8.9.2008 | 19:58
Viðbrögð beint í æð
Ég var í "Ísland í dag" áðan með Georg Viðari Björnssyni varaformanni Breiðavíkursamtakanna (en ég er ritari stjórnar) og held ég að það hafi gengið ágætlega svona að mestu; allt of stutt umfjöllun auðvitað og sitthvað sem varð útundan eins og gengur. Hygg að kjarni málsins hafi komið vel fram hjá Georg; sem kvaðst ekki myndu taka við þeim smánarbótum sem frumvarpsdrög forsætisráðherra gera að óbreyttu ráð fyrir.
Annars finnst mér leitt að sú ímynd sé uppi að samtökin séu í einhverju stríði við yfirvöld og séu herská. Upphæðirnar ERU hneykslanlega lágar, en samtökin líta ekki svo á að þau hafi efnt til rifrildis við yfirvöld, þótt óánægjan og hneykslunin hafi borist út. Aftur á móti er það yfirvöldum holt og lærdómsríkt að hafa fengið þessi viðbrögð beint í æð og vonandi að þau endurhugsi málið frá grunni.
Það er um leið af og frá rétt að samtökin séu að berjast fyrir því að hver Breiðavíkurdrengur fái tugi milljóna króna, eins og gefið hefur verið í skyn. Samtökin hafa lagt fram hugmyndir um að lengd dvalartíma ráði nokkru en að annars skuli eitt yfir alla ganga. Samtökin hafa lagt til að saman fari miskabætur og endurgjald fyrir nauðungarvinnu, rof á menntun og önnur mannréttindabrot og að þau sveitarfélög sem sendu börnin á Breiðavík komi inn í dæmið - í samræmi við fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra hafa samtökin horft nokkuð til hinnar "Norsku leiðar". Þá er nær að tala um meðaltal upp á í kringum 13-15 milljónir fyrir Breiðavíkurbarn með meðaldvalartíma. Breiðavíkurbarn sem dvaldi þarna nauðugt í 3-5 ár fengi hærri bætur, en Breiðavíkurbarn sem var þar í 6 mánuði hvað þá minna væri á hinum enda skalans.
Hugmynd samtakanna um bætur og endurgjald frá bæði ríki og viðkomandi sveitarfélögum eru upp á 600 til 800 þúsund krónur fyrir hvern dvalarmánuð. Þá er búið að reikna allt til; taka með í dæmið líkamlega og andlega ofbeldið, nauðungarvinnuna sem jaðraði við barnaþrælkun, einangrunina, aðskilnaðinn sára frá fjölskyldu og vinum, hina slitnu/stöðvuðu lögbundnu skólagöngu og fleira.
Það er kannski ástæða til að undirstrika að ÉG var ekki á Breiðavík og er ekki að falast eftir einum einasta aur, heldur er ég utanaðkomandi stuðningsaðili. Kom inn í þetta dæmi óbeint frá vegna heimildarvinnu fyrir myndina "Syndir feðranna" og einnig við aðkomu að umfjöllun Kastljóss, sem ég vann hjá á sínum tíma.
Einnig finnst mér vert að undirstrika, að gefnu tilefni (meðal annars vegna ósanninda Sigurðar Líndal í minn garð í öðru máli) að ÉG lak engu til fjölmiðla og ekki heldur samtökin sem slík. Fjölmiðlamenn vissu af félagsfundi BRV 3. september og einhverjum þeirra tókst á einhvern hátt að komast yfir frumvarpsdrögin. Ég lofa því upp á æru og trú að ég lak engu!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þið Georg voruð málstaðnum til sóma báðir tveir.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.9.2008 kl. 20:06
Virkilega gott hjá ykkur!
Kveðja,
Konráð
Konráð Ragnarsson, 8.9.2008 kl. 21:33
Takk kærlega - ekki amalegt að fá blessun frá bloggara ársins og Konna Breiðavíkurdreng, sem er prinsippfastur og með bein í nefninu. Takk bæði.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.9.2008 kl. 21:36
Ætli sé ekki við hæfi að setja tengil á viðtalið hér.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.9.2008 kl. 21:40
Takk Benedikt. Já, það er með þennan blessaða trúnað. Við stjórnarmenn í BRV erum á einu máli um að hafa verið beðnir um trúnað í tvær vikur og að við höfum virt hann í þrjár vikur! Ekki var lengur hægt að bíða með að kynna drögin fyrir félagsmönnum BRV og þá voru einhverjir fjölmiðlar komnir með drögin í hendurnar - sem samtökin stóðu ekki fyrir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.9.2008 kl. 21:50
Þið voruð báðir málefnalegir og góðir, gangi ykkur vel
Sigrún Jónsdóttir, 9.9.2008 kl. 01:24
Þetta var flott hjá ykkur
Faktor, 9.9.2008 kl. 01:28
Þetta var ágætis umfjöllun, ég hafði einn af þessum "drengjum hjá mér í kvöld" og reiknaði hann út að kannski ætti hann fyrir utanlandsferð þegar bæturnar yrðu greiddar. Hann var frekar svartsýnn á því að fá meira. Ég er í þannig hugleiðingum að ríkið og bæjarfélögin sem áttu þátt í þessu ættu að borga heilan helling allavega jafnvirði lítillar íbúðar, þannig að einhverjir af þessum ógæfumönnum gætu eignast íbúð í fyrsta skiptið á ævinni. Það er bara mín skoðun, allavega er nóg af óseldum íbúðum um alla Reykjavík og í nágrannabyggðunum.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.9.2008 kl. 02:08
Þið voruð ágætir... ég var samt ekki að átta mig á að þetta varst ÞÚ :)
Að bjóða mönnum sem gengu í gegnum helvíti á jörð einhvern tittlingaskít í sömu hendingu og Þorgerður spanderar 5 millum í að horfa á handbolta... segir rosalega mikið um þankagang þessara manna sem stjórna hinum bráðnandi klaka.
DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.