Norrænu Kratakonurnar

Ég hallast að því að hvað mestu örlagavaldarnir að baki þeirri stjórn sem nú er verið að mynda séu tvær útlenskar konur. Sem sé formenn (-konur) Jafnaðarmannaflokka Svíþjóðar og Danmerkur, sem hingað komu til lands á landsfund Samfylkingarinnar.

Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt hafi með öðrum orðum komið eins og sprengja inn í kosningabaráttuna og komið af stað þeim efnahvörfum sem urðu og leiddu til grundvallar viðsnúnings á vinstri væng Íslenskra stjórnmála. Til viðbótar þeirri viturlegu ákvörðun Samfylkingarinnar að leggja höfuðáherslu á velferðarmál í stað þess að tönglast á umhverfismálunum, sem reyndust ofmetinn atkvæðatrekkir. Norrænu velferðarkonurnar urðu ómetanleg birtingarmynd þess velferðarmódels sem vinstra fólk þráir. Nú er spurning hvort Samfylkingin muni þessa mynd og áherslur í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar Samfylkingin hélt landsfund og skartaði Norrænu Kratakonunum mældist flokkurinn í 18-19% fylgi, en VG var að mælast í 27-28% hygg ég. Kannanir þóttu ekki síst sýna að konur hefðu svo þúsundum skiptir flutt sig frá Samfylkingunni yfir til VG. Framsókn var að mælast í 7-8%, Frjálslyndir og Íslandshreyfingin í 4-5% og Sjálfstæðisflokkurinn í 38-39%. En þá urðu pólitísku efnahvörfin. Leið Samfylkingarinnar lá þráðbeint upp, en VG niður. Undir lokin hygg ég að VG hafi síðan farið að tapa fylgi yfir til Framsóknar. Frá ofangreindri stöðu í könnunum til kosninganna sjálfra fóru í námunda við 13 prósentustig af VG. Um það bil 8-9 prósentustig bættust við Samfylkinguna og 5-6% við Framsókn.

Ég gæti trúað því að Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt hafi snúið svona tvöfalt til þrefalt fleiri kjósendum en Jóhannes í Bónus fékk til að strika Björn Bjarnason út. Ég tel að ef ekki hefði komið til þessi viðsnúningur þá væri ekki verið að mynda þá stjórn sem nú er að fæðast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég held að skoðanakannanir eða sýndarveruleiki þeirra plús það að fjölmiðlar á Íslandi standa ekki sína pligt - sé meginskýringin.

María Kristjánsdóttir, 18.5.2007 kl. 23:38

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka María, en ég er ekki allveg að skilja. Sýndarveruleiki skoðanakannana er meginskýringin á hverju? Slappir fjölmiðlar eru skýringin á hverju? Ertu þeirrar skoðunar að skoðanakannanir t.d. Gallup og Félagsvísindastofnunar mæli fylgið ekki rétt á hverjum tíma? Þá mega ansi margir fræðimenn skammast sín verulega. Ertu þeirrar skoðunar að ef fjölmiðlarnir væru betri í að standa pligt sína þá hefði fylgi ekki flust í svona miklum mæli frá VG til Samfylkingar? Frá hverju hunsuðu fjölmiðlar að segja? Í mesta vinskap: Hvað ertu að meina?

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.5.2007 kl. 00:00

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég á við að eftir að skoðanakannanir(sem ekki eru veruleiki heldur tilgáta) fóru að birtast snerist kosningabaráttan ekki aðeins að mestu um þær, heldur mátti greina hjá ýmsum fjölmiðlamönnum og stjórnmálaskýrendum ofuráherslu á að gera VG og síðar Íslandshreyfinguna tortryggilega. Áherslan fluttist frá hinni ómögulegu Ingibjörgu yfir á rauðhærðu hallærisgæjana. Umræðan í fjölmiðlum var líka leidd frá umhverfismálum og td. einkavæðingunni, kvótamálinu inná önnur svið. Stjórnmálamennirnir flestir á vinstri kantinum tóku svo þátt í leiknum á síðasta sprettinum, það var einsog værum við að kjósa til sveitarstjórnar, Írakstríðið komst til dæmis ekki að eða stefna flokkanna gagnvart  þróun samfélagsins, alþjóðasamfélagsins. Allir voru sætir og prúðir og klisjurnar réðu för. Það er mikil þörf á að gera könnun á fjölmiðlum og hvernig þeir leiða pólitíska umræðu (það mætti rannsaka þessa kosningabaráttu- samspil skoðanakannanna- fjölmiðlaumfjöllun) og sú þörf er jafn mikilvæg  fyrir almenning sem fjölmiðlamenn sjálfa. Einkum nú þegar að baki fjölmiðlanna standa engin hagsmunasamtök almennings heldur einungis auðfélög. Við eigum marga góða fréttamenn en þeir eru ekki í meirihluta, einkum hrópar það á mann í sjónvarpi, - sem ég verð jafnframt líka að taka fram að er auðvitað erfiðasti miðillinn. 

María Kristjánsdóttir, 19.5.2007 kl. 06:44

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir María, nú skil ég þig betur, en get aftur á móti ekki verið sammála forsendum þínum. Skoðanakannanir eru vísindaleg og viðurkennd mæling á t.d. afstöðu fólks. Þær eru, í höndum vandaðra/ábyrgra könnuða, ekki tilgáta og þær búa ekki til veruleika, heldur lýsa honum. Hið minnsta gefa þær áþreifanlega vísbendingu um t.d. þróun fylgis. Kannanir Gallups og Félagsvísindastofnunar mældu vel hrun Framsóknarflokksins, uppsveiflu Samfylkingarinnar og niðursveiflu VG. Það kann hins vegar vel að vera að mikil áhersla á fréttir af könnunum hafi haft einhver óbein áhrif, t.d. fælt sumt fólk, kannski 1%, frá því að kjósa Íslandshreyfinguna.

Ég hafna algerlega að faglegir fjölmiðlamenn hafi meðvitað beitt sér í kosningabaráttunni og unnið að hlutum eins og að gera VG og íslandshreyfinguna tortryggileg og sviegt eitthvað frá Ingibjörgu yfir á einhverja rauðhærða hallærisgæja (hverir í ósköpunum eru þeir?). Þetta er bara þín upplifun og þarna gæti ég allt eins talað um sýndarveruleika. Getur þú nefnt dæmi um þetta; menn og umfjallanir? RÚV? Stöð 2? Dagblöðin? Útvarpsstöð? Inngrip í kosningabaráttuna má þó hugsanlega finna í sérblaði DV rétt fyrir kosningar og aktifisma Morgunblaðsfólks gegn vinstri stjórn.

Inn á hvaða önnur svið fór umræðan, frá umhverfismálum og fleiru? Ég held að umræðan hafi flust yfir á það sem fólk hafði áhuga á. Fólk hafði t.d. mun meiri áhuga á að ræða velferðarmál en umhverfismál. Enginn hafði áhuga á að ræða Íraks-málið frekar - engun var meinað að tjá sig um það en enginn gerði það. Áttu fjölmiðlar kannski að þvinga menn til að ræða það mál sérstaklega? En ég hugsa að þetta mál eigi eftir sem áður stóran þátt í óförum Framsóknarmanna.

Ég tek undir með þér að það eigi að rannsaka fjölmiðla. Þú meinar væntanlega akademískt en ekki af lögregluyfirvöldum. En mér finnst hins vegar að þú gerir, eins og fleiri, of lítið úr frjálsum vilja kjósenda. Mér finnst þú tala eins og að kannanir og fjölmiðlar hafi stjórnað umræðunni og ráðið úrslitum kosninganna. Eru kjósendur þá fast að því viljalausar lífverur og fljóta með straumnum?

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.5.2007 kl. 21:49

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

 mér finnst nú  það vera hálf framsóknarlegt  en kannski lýsandi fyrir það sem ég er að tala um í fari fréttamanna  þegar þú spyrð hvort ég vilji láta rannsaka af lögregluyfirvöldum fréttaflutning þegar ég nota beinlínis orðið könnun. En ég held að þessi kosningabarátta og sú síðasta væri ágætis grundvöllur til að skoða hvernig fjölmiðlar búa til "consensus" - einkum þegar fréttamenn sjálfir gera sér ekki grein fyrir því. Og tal um frjálsan vilja fólksins er náttúrulega bara barnalegt- þegar hægt er að plata Vestfirðinga til að kjósa þá flokka sem eru búnir að hirða af þeim aleiguna - og þegar hundruð miljóna ef ekki miljarðar eru notaðir í auglýsingar til að fá fólk til að kaupa það sem það þarfnast ekki.  Af hverju gott fólk tönglast alltaf á þessari klisju er mér óskiljanlegt.  En sofðu vel. Ég er auðvitað ansi spæld út af þessum kosningum.

María Kristjánsdóttir, 20.5.2007 kl. 00:07

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Af hverju ertu að: a. uppnefna mig framsóknarmann og b. segja mér að fara að sofa, María!? Ég hef sennilega misboðið þér á einhvern hátt og þá biðst ég afsökunar. En af tveimur kostum: a. fólk er fífl eða b. fólk er kannski misviturt, en tekur sjálfstæða ákvörðun í kjörklefanum, þá vel ég síðari kostinn. Aftur á móti styð ég heilshugar tillögu þína um rannsókn á áhrifum fjölmiða á kosningahegðan. Og er með þér í hópi óánægðra með útkomu kosninganna.

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.5.2007 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband