5.11.2010 | 13:24
Draugarnir í heiðarselinu (5. hluti af 6)
Þegar fram á vöku leið, án þess að Guðmundar yrði vart, þótti henni ekki lengur frestandi að fara í fjósið til þess að gefa kúnni og mjalta hana. En sem hún var að tygjast í fjósið, heyrðist henni bæjardyrahurðinni hrundið upp. Hvarflaði því þá fyrst að henni, að lokunni hefði verið illa rennt í kenginn, er Guðmundur gekk viðstöðulaust inn og varð henni í bili ekki til þess hugsað, hve öndvert það var góðum siðum, að hann kæmi þannig í bæinn eftir sólsetur, án þess að guða á glugga.
Þessu næst heyrðist henni gengið inn göngin nokkuð hvatskeytlega, og í næstu andrá, er borðstofuhurð hrundið upp. Birtast í gættinni tveir menn, sem hún þykist þegar kenna, og eigi góðir gestir í híbýlum heiðarbúanna. Voru þetta engir aðrir en hinir látnu Neða-Nes-feðgar, Helgi og Ásmundur sonur hans. Varð henni ærið hverft við þessa sýn, og litla stund mátti hún sig hvergi hræra. Var skelfing hennar slík, að henni lá við öngviti andspænis þessum óboðnu gestum. En brátt sigraði þó viljastyrkurinn.
Hún reis upp með yngsta barn sitt á handleggnum, gekk á móti komumönnum og kastaði á þá orðum. Ekki er í minnum, hvað henni varð á munni, enda hefur hún kannski ekki munað það glöggt eftir á. En brottu vísaði hún þeim heldur ómjúklega og skar ekki utan af. Við þetta hörfuðu gestirnir undan, en Kristín fylgdi þeim eftir fram göngin og allt að bæjardyrahurðinni, sem raunar var lokuð eins og hún vænti. Hurfu komumenn þar, en konan stóð eftir í myrkum göngunum. Setti þá að henni hræðslu svo megna, að hún varð að beita öllu, sem hún átti til, er hún sneri aftur til baðstofunnar, svo ofboð næði ekki tökum á henni."
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.