Sveinn Andri úrskurðaður aðfinnsluverður

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður er aðallega kunnur af því að standa sig af fremsta megni við að verja forherta glæpamenn og ekki síst kynferðisbrotamenn. Hann gaf sér þó tíma til þess árið 2005 að taka að sér fyrir mig meiðyrðamál sem ég sá mig knúinn til að höfða gegn Sigurði Líndal lagaprófessor, af því að Líndal sakaði mig opinberlega um grafalvarlegt trúnaðarbrot – en slíkt er blaða- og fréttamönnum óþolandi og atvinnumöguleikum þeirra hættulegt.

 

Úrskurðarnefnd (siðanefnd) Lögmannafélagsins hefur nú úrskurðað eftirfarandi: “Sú háttsemi kærða, Sveins Andra Sveinssonar, hrl., að svara ekki skilaboðum og fyrirspurnum kæranda, Friðriks Þórs Guðmundssonar, sem lutu að möguleikum á áfrýjun héraðsdóms, áður en áfrýjunarfresturinn rann út er aðfinnsluverð. Sú háttsemi kærða, að svara seint og á ófullnægjandi hátt tilmælum úrskurðarnefndar lögmanna um að gera grein fyrir máli sínu um erindi kæranda, er aðfinnsluverð”.

 

Sveinn Andri hefur með öðrum orðum verið faglega húðskammaður fyrir frammistöðu og framkomu sína í málinu sem hann tók að sér fyrir mig gegn gjaldi.

 

Sigurður Líndal er ekki hver sem er í samfélaginu og fyrirfram ljóst að við ramman reip væri að draga að höfða mál gegn honum – þessum fræðilega uppalanda flestra lögmanna og dómara landsins. Ég kannaði hug nokkurra nafntogaðra lögmanna og Sveinn Andri var sá eini sem virtist þora í Sigurð. Mál var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hin umstefndu ummæli Sigurðar: Hann sagði opinberlega að einhver aðstandenda hefði lekið skýrslu um Skerjafjarðarslysið í fjölmiða og væri þar vart um annan að ræða en Friðrik Þór Guðmundsson. Sigurður laug blákalt upp á mig og neitaði í kjölfarið að draga ummæli sín til baka og biðja mig afsökunar. Líndal vék sérstaklega úr vegi til að koma á mig höggi; annars hefði öllum þáttum Skerjafjarðarmálsins verið lokið þar og þá.

 

Héraðsdómarinn komst að þeirri niðurstöðu að sýkna Sigurð, þar sem um leyfilegan gildisdóm væri að ræða. Með öðrum orðum hafi hann mátt viðra þessa skoðun sína – burt séð frá sannleiksgildi hennar. Dómarinn túlkaði lögin á hagfelldasta hátt fyrir lagaprófessorinn. Kannski var við því að búast.

 

Ég felldi mig ekki við þessa niðurstöðu en féllst á þá tillögu Sveins Andra að nýta þriggja mánaða áfrýjunarfrestinn, leggjast undir feld og hugsa málið. Mín afstaða var þó mótuð og þegar tæpir tveir mánuðir voru liðnir hófust tilraunir mínar til að ná sambandi við Svein Andra til að ræða við hann um áfrýjun dómsins til Hæstaréttar. En einhverjir óútskýrðir og undarlegir hlutir höfðu gerst. Af ókunnum ástæðum greip Sveinn Andri til þess óyndisráðs að svara mér ekki. Hann hunsaði tölvupósta mína, tók ekki símtölum mínum, sinnti ekki skilaboðum frá mér og neitaði að ræða við mig þegar ég vék eitt sinn að honum á göngum héraðsdóms. Staða mín var ekki góð; áfrýjunarfrestur að renna út, en verklok af hálfu Sveins Andra ekki komin til og mér óheimilt að leita annað. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og meðal annars ákall til kollega Sveins Andra á lögmannsstofunni, leið áfrýjunarfresturinn með tilheyrandi réttarspjöllum.

 

Ég veit ekki hvað kom eiginlega fyrir Svein Andra. Ég gat ekki látið fagleg svik hans óátalin og vísaði þeim til siðanefndar lögmanna. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að ég hef enn engar skýringar fengið á téðum svikum. Mér er því næst að nýta mér áðurnefndan Líndals-dóm til að fella gildisdóm. Sá dómur er þá alltént sigur fyrir málfrelsið og þá út af fyrir sig huggun. Mér leyfist að segja: Einhver greip Svein Andra heljartökum í málinu og kom honum til að svíkja skjólstæðing sinn og er þar vart um annan að ræða en Sigurð Líndal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband