fyrirspurnir á tölvupósti og sendir þeim skot á bloggi sínu. Kannski fæ ég eitt. Ef honum finnst ég ómaksins virði. Á bloggsíðu sem leyfir ekki "komment".
Sumir ráðherrar vilja helst ekki ræða við fjölmiðlamenn nema þeir séu sem ráðherrar að gera eitthvað "jákvætt", eins og að klippa borða eða eitthvað þvíumlíkt.
En þar með er ekki sagt að Björn sé alslæmur, auðvitað. Ekki ætla ég að halda því fram að Jóhanns-málið sýni að hann sé vondur maður. Ég er eiginlega miklu heldur að segja að Björn lifi í eigin sýndarveruleika og þar telur hann sig auðvitað vera herforingja í liði góðu aflanna að tækla illu öflin. Hann langar í innlendan her og alvöru innlenda leyniþjónustu og Jóhann er bara smámál, lítil arða á veginum. Þetta eru hreinskilin og einlæg viðhorf og lífsýn. Og Halli litli spilar glaður með.
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.9.2008 kl. 11:17
Björn og Haraldur hafa nú svarað fyrir sig, með skætingi auðvitað. Og stjórn Lögreglustjórafélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir stuðningi við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.
Allt er það gott og blessað. En sama hversu ég hef rýnt í fréttir af stuðningi lögreglustjóranna við Björn þá hef ég hvergi séð þar stuðning þeirra við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Það finnst mér sérkennilegt.
Friðrik Þór Guðmundsson, 29.9.2008 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.