24.6.2007 | 21:34
Felldi Kastljós Jónínu, Framsókn og ríkisstjórnina?
Hinn mæti maður, Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra, skrifar furðulega grein í Sunnudagsblað Fréttablaðsins. Grein Jóns er hér. Leggur Jón út frá grafalvarlega ranglátum úrskurði siðanefndar BÍ í svonefndu Jónínumáli (sem er rangnefni). Grein Jóns er mjög vond, eins og úrskurðurinn.
Jón fellur í þann fúla pytt, eins og siðanefndin, að gera Helga Seljan og Kastljósinu almennt upp annarlega hvatir við umfjöllunina um veitingu ríkisborgararéttar til tengdadóttur Jónínu Bjartmarz. En Jón gengur lengra og hann gengur svo langt að hann fellur fram af hömrum og endar í urð og grjóti.
Jón meira og minna kennir Kastljósi um ófarir Framsóknarflokksins í síðustu þingkosningum. Hann segir það "mjög líklegt að málatilbúnaður Kastljóssins hafi haft áhrif á úrslit alþingiskosninganna og innbyrðis röð þingmanna Framsóknarflokksins og sé ein af ástæðum þess að flokkurinn hefur nú ekki þingmann í Reykjavík".
Þvílík endemis vitleysa. Jón: Það er Framsókn sjálf sem gerði út af við sig gagnvart kjósendum. Niðurlægingin 2006 var ekki Kastljósi að kenna. Neyðarlegt brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar var ekki Kastljósi að kenna. Og mæling Framsóknar í eins stafa prósentutölu vel fyrir kosningarnar var ekki Kastljósi að kenna. Loks: Umfjöllun Kastljóss um mál stúlkunnar sem fékk ríkisborgararéttinn beindist ekki að Framsókn umfram stjórnvöld yfirleitt. Það var ekki Jónína Bjartmarz sem var í kastljósi Kastljóss, heldur allsherjarnefnd Alþingis og þar af þriggja manna undirnefnd fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Í raun og veru mælir ekki margt gegn því að Jónína reyndi að hjálpa tengdadóttur sinni sem mest hún mátti, en það var allsherjarnefndar og þingsins að tryggja eðlilega afgreiðslu.
Og hvað sem úrskurði siðanefndar líður þá hygg ég að flestallir séu sammála um það að afgreiðsla allsherjarnefndar hafi EKKI verið eðlileg. Það er rétt að árétta og undirstrika í því sambandi að siðanefndin tók undir fréttagildi málsins og "sýknaði" umfjöllunina að mestu leyti - hin vonda "sakfelling" beindist að einum þætti af fjórum (þeim fyrsta) og að einum fréttamanni af þremur (Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir fjölluðu líka um málið, drógu það í land og að niðurstöðu). Fréttastofa Sjónvarpsins var kærð líka en að sjálfsögðu "sýknuð". Og það er líka rétt að halda til haga að siðanefndin horfði einfaldlega framhjá fjölmörgu í langhundinum hennar Jónínu sem kallaðist kæra til siðanefndar.
Jón, ó Jón. Nú þegar þú ert hættur í pólitík ættir þú að leyfa gamla ritstjóranum í þér að ráða ferð og sem slíkur ættir þú að rifja upp fagleg grundvallaratriði blaða- og fréttamennsku (EKKI flokksblaðamennsku þó). Gamli ritstjórinn í þér veit að frétt er frétt, þegar hún gerist eða kemur upp á yfirborðið (það á t.d. ekki að grafa fréttir vegna þess að kosningar eru skammt undan!). Fjölmiðlar eiga að veita stjórnvöldum aðhald og það geri Kastljós með mjög vel viðunandi hætti í þessu - og um það eru flest allir sammála nema helst Framsóknarmenn.
Um siðanefndina vil ég segja: Úrskurðir hafa oft verið gagnrýndir og stundum hefur maður verið sammála og stundum ósammála. En þessi úrskurður hefur algera sérstöðu og lýtur að algerum grundvallaratriðum fagsins. Þetta er vondur, óvandaður og hættulegur úrskurður. Það er full þörf á því að gera undantekningu á annars ágætri reglu um að siðanefndarmenn tjái sig ekki um úrskurði sína. Nú verður að koma skýring, nánari rökstuðningur. Það er höfuðnauðsyn. Ég vil skilja hugrenningar siðanefndarinnar, því úrskurðurinn er óskiljanlegur. Ég krefst skýringa - ellegar afsagnar siðanefndar. Í fúlustu alvöru. Um leið vil ég fá upplýst hvernig endurskoðun siðareglna miðar og hlakka til að sjá hvort fram muni koma einhver þau atriði sem koma munu í veg fyrir sambærilegt slys og nú hefur átt sér stað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það var reyndar ég sem felldi Framsókn. Gekk í flokkin. Á hest og taldi mig best eiga heima í the farmers party. Þar sem ég var ung að árum og kvenkyns var ég viss um að ég ætti skjótan frama í flokknum. Þetta var um svipað leyti og miklar kvennauppreisnir áttu sér stað í flokknum, en aldrei fékk ég að vera með (hafði reyndar engan áhuga, en það er annað mál). Fór í feita fýlu. Sagði mig úr flokknum. Og það var eins og við manninn mælt að flokkurinn liðaðist í sundur. Þetta er það sem var hér áður fyrr (áður en ég fæddist raunar) kallað soft revolution.
svarta, 4.7.2007 kl. 18:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.