5.3.2008 | 14:20
Breiðavík VIII: Tveir í trauma
Eins og Breiðavíkurskýrslan staðfesti voru ekki alltaf augljósar ástæður fyrir því af hverju drengjum var á sínum tíma komið fyrir á vistheimilinu fræga fyrir "óknyttadrengi". Mig langar að segja frá tveimur drengjum sem sendir voru vestur, þegar þeir þurftu á allt annars konar hjálp að halda.
Drengur A var sendur 11 ára til Breiðavíkur 1972. Hann hafði verið foreldrum sínum erfiður í nokkur ár. Fyrir vestan var hann þægur en þótti ekki efna loforð. Forstöðumanni þótti sérlega umtalsvert við sálfræðinginn hversu myrkfælinn A var. Engar upplýsingar höfðu fylgt sem gátu skýrt þetta. Svo kom mamma drengsins vestur í heimsókn og þá fékkst skýringin. Þegar drengurinn var 7 ára komu hann og nokkur önnur börn að líki stúlku sem týnd hafði verið lengi. Drengurinn var því enn í sjokki og að glíma við afleiðingar þessarar ömurlegu reynslu og þurfti sálfræðihjálp en ekki nauðungarvist að Breiðavík.
Drengur B var sömuleiðis sendur 11 að Breiðavík 1972. Ódæll eins og svo margir og merki um geðræn vandamál. Sálfræðingurinn vestra fékk skýringu: Þremur árum fyrr hafði drengurinn orðið fyrir bíl og dregist með honum 40 metra. Ökumanninum varð svo mikið um þetta að hann hné niður örendur og sá drengurinn það gerast. Drengurinn hafði stöðugar matraðir í eitt ár eftir þetta og var augljóslega enn að glíma við afleiðingar þessar ömurlegu reynslu, sendur í nauðungarvistina.
Þessir drengir tveir áttu aldrei að fara vestur heldur fá áfalla- og aðra sálfræðimeðferð. Er það ekki öllum ljóst?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki hægt að segja annað en blessuð börnin. Má eiginlega bara segja að þeir hefi verið lánsamir sem eitthvað bjátaði á hjá og sluppu við að vera sendir í "betrunarvistina".
Markús frá Djúpalæk, 5.3.2008 kl. 15:05
Sem betur fer vitum við í dag, sem við vissum ekki þá.
Verkakvennafélaginu Framsókn, rak í mörg ár sumardvalarheimilið Vorboðann sem var staðsett í Rauðhólunum, hérna rétt fyrir utan bæinn. Börnin þriggja til sex ára komu til tveggja mánaðar dvalar, og voru engar heimsóknir leyfðar, þar sem það var ekki talið gott fyrir börnin.
Hverjum dytti þetta í hug í dag?
Ingibjörg Friðriksdóttir, 5.3.2008 kl. 16:27
Ég skammmast mín eiginlega þegar ég les þetta. Orðinn þá tvítugur án þess að koma auga á neitt. Og hlutirnir áttu eftir að versna!? Kv. B
Baldur Kristjánsson, 6.3.2008 kl. 00:47
Góðir punktar hjá þér Friðrik! Því miður gerast svona hlutir enn í dag, þ.e. að börn fá ekki rétta greiningu og meðferð.
Júlíus Valsson, 6.3.2008 kl. 08:50
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.