3.11.2010 | 23:31
Draugarnir í heiðarselinu (3. hluti af 6)
Árið 1967 birtist í Sunnudagsblaði Tímans frásögnin "Konan í heiðarselinu", sem byggði m.a. á ofangreindri heimild, sögn Guðjóns Jónssonar frá Hermundarstöðum og Árbók Ferðafélags Íslands 1953. Hefst nú bein tilvitnun í hluta þeirrar Tímagreinargreinar, þótt það kosti nokkrar endurtekningar:
"... í Neðra-Nesi í Stafholtstungum hafði lengi búið bóndi, er hét Helgi Jónsson, sonur Jóns Jónssonar, sem um skeið bjó á Hofsstöðum, og Guðrúnar Helgadóttur frá Hafþórsstöðum í Norðurárdal. Hann var einn hinn efnaðasti bóndi í sveitinni, ráðsettur og gætinn, en nokkuð dulur og myrkur í skapi á köflum. Hann var leitarforingi Stafholtstungnamanna á afrétt og réttarstjóri löngum í Fiskivatnsrétt, vörpulegur maður og karlmenni hið mesta og svo vel íþróttum búinn, að hann var vart talinn eiga sinn jafningja um Borgarfjörð og þótt víðar væri leitað. Var mælt, að hann hefði stokkið yfir tíu álna breiða gröf alvotur, og í glímu stóðst honum enginn snúning.
Helgi í Neðra-Nesi átti mörg börn með konu sinni, Katrínu Ásmundsdóttur, og voru þau uppkomin orðin upp úr 1860 (þetta er rangt - innskot FÞG). Hafði hann þá misst konu sína og hugðist festa ráð sitt að nýju. Nú gerðist það vorið 1866, er hann var á ferð sjóleiðis af Brákarpolli inn Borgarfjörð, að hann fékk aðsvif og féll útbyrðis. Náðist hann þó, en aðþrengdur mjög, og er mál manna, að hann yrði ekki samur eftir þetta. Hann gekk þó að eiga konuefni sitt í lok júlímánaðar um sumarið og var manna glaðastur í brúðkaupsveizlunni. En aðeins tólf dögum síðar hvarf hann. Hafði fólk tekið sér hádegisblund eins og þá var venja, en sjálfur gekk Helgi suður að Hvítá, kvaðst ætla að skoða slægjur og lézt myndi koma brátt aftur. Þegar fólkið vaknaði, var Helgi ókominn, og fór þá sonur hans einn, Ásmundur, að hyggja að honum. Gekk hann um stund með Hvítá, unz hann kom þar, sem Hörðuhólar heita. Sá hann þá orf föður síns í ánni, og var orfhællinn eða ljárinn fastur á steini. Þótti sýnt að Helgi hefði drukknað þarna, og kom upp sá kvittur, að hann hefði gengið í ána í þunglyndiskasti eða einhvers konar ráðleysu.
En ekki er ein báran stök. Rúmum tveim árum síðar, fám dögum fyrir jólin 1868, drukknaði Ásmundur, sonur Helga, efnismaður talinn og atgervi búinn, niður um ís á Þverá, og lék einnig orð á, að það hefði ekki með óvilja verið."Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.