2.12.2007 | 14:47
Uppsláttarfrétt um Breiðavíkurmálin
Það voru ekki mjög margir sem mættu á aldeilis stórgóðan fund í Háskólabíói í gær um Breiðavíkurmálin. Hugsanlega brást Barnaverndarstofu bogalistin við kynningu á fundinum, en hún blés til hans í tilefni afmælis barnaverndar á Íslandi. Hvað sem því líður komu fram tíðindi á fundi þessum sem ég slæ hér með upp.
Fyrst er að nefna að Kristján Sigurðsson (forstöðumaður Breiðavíkur 1955-56 og forstjóri Upptökuheimilis ríkisins frá 1970) upplýsti (í svari við fyrirspurn frá mér) að Upptökuheimilið og barnaverndaryfirvöld í Reykjavík hefðu hætt að senda drengi á Breiðavík 1970 eftir að séra Sigurður Sigurðarson (síðar vígslubiskup) kom að máli við Kristján. Kristján fór ekki nánar út í hvað Sigurður hefði sagt, sem leiddi til svo stórrar ákvörðunar, en þetta eru ný og mikilvæg tíðindi, því hingað til hefur séra Sigurður ekki viljað gera mikið úr því að eitthvað hafi verið að fyrir vestan, þegar hann starfaði þar. En þarna virðist séra Sigurður hafa gert sér ferð til Kristjáns gagngert til að bjarga drengjum frá .... einhverju. Gott væri að séra Sigurður upplýsti nánar um þessar viðvaranir.
Í öðru lagi svaraði Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu (BVS), fyrirspurn (aftur frá mér, ég var óðamála, já, já) um viðbrögð við úrbótatillögum og óskum um auknar fjárveitingar BVS í nútímanum. Tilefni spurningarinnar var að í 14 ár skilaði Símon Jóh. Ágústsson tillögum í skýrslum sínum til menntamálaráðuneytisins, tillögum um úrbætur og sérstaklega um nauðsyn góðrar eftirfylgni með drengjunum að vist lokinni fyrir vestan - ella færi "meðferðin" fyrir bí. Tillögum og skýrslum Símons var augljóslega stungið í skúffu, jafnvel ólesnum, utan hvað úrbætur voru gerðar hvað dauða hluti varðar, byggingar og slíkt. Ég spurði því Braga hvort verið gæti að í nútímanum væri tillögum og óskum BVS stungið í skúffu. Mér að óvörum svaraði Bragi "já". Hann upplýsti að á 12 ára ferli BVS hefði það aldrei gerst fyrr en nýverið og þá einu sinni, að sérstakar óskir og tillögur BVS hefðu mætt samþykki yfirvalda, mælt í fjárveitingum vænti ég. Ég vil ekki túlka fyrir Braga, en mín túlkun er sú að einnig í dag er gert minna fyrir börn í erfiðleikum en sérfræðingar telja nauðsyn á. Ég ætla ekkert að halda því fram að "Breiðavík sé til í dag" en í kjölfar þessara svara Braga er rétt að fjölmiðlar og þingmenn skoði ástæður þess að yfirvöld setja tillögur barnaverndaryfirvalda til hliðar - og afleiðingar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Held að það rétt að afmælið var mjög illa kynnt. Man ekki að hafa séð dagskránna auglýsta. Góðar ábendingar hjá þér. Það má líka kanna hvort fjöldi barnaverndarstarfsmanna sveitarfélaga fylgi fjölgun íbúa.
Valgerður Halldórsdóttir, 2.12.2007 kl. 15:04
Ég veit ekki hvort það taki því, þannig séð, að fjölga starfsfólki barnaverndarnefnda ef úrræðum og rýmum fyrir skjólstæðingana fjölgar ekki á við þörfina. 7 þúsund tilkynningar bárust barnaverndaryfirvöldum í fyrra. 5-10 foreldrar eru sviptir forræði árlega. 340-350 börn eru í fóstri á hverjum tíma (ný tilfelli um 100 á ári), þar af líklega um 200 í varanlegu fóstri. Um 60 börn/unglingar eru á meðferðarheimilum. Ef ekki þarf fleiri og fjölbreyttari úrræði þá þarf varla miklu fleiri starfsmenn - eða hvað?
Friðrik Þór Guðmundsson, 2.12.2007 kl. 20:06
Ég er nú ekki alveg sammála þér að það hafi ekkert upp á sig að fjölga starfsmönnum - en auðvitað þarf að fjölga líka úrræðum. Með fjölgun starfsmanna væri hægt að grípa inn í málin mun fyrr og áður en þau verða mjög alvarleg
Valgerður Halldórsdóttir, 6.12.2007 kl. 17:57
Mig grunar, Valgerður, að ef viðhorfsbreyting verður ekki í félagsmálaráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur þá komi hún seint til.
Það er hörmulegt til þess að hugsa að í allsnægtarsamfélagi okkar skuli ekkert minnka ill meðferð á börnum, ýmist vegna óeðli, óreglu, barnamergðar, fátæktar, heimsku og úrræðaleysis fulltrúa heildarinnar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 6.12.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.