Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Ég mótmæli þessu, mbl.is

Hin annars ágæta vefsíða mbl.is er að pirra mig þessa dagana, með "fídus" sem er mér mjög á móti skapi og mér finnst eiginlega skerða mannréttindi mín. Mér finnst að verið sé að grípa frammí fyrir frelsi mínu til athafna, það er eins og einhver standi mér við hlið og kippi í mig til að þvinga mig til gjörða sem ég vil ekki.

Jú ég er að tala um að þegar ég "skrolla" niður forsíðuna á mbl.is, með bendilinn á miðri síðu, eins og gengur og gerist, þá er augljóslega búið að innstilla einhvern "fídus" og skrollunin stöðvast á auglýsingu. Skrollunin hættir að virka og ég er píndur til að festa augun á einhverri fjandans auglýsingu af því að bendillinn stoppar þar og vill ekkki fara lengra. 

Núna á einhverri fjandans Immiflex lyfja-auglýsingu. Ég hef vitaskuld tekið þá ákvörðun að kaupa aldrei, aldrei, aldrei í lífinu Immiflex. Þið athugið það þarna hjá auglýsingadeild mbl.is og markaðsdeild viðkomandi lyfjafyrirtækis. Þessi þvingun reitir mig til reiði. Ég efast um að ég sé einn um það.

Losið mig úr þessum skroll-höftum!

Morgnunblaðið hefur sent mér eftirfarandi nótu:

"Hér er ekki um að ræða vísvitandi aðgerðir af okkar hálfu til að bendillinn stoppi við ákveðna auglýsingu. Þetta eru hins vegar vandræði í Firefox sem tengist flash-útgáfunni sem þessi auglýsing var búin til í.

Það hefur verið rætt við hönnuðinn og hann mun lagfæra auglýsinguna.

Þakka þér fyrir að benda á þetta. Það er ekki alltaf sem við áttum okkur á svona vandræðum. Sérstaklega þegar þetta virkar vel í flestum vöfrum
".


Viðkomandi hönnuður hefur og sent mér bréf og vil ég af því tilefni taka það skýrt fram, að hann var bara að vinna vinnuna sína samviskusamlega og ekki þátttakndi í neinu djögullegu plotti! Ástæða er til að biðja hann afsökunar ef hann hefur orðið yfir óþægindum vegna þessa.

Mér fannst ákaflega eðlilegt, ótæknivæddum manninum, að draga þá ályktun að þetta væri viljandi auglýsinga-trick. Rétt eins og auglýsingamiðinn sem er límdur utan á prentaða Moggann, örugglega ÖLLUM til leiðinda (nema auglýsingamönnum og þeim sem kom með hugmyndina). Í umræðum um þessa færslu hefur sannleikurinn verið leiddur fram. Þetta varðar Firefox-vafrarann og Flash-playera og annað sem dauðlegir menn botna ekki í. Hér er ekki um djöfullegt plott auglýsenda og markaðsdeilda að ræða. Það er komið fram. Vegna óháttvíss komments frá einhverjum "Hilmari", sem ég hef fjarlægt, vil ég bæta við að færslan stafaði af almennum pirringi út í auglýsingar og auglýsendur, en ekki af geðveiki eða illvilja. Sorrý.


Breiðavíkurbörnin loks beðin afsökunar

 Breiðavík.    Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.

Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því. 

Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað. 


mbl.is Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikalegar innanflokkserjur!

Ef rétt er með farið hjá Árna Johnsen - og hefur hann orð pólsks stólpípusérfræðings fyrir því - þá hefur einhver pólitískur andstæðingurinn ástundað það að eitra fyrir honum.

Það gefur augaleið að sá pólitíski andstæðingur hlýtur þá að vera innan hans eigin flokks, þar sem hann er einangraður, ekki vel liðinn og virk fráfæling á atkvæði.

Pólitískir andstæðingar hans úr öðrum flokkum vilja honum vitaskuld ekki svo illt. Þeir vilja hann hressan og yfirlýsingaglaðan í toppslag hjá Sjálfstæðisflokknum, helst leiða lista þeirra. Ég er að tala um "motive" eins og sagt er í lögguþáttunum. Enginn hinna flokkanna "græðir" á forföllum Árna Johnsen. Bara Sjálfstæðisflokkurinn!

Reyndar er möguleiki að þetta tengist ekki pólitík. Kannski samkynhneigðir að verki eða fyrrum samfangar mannsins?

Rétt er líka að minnast á annan læknisfræðilegan möguleika, sem gæti hafa farið framhjá erlendum stólpípusérfræðingi. Að þetta sé sjálfsofnæmi. 

Ég óska Árna svo sannarlega bót meina sinna. Í alvöru talað. Vil hafa hann hressan og yfirlýsingaglaðan slást um og fá fyrsta sætið í Suðurkjördæmi.


mbl.is DV: Eitrað fyrir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaunin hjá dráttarklárum atvinnulífsins

Eru læknar á ofurlaunum. Sumir að því er virðist. Ekki held ég þó að þeir komist með tærnar þar sem forstjórar og verðbréfasnillingar hafa komist með hælana síðustu árin. Einhvern veginn held ég að engum hafi órað fyrir því hversu mikið ofurlauna- og kaupréttarbólan myndi blása út í öllu gegndarleysinu.

Árið 2003 skrifaði ég fréttaskýringuna "Forstjórar á ofurlaunum" í Mannlíf en nú finnst mér sú grein vera hálf "barnaleg", þ.e. það sem þótti þá mikið átti eftir að verða tiltölulega "lítið". hvað sem því líður langar mig til að leyfa ykkur (sem nennið) að lesa "andann" árið 2003, en þarna er vitnað í ýmsa spekinga og meðal annars talar einn prófessor um mikilvægi þess að "dráttarklárar atvinnulífsins" séu á góðum launum.

"Það brá mörgum launamanninum í brún á dögunum þegar fréttist af svokölluðum “kaupréttarsamningum” nokkurra forstjóra landsins sem færðu þeim, með litlu meira handtaki en einu pennastriki, margra milljóna króna launabónus. Þannig fékk forstjóri Eimskipafélagsins að kaupa hlutabréf á vildarkjörum og seldi þau óðara aftur á mun hærra gengi – og græddi þrjár milljónir króna. Þetta er þó nokkuð hærri upphæð en láglaunafólk þénar á heilu ári, enda jafngildir þetta 250.000 kr. mánaðarlaunum. Sá er síðan enn munurinn á forstjóranum og launamanninum að þessi þriggja milljóna króna “kaupauki” flokkast undir söluhagnað og af slíku er aðeins greiddur 10% skattur. Fiskvinnslukonan í Granda og afgreiðslukonan í Hagkaupum borga 40% skatt af sínum launauppbótum.

 

Forstjórar landsins hafa ekki bara góða ráðningarsamninga og veglegar tekjur heldur hafa þeir á undanförnum árum siglt hraðbyri fram úr starfsfólki sínu í kaupmáttaraukningu. Meðalforstjórinn í nokkrum af helstu og stærstu fyrirtækjum landsins er með ríflega eina og hálfa milljón króna í skattskyldar tekjur á mánuði og hefur aukið kaupmátt sinn um 65% síðastliðinn rúman áratug eða milli 1990 og 2002. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa almenns launafólks hækkað um nálægt 30%.... Framhald í athugasemdarýminu...

 

 


mbl.is Guðlaugur vildi ekki ofurlaun lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö ár frá Breiðavíkur-sprengjunni

Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.

"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.

Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.

Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.


Grænn og/eða vænn - um mengun mannúðarinnar

 Ég er ósköp grænn gagnvart umhverfinu en númer eitt vænn gagnvart velferðarkerfinu. Ég styð ekki mengun í náttúrunni, en ég leggst alfarið gegn mengun mannúðarinnar.

Ég styð heilshugar baráttuna gegn mengun í náttúrunni og hef skilning á þörfinni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda. En ef skynsömum umhverfissjónarmiðum er fylgt þá met ég meira ábata atvinnuuppbyggingar en sparifataloforð sem ekki eru í takti við hlut Íslands í raunverulegri losun. Nú sem aldrei fyrr þarf samfélagið á skilvirkri tekjuöflun að halda.

Sama gildir um hvalveiðar. Ég fellst ekki á tilfinningarök um að veiðar á hvölum séu í sjálfu sér slæmar, burt séð frá öðrum rökum. Ef skynsöm rök segja að hvalveiðar færi þjóðinni meiri tekjur en sem nemur tjóninu sem veiðarnar hafa í för með sér, þá fellst ég á hvalveiðar. Ef tjónið er meira og þá nettótap af veiðunum, þá er ég þeim ekki fylgjandi.

Ekki síst í yfirstandandi krísu horfi ég til alls þess sem getur varið velferðarkerfið gegn óþörfum skakkaföllum. Mannúð velferðarkerfisins er númer eitt hjá mér. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni er eitur í mínum beinum. Ef það tryggir sjúklingum og slösuðum nauðsynlega meðferð og kemur í veg fyrir lokun deilda og annað slíkt þá get ég alveg fallist á alls konar verksmiðjur (sem standast heilbrigt umhverfismat, einkum á landsbyggðinni) og hvalveiðar.

Vildi bara nefna þetta.


mbl.is Deildum lokað á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin ibbar smá gogg

Ekki fer á milli mála að það hafa myndast brestir í stjórnarsamstarfið. Brestirnir heyrast í tengslum við útkomu auka-landsfundar Sjálfstæðisflokksins og nú hefur Samfylkingin boðað einhvers konar fundarhöld til að ... hvað var það kallað ... skerpa stefnu sína? Össur lætur litla kínverja springa af og til og alls ekki virðist óréttmætt að gera ráð fyrir kosningum í ár.

Þær kosningar eiga ekki að koma of snemma, það hef ég sagt fyrr. Í fyrsta lagi í maí/júní, en jafnvel ekki fyrr en í september/október. Annars vegar er brýnt að óánægju- og reiðialdan í samfélaginu fái að formast í nýrri (nýjum) pólitískri breiðfylkingu (flokki), sem nái að skipuleggja sig og taka þátt í kosningum af myndugleika. Ef það gerist hins vegar ekki þá verður óánægt og reitt fólk að fá gott tækifæri og tíma til að hreinsa til í "gömlu" flokkunum með lýðræðislegum hætti; koma í veg fyrir uppstillinga-áráttu þeirra sem verma nú valdasætin og knýja fram lýðræðislegt val á nýrri forystu meðsem opnustum prófkjörum. Þetta hef ég tuðað um áður og tuða enn.

Ég leyfi mér og að bæta því við að ríkisstjórnin ætti fram að þeim kosningum fyrst og fremst að hegða sér eins og starfsstjórn og einbeita sér að lausn brýnustu vandamála. Þessi ríkisstjórn á ekki að efna til verulega umdeildra kerfisbreytinga, eins og að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Og sem slík starfsstjórn ætti hún að hleypa að fólki sem áunnið hefur sér traust meðal hins reiða almennings, í lykilembætti og úttektir. Menn eins og Þorvaldur Gylfason, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnar Önundarson, Lilja Mósesdóttir (fleiri mætti nefna); þau eiga að vera í stöðu til að hafa bein og formleg áhrif á ákvarðanir stjórnvalda.

Starfsstjórnin og Alþingi ættu og að dusta rykið af fjölmiðlalagafrumvarpi því sem þverpólitísk samstaða náðist um (en menntamálaráðherra treysti sér ekki til að knýja í gegn (ég er EKKI að tala um Davíðs-frumvörpin)), endurskoða það og laga að aðstæðum og gera svo að lögum. Þar sem aðaltakmarkið væri að efla sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla og gera rekstur fjölmiðla bæði gagnsærri og auðveldari. Bæði nú og á komandi mánuðum og árum er brýn nauðsyn að hafa hina lýðræðislegu umræðu öfluga og aðgengilega - og óbrenglaða af utanaðkomandi og ólýðræðislegum öflum.


Enga óreiðumenn í heilbrigðisþjónustuna, takk

 Benedikt Jóhannesson af Engey er einn af þeim frjálshyggjumönnum sem koma fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að skipulagsbreytingum á heilbrigðisþjónustunni og stendur þar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni að áformum um einkavæðingu á þessu viðkvæma sviði almannaþjónustunnar. Það er því merkilegt að lesa pistil hans um óreiðumennina í bönkunum, sem í raun eru sömu öflin og hans fólk vill hleypa að heilbrigðiskerfinu.

Varnaðarorð hans (sem svo má kalla) gilda enda ekki bara um fjármálakerfið, heldur um öll önnur svið sem nýfrjálshyggjan og gróðaöflin vilja tileinka sér og sjóðum sínum. Óreiðumennirnir í bönkunum eru að stofni til sömu óreiðumennirnir og komu landinu á kaldan klaka og sömu óreiðumennirnir og vilja nú gera heilsubrest manna að féþúfu. Útlendingar treysta Róberti Wessmann og hans líkum ekkert betur en óreiðumönnunum í bönkunum. Leiðin til að feta okkur "frá ánauð til frelsis" liggur ekki um þá almannaþjónustu sem mikill meirihluti landsmanna vil að verði áfram í sameignarrekstri á vegum hins opinbera.

 Benedikt er stjórnarformaður "Sjúkratrygginga Íslands", hinnar nýju stofnunar sem er lykillinn að leið Sjálfstæðisflokksins til aukinnar frjálshyggju í heilbrigðissviðinu. Forstjórinn er Steingrímur Ari Arason, einn harðasti boðberi nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og fyrrum Einkavæðingarnefndarmaður. Þessir menn vilja hleypa óreiðumönnunum að til að gera heilsuleysi landsmanna að féþúfu og gróðaveg. Þar er ekki rætt um góðviljaðar sjálfseignastofnanir, heldur fyrirtæki sem leita hámarksgróða. Fyrirtæki sem meta eigin hag ofar hag "viðskiptavinanna".

Var síðustu daga með skoðanakönnun á síðunni og hún endurspeglar ágætlega viðhorf lesenda bloggsins míns, sem aftur ríma vel við fyrri alvöru kannanir um afstöðuna til rekstrarforma á heilbrigðissviðinu. Svona varð niðurstaðan:

Spurt er: Á heilbrigðissviðinu vil ég:

24,0%   Aukinn einkarekstur sjálfseignastofnana

  1,8%   Aukinn einkarekstur hagnaðarvonar

Samtals aukinn einkarekstur: 25.8%

   9,6%  Minnka einkarekstur sjálfseignastofnana

37,7%   Minnka einkarekstur hagnaðarvonar

Samtals minni einkarekstur:  47.3%

18,0%   Óbreytt hlutfall einkareksturs

   9,0%   Ekkert af ofangreindu

 

167 svöruðu.

Að lokum þetta: Er ekki hægt að senda Ástþór Magnússon til Vanúatú með Davíð Oddssyni?


mbl.is Telja að óreiðumenn stjórni bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband