Hvað kom eiginlega fyrir klipparana?

Það er mikið talað um stórhækkun verðlags matvörunnar og með réttu. Það vantar ekki umtalið og fréttirnar um þetta, en alveg hefur farið framhjá fjölmiðlum og saumaklúbbum hygg ég sú geysilega hækkun sem átt hefur sér stað á hárgreiðslustofum landsins á einu ári. Sjá síðustu færslu.

Þarna (raunar í athugasemdahlutanum) kemur fram að klippingin hefur stórhækkað; svo mikið að mig svimar (kr. frá ágúst 2007 til ágúst 2008):

Klipping karla, gjald2.7553.605
Klipping kvenna, gjald4.0686.128

Hvað á þetta að þýða? Reyndar fór ég í klippingu fyrir þremur dögum og þá var herraklippingin komin í 3.800 þannig að ósóminn hefur ekki stöðvast ennþá. Þetta þarfnast útskýringar. Efniskostnaður (aðföng) og slíkt er lítill liður í klippingunni, hið minnsta hjá körlum. Mér sýnist að á hárgreiðslustofum sé þetta aðallega spurning um launaliðinn. 30-40% hækkun á klippingu karla og 50% hækkun á klippingu kvenna á einu ári - ég vil fá skýringu. Óska eftir liðsinni fjölmiðla og almennings. Eða eru kannski einhverjir klipparar þarna úti sem vilja tjá sig?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hækkun á launum og húsaleigu er væntanlega skýringin sem eigendur hársnyrtistofa gefa á þessum verðhækkunum sínum undanfarin ár en að sjálfsögðu eiga þeir að svara því sjálfir hvers vegna þær eru svona miklar.

Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Athyglisvert þetta hjá þér. Og hækkanir sem eru í besta falli óréttlætanlegar, býst ég við. Svarið er einfalt, að flytja úr landi!!! 

Mæli með Frakklandi. Hér um slóðir borga ég 10 evrur fyrir klippinguna og það með þvotti! Sem leggjast út á 1250 krónur eða svo á núverandi gengi, en var um 900 krónur í byrjun árs!

Kannski nota íslenskar stofur einhvern gengisfót fyrir sína þjónustu og því hækkar verðið sjálkrafa við gengislækkun krónunnar?!? Út frá því þarftu væntanlega að borga færri krónur á næsta ári, Friðrik, þegar því er lofað að krónan hækki á ný. Betri tíð framundan, með blómum í haga!

Ágúst Ásgeirsson, 13.9.2008 kl. 11:35

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég get ekki komið þessu heim og saman; launin og húsaleigan. Launin hafa vonandi batnað, en ég fæ ekki séð að framboð og eftirspurn leyfi stórhækkun á leigu?

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.9.2008 kl. 11:36

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Ágúst; getur þú ekki sent okkur nokkra franska klippara?

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.9.2008 kl. 11:37

5 Smámynd: Faktor

Það er ekki skrítið þó maður líti út eins og gamall hippi

Faktor, 13.9.2008 kl. 11:37

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gústi. Það er væntanlega frjáls álagning á klippingu í Frans, eins og hér, og verðið á klippingu í París er trúlega yfirleitt hærra en úti á landi í Frans, þar sem þú býrð, ekki satt? Þetta er eins og tvær þjóðir, finnst mér, svona svipað og Moskva og afgangurinn af Rússlandi.

Verð á klippingu ætti að endurspegla framboð og eftirspurn, að minnsta kosti að einhverju leyti. Hér í Reykjavík eru ekki allar hársnyrtistofur með sama verðið og það getur verið misjafnt eftir því hver klippir þig á viðkomandi hársnyrtistofu, lægra ef nemi klippir þig.

Hér er einnig frjáls álagning á fiski en fiskbúðirnar hér í Reykjavík eru nánast sama batteríið núorðið og samkeppni því lítil á milli þeirra. Verð á fiski í fiskbúðum var ákveðið hér af nefnd og eitt sinn þegar hún hækkaði verðið, þar sem fiskkaupmenn höfðu sagt að innkaupsverðið hefði hækkað á fiskmörkuðunum hér, fannst mér það eitthvað dularfullt, skrifaði um það frétt í Moggann og fiskverðið var lækkað aftur í búðunum.

Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 12:11

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þetta svarar ágætlega til þess sem ég greiði fyrir klippingu hér úti í sveit í Danmörku. Herraklipping á sæmilegri stofu í þéttbýlinu kostar ca 4.300 isk hér. Ekki má gleyma að stofan þarf að greiða húsaleigu, aðföng, rýrnun á tíma, launatengd gjöld, daglegan rekstur, bókhald, skatta, námsskeið, fjárfesta í fagmenntun á lágum laun á námstíma iðnnema, og þar fram eftir götum.

En klipping er þó mun ódýrari í Rúmeníu, en þá verða menn að sætta sig við að verða á launum Rúmena.

Kv.

Gunnar Rögnvaldsson, 13.9.2008 kl. 15:04

8 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég er á því að hárgreiðslustofueigendur búi ekki í veruleikanum heldur í einhverju tískudraumalandi.

Ég hef brugðið á það ráð að burstaklippa mig sjálfur með rakvél því ég tími ekki að fara til rakara. Ansi margir karlmenn  hafa brugðið á sama ráð og er ég sannfærður að vegna þessa úrræðis missa hárgreiðslutekjur rekstrartekjur upp á margar millionir á ári. 

Mér finnst verðhækkanir bera vott um vitlausan  hugsannaháttur í viðskiptarekstri og er ég sannfærður að einhver  "klippari" með bisnes vit nýti sér þetta tækifæri og undir bjóði hárgreiðslustofuna. 

T.d væri hægt að bjóða burstaklippingu upp á 1000... því slík klipping á ekki að þurfa að taka mikið lengur en 10-20 min og ... þar er allaveganna garenteraður peningur í kassann í stað þess að stólar standi auðir í klukkutíma því fólk tímir ekki að fara lengur til rakara.  

En hvað veit ég ..

Kannski er fólk að hugsa þetta öðruvísi en ég og fer til rakara þó svo að það eigi varla fyrir salti í grautinn. Forgangsröð einstaklinga er svo misjöfn.  

Brynjar Jóhannsson, 13.9.2008 kl. 16:53

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gunnar; öll upptalningin þín er eðlileg (veit þó ekki með "rýrnun á tíma", veit ekki hvað það er!) til að útskýra að einhverju marki af hverju klipping yfirhöfuð er frekar dýr - en ég fæ ekki út úr þessari upptalningu neina sérstaka ástæðu fyrir 50-80% hækkun á einu ári. Hefur húsaleiga virkilega hækkað svo um munar; með ógrynni af ónýttu atvinnuhúsnæði um allan bæ? Hafa launin virkilega hækkað svo um munar? OSFRV.

Steini; þetta er hárrétt með fiskbúðirnar og hækkanirnar þar í fáokuninni allsvakalegar sl. 2-4 ár. Fjölmiðlar hafa rétt snert á þessu en ekkert þó svo heitið getur. Ég reyndi að þrýsta á um úttekt á þessu þegar ég var viðloðandi fréttastofu Sjónvarpsins og Kastljós, en með ægilega litlum árangri, því miður. Smá krafl í yfirborðið og búið.

Verð á nokkrum vörutegundum og þjónustu 2003-2008
 Ágúst
200320042005200620072008
Ýsuflök, kg9098498938928981.130
Ýsa slægð og hausuð, kg485474474430535592
Stórlúða, kg1.2661.2621.0201.2451.9932.040
Rækjur, frystar, kg761734804718587790
Lax, kg7698721.2021.5261.0191.104
Saltfiskur, kg8218679651.0621.1991.338
Harðfiskur, kg4.8064.5954.7725.0425.2795.817

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.9.2008 kl. 16:58

10 Smámynd: Hilmar Einarsson

Þó svo að ég eigi enga hagsmuni af verðlagningu þess fólks sem við háriðnir starfar aðra en þá sem ég þarf að greiða fyrir þá þjónustu sem ég þarf að kaupa af slíkum aðilum.  Langar mig til að varpa fram nokkrum spurningum varðandi þetta.  Ég reikna með því að Friðrik hafi svör við þeim á tæru, a.m.k. hefur hann sýnt að tölfræðin flækist ekki fyrir þegar fiskur er annars vegar.

Ég veit ekki hvað maður sem leggur stund á blaðamennsku hefur í laun.  En segjum sem svo að þau séu í kringum 350.000 á mánuði.  Hvað þarf vinnu veitandinn að greiða í launatengd gjöld og annan tilfallandi kostnað sem þarf að reikna með til þess að blaðamaðurinn geti skilað af sér sómasamlegri vinnu.  Hvaða upp hæð þarf blaðaútgefandinn að reikna inn í þá þjónustu sem skilað er til blaðalesenda til þess að ekki fari fyrir honum eins og eigendum Nyhedsavisen í Danmörku.

Sannast að segja veit ég ekki um einn ein asta aðila í háriðnaði sem hefur þvílíkar tekjur að komist mikið yfir hjúkrunarfræðingalaun, svo ekki sé talað um ljósmæðralaun.

Það er nefnilega svo með þá sem eru svokallaðir sjálfstætt starfandi, eins og flestir þeir sem starfa innað háriðnaðarins, að það er spurnig hvað eftir situr í buddunni eftir vinnuvikuna en ekki það sem viðskiptavinirnir greiða.

Ef þið vitið um einhvern úr þessum iðnaði sem hefur hálf bankastjóralaun væri gaman að vita það.

Í alvöru talað, ætlið þið virkilega að fara að öfunda rakara og hárgreiðslufólk?

Hilmar Einarsson, 13.9.2008 kl. 18:03

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hilmar; mér dettur ekki í hug að öfundast út í laun hjá klippurum. Eins og ég tek fram annars staðar - ég er að tala um hina miklu hækkun, en ekki grunninn sjálfan. Eigum við þá að gera ráð fyrir því að á síðustu mánuðum hafi átt sér stað einhver launaleiðrétting sem hefur hækkað rekstrarkostnaðinn sem um munar? Svo mikil að þörf hafi myndast á 30-50% hækkun á klippingunni? Það er þá aldeilis launaskriðið og kannski rétt af ljósmæðrum að fá kjarabarátturáð frá launafólki í klipparastétt.

Herraklipping úr rúmlega 2.700 í 3.800 á 13 mánuðum. Dömuklipping úr rúmlega 4.000 í rúmlega 6.000 á 12 mánuðum. Auðvitað væri gaman að fá útskýringu á því hver efniskostnaðurinn sé þar af oghins vegar launakostnaðurinn (eða endurgjald hins sjálfstætt starfandi).

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.9.2008 kl. 18:17

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Gunnar; öll upptalningin þín er eðlileg (veit þó ekki með "rýrnun á tíma", veit ekki hvað það er!) til að útskýra að einhverju marki af hverju klipping yfirhöfuð er frekar dýr

Rýrnun á tíma er til dæmis þegar kúnnar koma ekki í þá tíma sem er búið að taka frá fyrir þá. Opnunartími er ekki óendanleg stærð og því þarf að nýta hann sem best. Svo er kostnaður markaðsfærslu eftir, hann er mestur í byrjun en er samt alltaf til staðar. Þeir sem halda að hársnyrtifólk sé að baða sig í peningum ættu þá að læra þessa iðn og stofna stofu. Þannig fengju þeir af eigin raun að kynnast rekstrinum. En áður en það stóra skref er tekið þá væri ágætt að fá að renna augunum yfir ársreikninga þessa bransa og kynna sér afkomutölur og framlegð í þessum baransa í heild.

Persónulega held ég ekki að menn muni finna gull og græna skóga í þessum bransa. En það mætti þó reyna það, ef áhuginn er nógu mikill því það er áhuginn sem verður að knýja úrverkið. Það eru örugglega viss tímabil ársins sem eru afar slök í þessum bransa sem í öðrum, sveiflur árstíða þar sem haldið er opnum stofum með litlu flæði viðskiptavina en þar sem fastur kostnaður heldur áfram að tifa eins og klukka þó tekjur séu litlar.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 13.9.2008 kl. 18:23

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Friðrik - ég hugsa að fjármagnskostnaður sé töluverður, og hann hefur hækkað, og svo er líklegt að viðskiptavinum fækki í verra árferði og því reynir maður stundum að fá meira út úr þeim viðskiptavinum sem eftir eru og sem eru ekki eins verðviðkvæmir. Ef það gengur ekki upp þá þarf að loka stofunni, og gera upp búið.

Gunnar Rögnvaldsson, 13.9.2008 kl. 18:32

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Í raun og veru kemur okkur það lítið við hvað tekið er fyrir klippingu og af hverju það er tekið þetta verð fyrir klippingu. Þetta er frjáls þjónustuiðnaður og menn meiga þessvegna taka ein milljón fyrir eina klippingu ef þeir geta fengið einhvern til að taka því tilboði. Ef okkur líkar ekki verðið þá fer maður annað, eða lætur hárið vaxa.

Stofnkostnaður stofu getur verið frá nokkrum miljónum og upp í tugi miljóna króna, allt eftir aðstæðum og markaðsáherslum stofunnar. Þetta þarf að afskrifa yfir nokkurra ára tímabil og svo kemur fljótlega að nýjum endurnýjunarfjárfestingum. Þau litlu hársnyrtifyrirtæki sem ég þekki til ná yfirleitt ekki að greiða eigendunum mannsæmandi laun og hvað þá samkvæmt opinberum taxta. Það er áhuginn og gleðin sem yfirleitt knýr þetta fólk áfram, ekki kjörin. Við ættum því yfirleitt að vera þessu fólki þakklát fyrir að nenna að veita þessa þjónustu. En þetta er semsagt okkar val, - sé maður óánægður með verðið þá er best að halda sig við sín eigin skæri, eða biðja bóndann í sveitinni að klippa sig eins og oft var gert í þeirri sveit sem ég var í á sínum tíma. klipp klipp klipp :)

Gunnar Rögnvaldsson, 13.9.2008 kl. 19:11

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það er samt eitt sem mig langar að benda á í þessari umræðu, ekki að ég sé að verja okur, alls ekki, en það er að hárgreiðslufólk er iðnmenntað, og þar af leiðandi iðnaðarmenn.

Yfirleitt þegar ég fer í klippingu og litun tekur það 2-3 tíma, og inni í verðinu er allt saman, 24,5 % virðisauki, efni, stóllinn og laun fyrir skatt en hárgreiðslufólk er yfirleitt verktakar. Það væri forvitnilegt að bera saman lifibrauð hárgreiðslumanna við aðra iðnaðarmenn, t.d. rafvirkja eða pípara."

Elín Lóa | 10.25.07 - 7:13 pm | #

http://www.haloscan.com/comments/stuna/8025322706219739757/


Spurningu Friðriks Þórs um 50% meðalverðhækkun á klippingu kvenna á einu ári, frá ágúst í fyrra til ágúst í ár, hefur hins vegar ekki verið svarað hér með fullnægjandi hætti, þrátt fyrir ágætis komment frá Gunnari og fleirum.

Laun hárgreiðslufólks og húsaleiga hefur tæpast hækkað hér um 50% síðastliðið ár. Undanfarna mánuði hefur töluvert af atvinnuhúsnæði staðið autt, til dæmis á Laugaveginum, og hækkun á fjármagnskostnaði undanfarna 12 mánuði skýrir ekki heldur þessa gríðarlegu verðhækkun á klippingu á þessu tímabili.

Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 19:25

16 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Starfaði sem rakari í 17 ár og verð að segja að ég tek undir með Friðriki.....

...en ein ástæðan fyrir háu verði, er svolítið skrýtin, ég starfaði lengi sem rakari á Englandi og þar vorum við að klippa 4-6 hausa á klukkutíma. Hér klippir maður 2-3.

Ef maður segir við kúnnan að maður sé búinn að ljúka verkinu eftir 10 mín., þá einfaldlega er manni ekki trúað, eða viðkomandi gengur út frá því að verkið hafi verið slælega unnið....svo að hárskerar þurfa að hækka verðin. Hver klukkutími þarf að skila X upphæð, og til þess eru tvær meginleiðir, fáar dýrar klippingar, eða margar ódýrar...

Haraldur Davíðsson, 13.9.2008 kl. 22:22

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka undirtektirnar í tveimur síðustu athugasemdum, einkum rakarans (fyrrverandi)!

Allt er þetta afstætt auðvitað. Herraklipping upp á 3.800 krónur samsvarar kaupum á fjórum kílóum af slægðri og hausaðri ýsu ásamt tveimur kílóum af frystum rækjum. 

Fyrir 3.800 krónur fæ ég liðlega 20 lítra af bensíni, um hálfan tank. 

Allt er þetta afstætt...

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.9.2008 kl. 23:48

18 identicon

ég fer svona á 4ra mánaða fresti (sem er alltof langt, en ég bara á ekki pening í örari klippingar )  og svei mér þá , klippingin hefur sl. eitt og hálft ár aldrei kostað það sama, alltar 5 til 700 kr meira í hvert sinn, ég er með stutt hár og hárgreiðslukonan er 20 mínútur að klippa og blása og tekst vel til vel að merkja, en núna síðast borgaði ég 4300 kr. og fannst það mikið, verður örgglega komið yfir 5000 þegar ég dregst i jólaklippinguna!   þetta er ekki tískustofa,þ.e ekkert fræg eða neitt, en mer finnst ´þetta mjög dýrar 20 mínútur.  og líklega fer að líða enn lengra á milli klippinga hjá mér, ef fleiri hafa sama háttinn á, er líklega spurning hvort stofurnar græða eitthvað á þessu , nema þá hjá unga fólkinu, sem VERÐUR að fara einu sinni í mánuði minnst.

dýrtíðarkveðjur

dísa 

dísa (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 00:28

19 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég klippi börnin mín og frumburðurinn minn klippir mig, ég eyði ekki krónu á hárgreiðslustofum.  Bartskerinn minn sér um mig og soninn en dæturnar voru allar klipptar af mér.  Ég er frekar hagsýn húsmóðir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.9.2008 kl. 02:35

20 identicon

Tannlæknastofur og hárgreiðslustofur eru undir sama hatti svei mér þá. Hvort er nauðsynlegra?

 Borgaði tannlækni fyirr 5 mánuðum 19.125kr fyrir að líta upp í tvö börn með heilar og fallegar tennur. Frá því ég tók í hurðarhúninn á tannlæknastofunni þegar við fórum inn og þegar ég tók í húninn aftur á leið út liðu 20 mínútur. Hann lakkaði tennurnar og tók myndir af öðru barninu. Þetta hefur eflaust hækkað en ég gjörsamlega missti hökuna þegar mér var tjáð verðið. Hann var með tæpar 1000kr. á mínútuna líka meðan við klæddum okkur í skóna!

Þarf líklega ekki að taka það fram en börnin mín eru með lubba og heilar tennur!

Ásta (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 08:50

21 identicon

Annaðhvort ganga með hatt, safna hári eða snoða sig með rakvélinni. 

Emman (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 09:40

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samkvæmt Hagstofunni hefur byggingavísitalan hækkað hér um 17,6% frá ágúst í fyrra til ágúst í ár, vísitala launa um 9,1% frá júlí í fyrra til júlí í ár og í vísitölu neysluverðs hefur undirvísitala húsnæðis, rafmagns og hita hækkað um 7,41% fyrstu átta mánuðina í ár.

Meðalverð á dömuklippingu hefur hins vegar hækkað um 50,6% frá ágúst í fyrra til ágúst í ár, örugglega ekki vegna aukinnar eftirspurnar eftir klippingu og langt umfram allar vísitöluhækkanir í þjóðfélaginu.

Þorsteinn Briem, 14.9.2008 kl. 14:23

23 identicon

Þetta er orðin klikkun að fara í klippingu og litun! ég er að borga hér á Akureyri 13 þús fyrir eitt stykki haus!

Og ekki virðist skipta máli hvort þú sért með stutt eða sítt hár því mamma er með drengjakoll og fór um daginn og borgaði það sama og ég sem er með mjög sítt hár! (þá er ég að tala um klippingu og strípur)

Vinkona mín sem býr í USA sagðist alltaf fara í litun hér á Íslandi þegar hún kæmi í frí því í USA kostar þetta einhverjar trilljónir. Ég held að hún þurfi að hugsa sig tvisvar um næst þegar hún kemur í heimsókn til Klakans!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 15:10

24 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka góða umræðu. Teldi við hæfi að fjölmiðlar gaukuðu nokkrum spurningum að klippurum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.9.2008 kl. 20:36

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athyglisvert sem Haraldur Davíðsson, skrifar. Mér hefur stundum fundist klipparar úti vera mun sneggri í vinnubrögðum.

Herraklipping kostar 3.300 kr. á Reyðarfirði

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.9.2008 kl. 08:08

26 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þarna fyrir ofan hefur klipping herra hækkað um 30% og klipping kvenna um 50% á milli ára.

Samkvæmt konu minni þá kostar "góð" klipping og litun á "góðri" stofu hér í Danmörku um 1.000 DKK eða ca 17.000 ISK. Þetta á við betri stofur í stærri borgum í Danmörku. Í dreifbýli kostar þetta minna og svo eru allur regnboginn þarna á milli.

En það eina sem skiptir raunverulegu máli hér er hversu lengi menn eru að vinna fyrir klippingunni eftir að skattar eru teknir af útborguðum launum = ráðstöfunarlaun. Þetta vill stundum brenglast í hugum neytenda eins og við sáum í umræðu um olíuverð undanfarna mánuði. Launþegar vesturlanda voru t.d. mun lengur að vinna fyrir einum lítra af bensíni árið 1984 en núna þegar olíuverð stóð sem hæst í 125-145 USD. Svo það er oft hugur neytenda sem fer á flug en ekki raunverulegur hlutfallskostnaður af launum eftir skatt. Núna er búið að ala neytendur á vesturlöndum upp við að matur eigi ekki að kosta neitt að ráði, þ.e. í góðu árferði launa, kaupmáttar og sæmilega stöðugs verðlags.

Allt er því afstætt.

kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.9.2008 kl. 08:49

27 Smámynd: Þorsteinn Briem

www.bbl.is 12.02.2008:

"Algengur túnáburður er nú að hækka um og yfir 70% (eftir um 15% hækkun 2007), fjármagnskostnaður hefur hækkað um 81% á síðustu tveimur árum og olía um tæp 50% á sama tíma."

Því er eðlilegt að verð á landbúnaðarafurðum hækki og trúlega bera klipparar túnáburð á kollinn á kúnnunum til að auka sprettuna. Það kostar sitt.

Þorsteinn Briem, 15.9.2008 kl. 10:34

28 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Biðst afsökunar á síðbúnu svari, Friðrik og Steini. Óskandi væri að geta orðið við beiðninni og senda franska klippara til Íslands!

Hér í þessu 8.000 manna byggðarlagi eru átta hárgreiðslu- og rakarastofur svo maður er nokkuð spilltur. Ekki endurspeglar það þó samkeppni því auðvitað prófaði maður þær flestar áður en maður ákvað hver yrði fyrir valinu. Verðið mjög misjafnt og ég hef bundist ástfóstri við þá næstbillegustu! 

Og svo er maður spilltur, að hér eru þrjú bakarí hverju öðru betra, nokkrar krár og nokkur kaffihús. Expresso kostar 1,20 - 1,30 evrur en síðast þegar ég fékk mér slíkan bolla í miðri París kostaði hann 4,50 evrur.

Og Steini, það er rétt, þjónusta af þessu tagi er ódýrari úti á landsbyggðinni þótt hún finnist sosum líka ódýr í París.

Ágúst Ásgeirsson, 16.9.2008 kl. 18:02

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frábært að þú skulir hafa það gott í Frans, bæði klippt og skorið, Gústi minn.

Þorsteinn Briem, 17.9.2008 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband