19.1.2007 | 19:48
Klám, ofbeldi og svindl
Vinur minn hefur bent mér á að það sé hinn mesti misskilningur hjá mér og öðrum að það sé einhver þörf á alvöruþrunginni og gagnrýninni fréttamennsku. Það er að segja ef það eigi að fara eftir áhuga almennings, miðað við hvað hann horfir á og les. Þessu til sönnunar bendir hann mér á hvað mest lesið sé og sent af mbl.is:
Mun klámið ráða úrslitum? Stúlka lokuð inni í herbergi í tvö ár. Ástarþríhyrningur unglinga endaði með líkamsmeiðingum. Bresk fréttakona berar sig í beinni. Brandari sem klikkaði. Hugh Hefner ástfanginn. Diaz og Timberlake sögð hafa átt í hvössum orðaskiptum eftir verðlaunahátíð. Seinfeld reyndi að snuða fasteignasala.
Klám, ofbeldi, svindl og rifrildi stjarnanna, segir vinurinn. Og bætir við að stjórnmálamenn eigi að læra af þessu; þeir eigi að fara fáklæddir, helst berir, í ræðupúlt Alþingis og ráðast á andstæðingana með orðum og höggum. Vinur minn er fyndinn og háðskur. En að hlátrinum loknum hugsaði ég vissulega; Hefur fólk miklu meiri áhuga á gjörðum Silvíu Nætur en gjörðum Sivjar Friðleifs? Er kannski hið sannreynda mikla áhorf á sjónvarpsfréttir ekki til marks um alvarlega þenkjandi fólk heldur fólk sem bíður eftir fréttum af klámi, ofbeldi og stjörnum að rífast? Svari hver fyrir sig...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2007 kl. 16:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.