2.11.2010 | 11:30
Draugarnir í heiðarselinu (2. hluti af 6)
Áður en greint er frá dauðdaga Helga Jónssonar er rétt að rifja upp lýsingu Helga Einarssonar dóttursonar hans á honum: "Var (Helgi) orðlagður um allt Suðurland á þeim tíma fyrir að vera bezti glímumaður og íþróttamaður, sem þá var uppi. Það er sagt um hann, að hann hafi stokkið yfir á eða læk við sjóinn, þegar hann kom þreyttur úr barningi og gat ekki lent heima hjá sér, en varð að ganga nokkuð langa leið. Hann stökk þetta allt í öllum skinnklæðum, eins og hann kom af sjónum, en enginn hefur treyst sér til að gera það síðan, ekki einu sinni lítið klæddur."
Í öðrum heimildum kemur einnig fram hversu mikill atgervismaður Helgi hefur verið. Þá er líka vert að hafa í huga að hann hafði kvænst konuefni sínu aðeins tæpum hálfum mánuði fyrir drukknun sína. Hann var orðinn vel efnaður á þeirra tíma og staðs mælikvarða. Neðranes var myndarbú, en bærinn stóð nokkurn veginn á sama stað og núverandi bær stendur, við Þverá, rétt um kílómetra frá þeim stað sem áin sameinast Hvítá.
Í "Annál 19. aldar", bls. 317-319 segir svo um málið: "9. ágúst gekk Helgi Jónsson, bóndi á Neðranesi í Stafholtstungum, suðurundir Hvítá. Þegar hann fór af stað, ætlaði fólkið að leggja sig fyrir um miðjan daginn, og sagði hann því, að hann ætlaði að skoða slægjur og koma brátt aftur og hélt hann á orfi sínu. Þegar fólkið vaknaði var Helgi eigi kominn, hugsaði það, að hann væri farinn að slá suður við ána og gekk sonur hans, Ásmundur, þegar þangað; hann sá þá föður sinn hvergi á engjunum, gekk hann þá fram með Hvítá upp fyrir Langholtsvað og þangað, er heita Hörðuhólar, þar er hylur í ánni og hringiða í hylnum, þar sá hann orf föður síns í ánni og hafði orfhællinn eða ljárinn fest sig við stein, en föður sinn sá hann hvergi. Töldu menn víst að hann hefði í þennan hyl farið, en hvernig það hefur atvikazt vita menn eigi. Um vorið var hann sjóveg á ferð af Brákarpolli, fékk hann þá aðsvif og féll í sjóinn, var hann mjög aðþrengdur, er hann náðist, og var haldið að hann hefði eigi orðið jafngóður síðan. Nú ætluðu menn að sama mundi hafa að borið, og hann annaðhvort hafa fallið í ána, þegar hann gekk með henni, eða að honum hefði komið einhver ráðleysa. Eigi vita menn að hann hafi sett nokkuð fyrir sig, enda voru heimilisaðstæður hans í öllu tilliti hinar æskilegustu og 28. júlí hafði hann kvænzt í síðara sinn og var þá glaður og kátur. Helgi var maður skynsamur og ráðsettur og stilltur vel, nokkuð dulur og þungbúinn í skapi, en gat þó verið glaður og skemmtinn. Hann var dugnaðarmaður og þrátt fyrir alla ómegð sína orðinn með efnuðustu bændum í Stafholtstungum. Hann var hár vexti, vel limaður og hinn gjörfulegasti. Hann var einhver hinn mesti atgjörfismaður og svo mikið karlmenni og svo glíminn og snar, að það er vafalaust, að hann hefir eigi átt sinn jafningja í Borgarfirði og ef til vill eigi á Suðurlandi. Eitt sinn hljóp hann alvotur eða gegndrepa, svo margir sáu, yfir gröf þá, er var fyrir vestan Keflavík, var það hlaup mælt og var það 10 álnir. Hann mun hafa verið um fimmtugt.
Í "Annál 19. aldar" er í þessu sambandi vísað til Þjóðólfs, 19. árgang, bls. 10. Hin nýja kona Helga hét Halldís Vigfúsdóttir. Hún var dóttir hjónanna á Hundastapa í Hjörtseyjarsókn, Vigfús Jónssonar og Steinunnar Ólafsdóttur. Í "sálnaregistrum" kemur fram að eftir drukknun Helga hafi heimilið smám saman leyst upp. Í árslok 1867 var Halldís 43 ára og kom Einar Kristjánsson inn á heimilið sem fyrirvinna, en Ásmundur er skráður sem húsmaður. Í árslok 1868 er Ásmundur dáinn, Halldís orðin húskona í Stafholti og stjúpbörn hennar komin hingað og þangað, utan hvað Guðrún varð kona Einars í Neðranesi.
(Næst 3. hluti)Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.