Að mynda "tárvota miðaldra menn"

Sigurður Ásbjörnsson hefur skrifað athugasemd vegna síðustu færslu minnar og kveðst efast um vinnubrögð Kastljóssins í Breiðavíkurmálinu. Sigurður, drengur góður, útskýrir þó ekki efasemdir sínar að öðru leyti en því að gefa í skyn að Kastljós hafi lagt áherslu á að “mynda tárvota miðaldra menn” frekar en að svara ýmsum lykilspurningum.

 

Kæri Sigurður. Heldur finnst mér kaldrifjað að smækka fórnarlömb Breiðavíkurhrottanna niður í “tárvota miðaldra menn”. Þegar ég nefndi í fyrri pistli mínum tárin og endurfundina þá var ég ekki að lýsa áhersluatriðum Kastljóss, heldur afar fréttnæmum og nánast sögulegum tíðindum, ofan á aðrar “veraldlegri” upplýsingar í málinu, sem vissulega hefur verið fjallað um, bæði í Kastljósi, af fréttastofum RÚV og af miðlum á borð við DV og Stöð 2. Að þessir “miðaldra menn” hafi gerst “tárvotir” frammi fyrir alþjóð er nefnilega stórmerkilegur “atburður” og ekki mörg ár síðan svo gott sem útilokað var að slíkt gæti gerst. Þessi tár gáfu mörg tonn af upplýsingum og sömuleiðis endurfundir þessara manna og faðmlög eftir áratuga aðskilnað en sameiginlegar martraðir. Og þessi tonn af upplýsingum, þessi áhrifamiklu óbeinu upplýsingar um hryllilegar misgjörðir, þessi hrikalega sterku skilaboð úr fortíðinni, eru ekki ómerkilegri upplýsingar en ýmsar tölur og beinharðar staðreyndir sem RÚV og aðrir áðurnefndir miðlar hafa verið að draga fram í dagsljósið.

Kæri Sigurður; sást þú bara "tárvota miðaldra menn"? Fór það kannski í taugarnar á þér að viðkomandi menn hafi ekki getað haldið aftur af tárunum og sagt þess í stað frá á klínískan og tilfinningalausan hátt, eins og sannir karlmenn eiga að sögn að gera?

Til samans hafa þessir miðlar unnið þarft verk og flestöllum spurningum þínum svarað af einum eða öllum þeirra og þá ekki síst af frétta- og dagskrárgerðarfólki Kastljóss og fréttastofu Sjónvarps. Eftir notabene frumkvæði fórnarlambanna sjálfra og þeirra Bergsveins Björgólfssonar og Kristins Hrafnssonar vegna heimilamyndarinnar um Breiðavíkurmálið.

 

Eða hvaða spurningum af þínum eftirfarandi hefur á skort að hafi verið settar fram og svara leitað: Hvenær varst þú í Breiðavík? Hvers vegna varstu þar? Hvernig var vistin? Var engin munur á starfsfólkinu?  Viðhöfðu allir sömu svívirðingar og misþyrmingar?  Hvað gerðirðu þegar þú losnaðir þaðan?  Hvernig gekk þér að fóta þig í tilverunni?  Fékkstu einhverja aðstoð?  Gerirðu þér grein fyrir hvers konar (ef einhverja) hjálp þú þarfnast í dag?  Hefurðu haldið sambandi við þá sem dvöldust með þér í Breiðavík?  Veistu um örlög þeirra? Geturðu nú þetta mörgum árum síðar gefið stjórnvöldum ráð um það hvernig beri að fara með má ykkar sem dvöldust í Breiðavík?  Gerirðu þér grein fyrir því hvers konar hjálp þið þurfið helst á að halda?

 

Hafandi séð alla þætti Kastljóss um málið og fylgst með upplýsingaöfluninni og tekið þátt í henni mótmæli ég því að frétta- og umsjónarfólkið hafi lagt áherslu á að “mynda tárvota miðaldra menn” á kostnað einhverra ótilgreindra annarra vinnubragða af meintum faglegri sortum. Þessar spurningar hafa verið settar fram og svara leitað, kæri Sigurður. Um vistina, um aðbúnaðinn, um hrottaskapinn, um mismunandi starfsfólk, um stóru strákana gagnvart þeim minni, um afleiðingarnar, um þöggunina, um hjálparskortinn og um mögulegar lausnir... Það er mín skoðun að fréttastofa Sjónvarps og Kastljóss hafi staðið sig afar vel í þessu máli og dreg ég þá á engan hátt úr frammistöðu annarra eða áherslum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband