Harðir fjölmiðlanaglar og penir pólitíkusar

olafur borgarstjoriMér sýnist á öllu að heldur fleiri álitsgjafar telji Helga Seljan hafa verið of harður við Ólaf borgarstjóra en hinir, sem telja að Helgi hafi auðsýnt borgarstjóranum nauðsynlegt aðhald með beittum en réttmætum spurningum. Ólafur borgarstjóri var fjúkandi reiður og það var Guðni Ágústsson líka þegar hann stormaði út í miðju viðtali Sverris Stormskers við hann á Útvarpi Sögu.

Í báðum tilfellum misbauð pólitíkusum að spyrlar voru ekki eins og þeir vildu hafa þá. Enda búum við ekki lengur við veruleika gærdagsins, þar sem blaða- og fréttamenn tóku við fyrirframsömdum spurningum frá pólitíkusum og þéruðu ráðherra og þingmenn.

Í dag viðurkenna pólitíkusar í orði að blaða- og fréttamenn eigi að veita þeim aðhald og vera harðir þegar því er að skipta. Hvað náungana tvo í "stormsveitinni" varðar er rétt að gera þann greinarmun, að Guðni mátti vel vita að hann var ekki að fara að tala við blaða- og fréttamann þar sem Sverrir Stormsker sat. Sverrir er ekki fagmaður í blaða- og fréttamennsku, heldur landsþekktur galgopi og grínari. Guðni þurfti því ekki að búast við faglegu viðtali.

Ólafur borgarstjóri mátti á hinn bóginn búast við öflugri fagmennsku og hörðum spurningum. Hann er ekki í þeirri stöðu að geta sagt: "Ég kom hingað til að ræða borgarmál" og ráða því sjálfur hvaða spurningum hann vill svara og hvenær þeim telst svarað. Í ljósi verulega umdeildra mála og ákvarðana síðustu daga og vikur mátti hann fyllilega búast við ágengum spurningum og að þeim spurningum yrði fylgt eftir kæmu skýr svör ekki. Og það var einmitt vandi Ólafs í Kastljósþættinum; hann hafði ekki skýr svör við áleitnum spurningum en vildi frekar ræða "borgarmál" og fá spurningar sem honum líkaði að svara.

Það er að mínu mati rangt hjá Ólafi að Helgi hafi "sýnt borgarstjóraembættinu óvirðingu" með ágengni sinni. Helgi sýndi embættinu þvert á móti virðingu, því stjórnmálamenn ætlast í orði kveðnu til aðhalds frá fjölmiðlum. Helgi leitaðist við að uppfylla þá skyldu sína að krefja pólitíkusinn svara við spurningum sem brenna á fólki úti í samfélaginu, ekki síst um umdeildar ráðstafanir borgarstjóra hvað Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur varðar.

Að þessu sögðu má hins vegar alveg ræða hvort Helgi hafi endurtekið spurningarnar um aðstoðarkonuna fyrrverandi of oft eða gripið helst til of oft eða snemma fram í þegar Ólafur ætlaði augljóslega ekki að svara grunnspurningunum afdráttarlaust. Ég get fallist á að Helgi hafi dvalist of lengi við þessar Ólafar-spurningar eftir að ljóst mátti vera að Ólafur hreinlega ætlaði ekki að svara þeim almennilega. En þá er ég auðvitað undir áhrifum þess að fjölmargt annað brýnt og umdeilt hefur verið í gangi sem kallar á harðar spurningar. Ég er með öðrum orðum ekki voðalega upptekinn af því hver sé fulltrúi Ólafs í skipulagsráði eða aðstoðarmaður hans. Hvað listaháskólann varðar skiptir það ekki miklu máli, heldur hitt hvort 19. aldar stefna sé stefna meirihlutans. Ég hefði þannig viljað nánari svör þegar Ólafur borgarstjóri lét það út úr sér í þættinum að honum þætti listaháskólabyggingin (teikningin) ekki ljót og gæti sómt sér vel Á BAKVIÐ 19. aldar húsin. En þar með væri grunnhugsunin að baki teikningunni rokin út í veður og vind.

Hvað um það, borgarstjóri verður að muna, að það tíðkast ekki lengur að beygja sig, bukta og þéra borgarstjóraembættið. Góður borgarstjóri, sem hefur gert eitthvað umdeilt, móðgast ekki, neitar að svara og stormar út með reiðisvip. Góður borgarstjóri hefur svör á reiðum höndum og svarar þeim skýrt og skilmerkilega. Það er um leið besta aðferðin gagnvart ágengum blaða- og fréttamönnum!


mbl.is Guðni gekk út í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessari greiningu þinni.  Ólafur F. verður að gera sér grein fyrir að slík vinnubrögð (þ.e. að svara ekki spurningum) voru e.t.v. algeng á nítjándu öld, en eru ekki boðleg á þeirri 21..

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 11:23

2 identicon

Maðurinn er ekki allveg í lagi. Þú mætir ekki í viðtal óundirbúinn og villt svo tala um eitthvað allt annað.

Kristinn Jónsson (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 11:26

3 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Gleymum því ekki að Ólafur hefur farið í tvö önnur Kastljós-viðtöl á árinu.  Fljótlega eftir embættistöku fór hann í bómullarviðtal hjá Sigmari sem vildi auðsýnilega ekki ganga hart fram gagnvart minni máttar.  Síðan var hann í viðtali hjá Þóru og svaraði öllum spurningum á þann veg að með þennan frábæra samstarfssáttmála væru allir vegir færir.  Þóra komst því ekkert áfram með hann þegar hún reyndi að fara nánar í málefnin.

Ég sá ekki betur en að Helgi hafi verið að reyna að forðast að lenda í sömu stöðu og þau tvö gerðu áður.  Þess vegna var hann fremur ágengur, - en stóð sig vel.

Maður sem gegnir borgarstjóraembættinu verður að gera sér grein fyrir því að hann þarf að vera reiðubúinn að svara skýrt fyrir gjörðir sínar. 

Sigurður Ásbjörnsson, 31.7.2008 kl. 11:57

4 Smámynd: Ásgerður

Mikið er ég sammála þessu um Ólaf F,,,hann bara fékk ekki réttu spurningarnar greyið. Gat ekki einu sinni klárað að horfa á þetta í gærkvöldi,,,var bara með aulahroll

Ásgerður , 31.7.2008 kl. 14:06

5 identicon

Ef að starfsmenn Kastljóss verða að meðhöndla andlega veikt fólk öðruvísi en aðra, þá á bara að sleppa því að fá slíkt fólk í viðtöl. Andlega veikt fólk á eðlilega erfitt með að svara spurningum beint og svarar því oftar en ekki út í hött.

Stefán (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 14:29

6 Smámynd: Hebbi tjútt

En er ekki aðalatriðið hvernig Ólafi borgarstjóra datt almennt og yfirleitt í hug að ráða þessa Ólöfu sem aðstoðarmann - eða konu...?

Getur verið að Ólöf þessi hafi ekki skilið muninn á aðstoðarmanni - eða konu .. borgarstjóra og "aðstoðarborgarstjóra"?

Auðvitað hefði Ólafur getað sagt hvers vegna Ólöf þessi "fauk" ... en er hann ekki of "dannaður" til slíks?

En haldi Seljan áfram að sýna "öllum" sömu hörku er svo sem ekki hægt að segja að borgarstjóri hafi fengið einhverja "sér"-meðferð ... en geri Seljan það ekki ... hvað skal þá gera? .... "Seljann" ... ???

Hebbi tjútt, 31.7.2008 kl. 15:54

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Helgi hefur mér að vitandi aldrei gert mannamun eftir því í hvaða flokki viðmælandinn er og hann getur verið grjótharður við alla sem á því þurfa að halda. Þetta mátti Ólafur auðvitað vita fyrirfram og hreinlega gera hið eina rétta: Svara spurningum skýrt og greinilega. Hann svaraði aldrei almennilega því hvers vegna Ólöf var rekin sem aðstoðarmanneskja og úr skipulagsráði. Hins vegar bættust agnir við svörin hér og þar - einmitt vegna endurtekinna spurninga; það þurfti að fylgja þeim fast eftir til að fá þó eitthvað annað en yfirborðssvar. Ólafur var heldur ekki skýr þegar Helgi reyndi að fá hreinar línur í svokallaða 19. aldar stefnu borgarstjórans, en það gekk sömuleiðis brösuglega. Ég fékk það á tilfinninguna að þessi stefna væri í raun ekki svo ígrunduð, heldur meira svona rómantískt tilfinningamál borgarstjóra og ekki beysin skipulagsstefna. Sjálfur er ég "gamaldags" en verð að viðurkenna að mannlíf er mikilvægara en kumbaldar; listaháskóli við Laugarveg getur haft mikla grósku í mannlífi í för með sér og óþarfi að henda skólanum "á bakvið" gömul hús, sem eru hreint ekkert sérstök að mínu mati.

Friðrik Þór Guðmundsson, 31.7.2008 kl. 18:02

8 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Mér fannst Helgi standa sig vel. Hann kom greinilega vel undirbúin og vildi fá tæmandi svör við spurningum.

Mín kenning er sú að Helgi hefði aldrei verið svona ágengur ef Ólafur hefði gefið rétt og heiðanleg svör en ekki hlupist undan í flæmingi.

Mér finnst að fjórða valdið eigi að veita stjórnmálamönnum aðhald og láta þá ekki koma upp með neitt annað en að gefa skýr og rétt svör um stöðu mála. Mér fanst ólafur ekki gera þetta heldur fara að fjalla alltaf um eitthvað annað sem er að gerast í borginni.

þó svo að eg finni til með honum finnst mér ekki að hann eigi að vera sem borgarstjóri og lít á hvernig hann komst á þennan valdastól svívirðilegasta valdarán Íslandssögunar síðan Jörundur Hundadagakonungur var og hét.  

Brynjar Jóhannsson, 31.7.2008 kl. 19:15

9 Smámynd: Dunni

Helgi Seljan er einfaldlega einn albesti spyrill ljósvakamiðlanna á Íslandi. Ólafur borgarstjóri virðist ekki hafa yfirsýn yfir verkefni sitt sem borgarstjóri. Hann mætti illa undirbúinn í viðtalið. Æsti sig þegar hann fékk ekki að ráða spurningunum og sýndi starfi sínu og sjalfum sér um leið óvirðingu.

En mér barst til eyrna í dag að Ólafur væri ágætur söngmaður.

Dunni, 31.7.2008 kl. 19:33

10 Smámynd: tatum

Staðsetning Listaháskóla við Laugaveg, myndi auðga mannlíf  miðbæjarins mikið, og ef við horfum til landa þar sem miðbæjir hafa "dáið" eins og stefnir með miðbæ Reyjkjavíkur, þá er eitt í stöðunni, að losa okkur við alla þá sem eru í borgarstjórnaraframboði!   Ég get ekki hugsað mér neinn af þessum fulltrúum sem bjóða sig fram, alveg sama hvaða flokki þeir tilheyra, til þess að stjórna borginni.  En viðtalið við Ólaf F. í kastljósi, sannfærði mig um það að sjálfstæðisflokkurinn á ekkert að koma nálægt borgarmálum aftur!  Að semja um "stólinn" eins og þeir gerðu sýnir að sjálfstæðisflokkurinn er ekki með hagsmuni íbúa Reykjavíkur, fremsta í sínum stefnumálum, heldur stjórna þarna valdalfíklar!!!!!  Samfylkingin ætti líka að láta sig hverfa úr borgarmálum, (góðir þegar þeir þurfa að gagnrýna en þola ekki gagnrýni sjálfir), um Framsóknarflokkinn þarf ekkert að tala (þeir gráta bara þegar þeir gera mistök) og snúa sér svo að öðrum verkum (skil ekki þann flokk, og ætla ekki að eyða heilasellum i að reyna) VG ná alltaf að klúðra hlutunum á lokasprettinum (vantar alveg frumkvöðul i þann flokk) F listinn er ekki til lengur í borginni (þar sem Ólafur F. hefur sagt sig úr flokknum).  Það er semsagt enginn flokkur sem hefur í sínum röðum einstakling til að takast á við erfiðleikana sem þessir sem eru búnir að vera í leiknum "inn og út úr ráðhúsinu"  allt þetta kjörtímabil eru búnir að vera að leika.  Þannig að Reykjavíkurborg er stjórnlaus og hefur verið það frá kosningum.  Ef flokkarnir hafa ekki annan mannskap, að bjóða okkur borgarbúum uppá í næstu kosningum, þá held ég að við getum alveg farið að íhuga hvort ekki sé rétt að selja og flytja! (og ef ekki selst þá er samt betra að flytja).  Það eina sem við getum vonað að bjargi okkur frá flutningum, er Helgi Seljan, hann á heiður skilið fyrir að vera (held ég sá eini í fjölmiðlum) sá sem krefur viðmælendur sína um svar, og greinir alveg þegar viðmælendur eru að reyna að koma sér undan svari með útúrsnúningum!  (og hvað hefur borgarstjóri sér til málsvarnar? jú það sama og Geir hinn harði notaði; þetta er dónaskapur! sem sannar að þessir aðilar líta á okkur kjósendur sem fífl, sem þeir ætla að hafa að fíflum líka í næstu kosningum)

tatum, 31.7.2008 kl. 22:38

11 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þeir voru báðir ömurlegir en Helgi þó sínu verri. Hann kann hvorki að taka viðtöl eða fylgja umræðum eftir. Það hefur enginn Kastljóssmaður náð þeirri færni sem Kristján Kristjánsson bjó yfir. Þeir ýmist ofgera eða leggjast flatir.

Og Ólafur virðist ekki geta skilið að hann sé óvinsæll og því auðveld bráð fyrir Helga.

Ragnhildur Kolka, 31.7.2008 kl. 23:29

12 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ég er ósammála. Helgi er afbragðs fréttamaður, óvægin og ekki hlutlægur. Mættu vera fleiri eins og hann og minna um já-gasprandi plastdúkkur.

Páll Geir Bjarnason, 31.7.2008 kl. 23:58

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Blaðið 24 stundir kvótar í mig í dag og eingöngu í þann kafla færslunnar þar sem ég nefni hvar Helgi Seljan hafi getað gert betur. Ekki stórmál, en án samhengis endurspeglar kvótið ekki áherslur mínar. O jæja.

Þegar ég segi að Helgi hafi hugsanlega dvalið of lengi við mál Ólafar Guðnýjar á kostnað hinna tveggja málanna þá er ég að ganga út frá eigin mati á mikilvægisröð þessara þriggja mála sem voru á dagskrá; af þeim þótti mér listaháskólinn og 19. aldar skipulagið, annars vegar og hins vegar Birtuvirkjun varða almenning og hagsmuni hans nokkru meir en hver nákvæmlega sé aðstoðarmaður borgarstjóra og fulltrúi hans í skipulagsráði. Ég segi ekki að það mál hafi átt að mæta afgangi og spurningar Helga voru réttmætar og lutu sannarlega að umdeildum embættisfærslum. 

Annars stórmerkileg setning hjá Ólafi borgarstjóra í Mogganum í dag: "Ég hef áhyggjur af því sem læknir og heilbrigðisstarfsmaður ef fagmennska og heiðarleg vinnubrögð eru ekki hluti af leikreglunum hjá fjölmiðlamönnum eins og Helga.“ Ja hérna. Gaman væri að fá nánari útlistun á þessari medical analýsu borgarstjórans.

Hvað upphafssetningu færslu minnar varðar sýnist mér að róðurinn sé að breytast meðal "álitsgjafa"; eftir snarpa hviðu unnenda Ólafs í byrjun hefur meðbyrinn snúist Helga í vil.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.8.2008 kl. 09:37

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg veit ekki... nú er það oft sem stjórnmálamenn svara í almennu snakki í slíkum viðtölum og  ekkert er gert neitt með það.  Látið gott heita.  Mér fanst Ó. ekkert sérlega frábrugðinn í svörum miða við það sem gerist og gengur. 

En... jú jú, gott hjá Helga að fylgja eftir en mikilvægara hefði verið ef um  einhver hinna stærri laxa væri á línunni.   Þe. að ráðist hefði verið á garðinn þar sem hann er hærri.  (En það mun bara ekki vera gert.)  

Að vísu viðurkenni ég, að sumt í spurningum Helga áttaði ég mig ekki almennilega á.  Td. afhverju var svo mikilvægt að vita á hvaða klukkutíma Gísli Marteinn vissi um einhverja ákvörðun og afhverju sá maður þurfti sérstaklega að vita eitthvað.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.8.2008 kl. 11:10

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, það er of oft að stjórnmálamenn svara með almennu snakki. Það er óæskilegt, Ómar Bjarki.

Spurningin um Gísla Martein laut að því hvort Ólafur viðhefði samráð við samstarfsflokkinn eða færi bara eftir eigin höfði. Þetta var því spurning um lýðræðislegar leikreglur. Í sama anda og nú þegar sjálfstæðismenn ýmsir eru fjúkandi reiðir í garð Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um að heildstætt mat á umhverfisáhrifum eigi að fara fram vegna álvers á Bakka og tengdum virkjunum. Það hriktir í stoðum samstarfs ef aðili að samstarfinu tekur einhliða ákvörðun sem hinir eru ósáttir við. Aftur á móti geri ég ekki ráð fyrir því að sjálfstæðismönnum þyki það mikilla heilabrota virði hvers nákvæmlega hægri hönd borgarstjórans sé.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.8.2008 kl. 11:25

16 identicon

Þetta var mjög gott hjá Helga, ég vil sjá harða fréttamennsku en ekki drottningarviðtöl.

Annars er borgarstjórn gott dæmi um íslenska stjórnmálamenn, Gísli + Hanna og aðrir skríða við fætur Óla vegna þess að þeim þykir vænt um sín sæti.
Þannig eru íslenskir stjórnmálamenn allir með tölu.

Ég ætla að taka mér orð Ólafs í munn sem hann sagði hér
Í fyrsta lagi var ég að horfa á kastljós á fölskum forsendum því ég taldi að Ólafur mundi svara spurningum.
Og svo
Ég hef áhyggjur af því sem DoctorE og borgarbúi ef fagmennska og heiðarleg vinnubrögð eru ekki hluti af leikreglunum hjá stjórnmálamönnum eins og Ólafi.

Over & out.

DoctorE (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 11:52

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já já, auðvitað eiga spyrlar að ganga á stjórnmálamenn... en eins og ég segi, ég er ekkert að sjá að spyrlar Kastljóss muni láta þetta ganga yfir línuna (en batnandi mönnum er best að lifa, bet að gefa þeim séns.  Sjá hvað gerist næst)

Mér er td. minnistætt þegar Davíð fyrrv. Fors.r.h. kom í viðtal (fyrir mörgum árum) og man eg að Svanhildur var þá á RUV og hún bar upp fyrstu spurningu... heyrðu ! Forsætisráðherra hundskammaði hana bara... og búmm.  Viðtalið eftir það: Almennt snakk.

Þessvegna er ég að bíða eftir að spyrlar ráðist á hinn hærri garðinn.  (það hefði Vilmundur gert.  Hann hefði ekkert verið að eltast við smásílin, heldur sótt beint að stærri fiskunum)

En þetta með Gísla... jú jú, náttúrulega samstarfsaðili og allt það.  En það er eitt í þessu.  Það, að því verr sem Ó. kemur út - því meiri líkur á að Hanna B. veikist.  Sem aftur þýðir að Gísli M. fitnar.

Og er ekki Gísli fyrrverandi starfsmaður Kastljóss ? Eg veit ekki betur.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.8.2008 kl. 12:07

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gísli Marteinn er sannarlega fyrrum Kastljóssmaður, en heldur er samt langt seilst að ætla honum plott með Kastljóssfólki gegn Hönnu í gegnum Ólaf. Gísli Marteinn lítur hvorki betur né verr út en Hanna Birna í þessu samstarfi og leiðtogauppgjöri innan D-listans er nýlega lokið. Ég hygg að fagleg sjónarmið hafi alfarið ráðið för.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.8.2008 kl. 15:18

19 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Það eru nú ekki margir dagar síðan Sindri Sindrason reyndi að ná tali af forsætisráðherra og sá síðarnefndi brást hinn versti við og kallaði hinn dóna. Það var vegna þess að hann pantaði ekki tíma og sendi spurningarnar á undan sér. Menn eiga ekki að fá að komast upp með svona hegðun gagnvart okkur borgurum þessa lands. Og jú jú, við kjósum hann örugglega aftur  og hann heldur áfram að snupra fréttamenn.

Gísli Sigurðsson, 2.8.2008 kl. 23:20

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Stundum eru fréttamenn ágengir, stundum ekki. Stundum er fullt tilefni til ágengni, stundum ekki. Stundum segja stjórnmálamenn að fréttamenn eigi að auðsýna þeim fullt aðhald en stundum eru spurningar taldar "dónalegar" og óviðeigandi.

Í sumum málum eru harðar spurningar erfiðar viðureignar bara vegna eðli málsins, að því er virðist. Þannig er t.d. erfitt að ganga hart að Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra vegna ákvörðunar hennar um heildstætt mat á álvers- og virkjanaframkvæmdum fyrir norðan. Enginn efast um valdheimildir hennar til ákvörðunarinnar. Fáir vilja halda því beinlínis fram að heildstætt umhverismat sé á einhvern hátt óskynsamlegt eða með öllu óþarft. Ekki hefur verið í ljós leitt að af framkvæmdunum verði ekki vegna þessarar ákvörðunar. Í samanburðinum við Helguvík virðist þau geta vel staðist, rökin um meðalhófsregluna. Helsta gagnrýnin virðist snúast um samráðsleysi og líklegar tafir á viðkomandi framkvæmdum um vikur eða nokkra mánuði. Gremjan byggir þá á því að efnahags- og byggðasjónarmið eigi að njóta vafans en ekki umhverfið og náttúran. Hver er þá hin aðhalds- og aðgangsharða spurning? Hvort umhverfisráðherra þyki vænna um náttúruna en mannlífið? Og þá rétt að spyrja gagnrýnendurna hvort þeim þyki vænna um hagvöxtinn en náttúruna?

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.8.2008 kl. 23:44

21 identicon

Kannski ættu þeir sem væla um hörku Helga Seljan í viðtalinu við Ólaf Friðrik að skoða hvernig svona viðtöl þar sem viðmælandinn vill ekki svara spurningum fara fram í öðrum löndum.

Hér er tengill á eitt frægasta slíkt viðtal í Bretlandi

http://www.youtube.com/watch?v=Uwlsd8RAoqI

Spurningin sem John Howard vill alls ekki svara er

"Did you treaten to overrule him ?"

og takið eftir hversu oft hún er borin fram.

Mikael Hreidarsson (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 15:35

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvað var það í svörum Ólafs sem Helgi og þið hin skilduð ekki?

Ólafur sagði að Ólöf Guðný hefði viljað starfa á eigin forsendum, er það ekki næg ástæða til uppsagnar? Ólafur vildi ekki tiltaka neitt eitt sérstakt mál sem varð til þess að henni var sagt upp. Það að henni hafi verið sagt upp strax eftir viðtal við hana um Listaháskólann, vakti upp grunsemdir fréttamanna að það hafi verið eina ástæðan. Svo var ekki samkvæmt Ólafi. Þarf að ræða það eitthvað freka? Og eyðileggja heilt Kastljósviðtal vegna þess að spyrillinn fékk ekki nógu krassandi svör?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2008 kl. 17:53

23 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Menn sem segja í tíma og ótíma "Þarf að ræða það eitthvað frekar" vilja augljóslega sem minnst ræða. Það væri kannski ástæða til að fara yfir viðtalið lið fyrir lið, en þarf að ræða það eitthvað frekar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.8.2008 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband