Draugarnir í heiðarselinu (1. hluti af 6)

       Helgi Jónsson í Neðranesi drukknaði í Hvítá 9. ágúst 1866, þá aðeins 49 ára að aldri. Hann hafði þá verið ekkill í fjögur ár en var nýkvæntur og því á yfirborðinu ekki mikil ástæða til að trúa því að hann hafi drekkt sér eins og sögusagnir greina frá. Í kirkjubókum er talað um "ráðleysi" og í Borgfirskum æviskrám (BÆ) er beinlínis sagt að Helgi og sonur hans Ásmundur hafi drukknað "af sjálfsvöldum". En nánar um það síðar.       

Sem fyrr segir var fyrri kona Helga Katrín Ásmundsdóttir, Jörgensonar, Hanssonar Klingenberg. Helgi og Katrín áttu saman 17 börn á 19 árum, en lífsskilyrðin voru bágborin og 10 barnanna dóu ung, mörg fáeinna daga gömul. Það hlýtur að hafa reynt mjög á þolrifin að vera sífellt að jarðsetja nýborin börnin sín og líklegt má telja að barneignirnar og raunirnar hafi átt sinn þátt í því að Katrín dó aðeins tæplega 45 ára gömul. Þá var yngsta lifandi barnið hennar Margrét eins og hálfs árs gamalt, en tvíburi hennar Jóhannes hafði dáið 5 daga gamall. Helga beið þá það erfiða verkefni að tryggja framtíð þeirra sjö barna sem eftir lifðu, en þau voru á aldrinum eins og hálfs árs til tvítugs. Elstur var Ásmundur, sem síðar kemur meira við sögu.  

       Þegar Katrín dó frá börnum sínum var Jórunn formóðir okkar 8 ára. Strax í kjölfarið var henni komið fyrir í fóstur hjá Guðmundi Eggertssyni og Helgu Bjarnadóttur í Sólheimatungu og þar var hún enn 1870 orðin 16 ára. Hún var aðeins 12 ára þegar Helgi faðir hennar drukknaði. Börnin sjö höfðu þá misst báða foreldra sína og mörg systkini og enn gerðust hörmungar 1868, en þá drukknaði Ásmundur, elsti bróðirinn, sem þá var orðinn höfuð fjölskyldunnar. Hann var "talinn afbragð ungra manna að atgervi og hæfileikum" (sjá BÆ I um hann). Enn má bæta við hrakfarasöguna: Árið 1834 drukknaði í Hvítá Ásmundur Ásmundsson bróðir Katrínar, aðeins 21 árs gamall, þá fyrirvinna að Elínarhöfða.

(Næst 2. hluti. Áður birt í niðjatali mínu "Af alþýðufólki og afturgöngum)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

2. hluti á morgun.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.11.2010 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband