Færsluflokkur: Fjármál

Áróður hafinn gegn stjórnarskrárbreytingum

Nú er hafinn massífur áróður gegn því að fólkið fái að koma að því að breyta úreltri Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland. Ekki einasta stendur Sjálfstæðisflokkurinn harður gegn aðkomu almennings (en vill að Alþingi sitji að verkinu) heldur er mikið nú gert með að Stjórnlagaþing muni kosta pening.

Reiknimeistarar og skrifræðissinnar fjármálaráðuneytisins hafa fundið það út að Stjórnlagaþing muni kosta á bilinu 1-2 milljarða króna. Fjölmiðlar hafa hamast á efri tölunni eins og um sé að ræða lög á bók. Ég fæ ekki séð að nokkur fjölmiðill eða aðrir sem tjáð hafa sig um þennan meinta kostnað hafi rýnt ofan í forsendur útreikninganna. Hvað er þannig reiknað með að stjórnlaga-"þingmenn" fái í laun og í hversu langan tíma? Hvað er á bak við þennan útreikning á sérfræðinga- og ferðakostnaði?

Er hugsanlegt að skrifræðissinnarnir smyrji þarna óþarflega miklu á kostnaðinn? Ég er ekki búinn að skoða það enn, en ætla svo sannarlega að gera það. Það á ekki að hræða fólk að óþörfu. Og það á ekki að líta á Stjórnlagaþing sem einhverja óþarfa lúxus-vöru. Það þarf að hreinsa til í Stjórnarskránni, taka út úrelt ákvæði og setja inn ný sem auka á lýðræði og draga úr spillingunni

Hvers konar kostnaður við slík þjóðþrifaverk mun á endanum marg-borga sig, því aukið lýðræði með minni spillingu mun minnka spillingar-kostnaðinn. Þess utan blasir við að lýðræðið kostar pening og það er ekki óþarfa lúxus-vara

Ég fæ ekki betur séð en að Borgarahreyfingin, stjórnmála-armur Búsáhaldabyltingarinnar, sé eina framboðsaflið í landinu sem fyrir alvöru og af einlægni er að berjast fyrir nýrri undirstöðu undir lýðræðið á Íslandi. Sannið til - það er byrjað og það verður haldið áfram að krukka í frumvarp á þingi um stjórnarskrárbreytingar. Það er byrjað að væla yfir kostnaðinum. Það er byrjað að væla yfir tímaskorti. Það er byrjað að væla yfir meintum ókostum við óraðða lista. Áfram verður vælt. Mætum þessu væli með mótmælayfirlýsingu 25. apríl.


mbl.is Stjórnlagaþing gæti kostað 2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur glímir við draug

 Það var skuggalegt að hlusta á viðtal RÚV við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs og útrásar-auðjöfur í hádeginu í dag; hafa þar eftir ónafngreindum heimildarmanni úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins, að Davíð Oddsson hefði gert það að skilyrði fyrir brotthvarfi sínu úr stól seðlabankastjóra að "Baugur færi fyrst".

Maður er næstum því orðinn vanur stríðinu milli Jóns Ásgeirs og Davíðs og ætti því ekki að kippa sér upp við svona ávirðingar, en tímasetning atburða, svo sem kröfu skilanefndar Landsbankans um greiðslustöðvun, er með þeim hætti að manni stendur ekki á sama. 

Það gefur augaleið að það er út í hött, ef rétt er, að ákvörðun bankans, hugsanleg afleiðing meintrar kröfu Davíðs, setji í uppnám "50 þúsund störf í Bretlandi" og færi "hrægömmum" eignir Baugs ytra fyrir lítið. Ef notabene nokkuð er að marka orð Jóns Ásgeirs yfirleitt.

Jón Ásgeir mun aldrei get sannað fullyrðingu sína upp úr heimildarmanni í "innsta hring" Sjálfstæðisflokksins, nema sá hinn sami staðfesti þetta eða að auðjöfurinn hafi tekið símtalið upp. Að því leyti verður að afskrifa þessi ummæli. En skelfilega væri þægilegt ef Davíð stæði bara upp eins og maður og færi frá.

Ella er lítið að marka ásakanir Sjálfstæðismanna um hatur og heift af hálfu Samfylkingarinnar. Það getur nefnilega ekki talist neitt nema hatur, heift og hefnd að sitja áfram, enda snýst brotthvarf Davíðs ekki (lengur) um Samfylkinguna; þetta snýst um traust og trúverðugleika og þá ekki síst gagnvart erlendum lykilstofnunum.

Jón Ásgeir má gjarnan hverfa með öllu til Bretlands og það skilyrðislaust.


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband