Fallvalt hjá foringjum og fjölmiðlum

ekki benda á migNú þegar aldrei hefur verið eins mikil þörf á virku upplýsingaflæði og aðhaldi fjölmiðla að stjórnvöldum og stórfyrirtækjum blasir við að eigendur fjölmiðlanna eru að draga saman seglin; fækka í ritstjórnum og allt upp í að leggja fjölmiðla niður. Það er vond staða, ekki síst í ljósi þess að ýmislegt það er að gerast við landsstjórnunina og í orðum og gjörðum valdamanna sem þarfnast nákvæmrar skoðunar við.

Blaðið 24 stundir er hætt, 365 ehf hefur runnið inn í Árvakur, DV er að verða örblað með óvissa framtíð, Skjár einn hefur sagt öllum við (sem snertir svo sem ekki fréttirnar), Árvakur er að segja upp fólki og fleiri eru að rifa seglin. Þegar svo háttar getur óttinn við atvinnuöryggið heltekið blaða- og fréttamenn og þeir auðsýna síður djörfung og frekar sjálfsritskoðun; því atvinnuöryggið er hjá svo mörgum ofar á blaði en eltingaleikurinn við sannleikann og upplýsingarnar. Það er á margan hátt skiljanlegt, en getur lamað upplýsingahlutverk fjölmiðla fram að og fram yfir skaðsemismörk.

Gjörðir Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar nú, vitneskja þessa fólks um yfirvofandi krísu og aðgerðir eða aðgerðarleysi (og þöggun) þarfnast til dæmis ítarlegrar skoðunar. Svipað og Bretar ætla nú að skoða ofan í kjölinn hvað Brown og Darling vissu um Íslensku stöðuna en sögðu ekki frá. Kortlagning aðdragandans að krísunni, síðustu 2-3 árin, en ekki síst síðustu 6-8 mánuðina, ætti að vera forgangsverk hjá fjölmiðlum. Í þetta eiga reyndir fjölmiðlamenn að fara, en hinir reynsluminni geta séð um "stöndum saman" hliðarnar og talað við blessaða prestana og sálfræðingana.

Eigendur fjölmiðlanna verða að hugsa um ábyrgð sína núna þegar þeir rifa seglin. Skilja örugglega beittustu pennana eftir og gefa þeim gott ráðrúm til að greina þjóðfélagsástandið. Því verður ekki trúað að fjölmiðlaeigendur eins og Baugsfólk, Landsbanka-Bjöggar, Bakkavararbræður og fleiri reyni að lama fjölmiðla sína niður í getuleysi og tilkynningaskyldu.

"Hvar voru íslenskir fjölmiðlar í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi? Stóðu þeir sig í stykkinu, eða brugðust þeir almenningi? Veittu þeir stjórnvöldum aðhald eða voru þeir málpípur auðmanna? Og hvernig gengur þeim að svara þeim fjölmörgu spurningum sem vakna í kjölfar efnahagshrunsins? Hvaða áhrif hafa sameiningar og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á getu miðlanna til þess að standa undir nafni?" Svo spyr Blaðamannafélagið sem efnir til málþings í Kornhlöðunni miðvikudagskvöldið 5. nóvember næstkomandi kl. 20. Ástæða er til að hvetja fjölmiðlamenn til að mæta og stappa stálinu í hvora aðra.


Fjórir frummælendur verða á þinginu, þau Kristinn Hrafnsson, fréttamaður hjá Kompási, Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins og Valgerður Jóhannsdóttir, fyrrv. fréttamaður og verkefnisstjóri meistaranáms í blaðamennsku við Háskóla Íslands. Fundarstjóri verður Elva Björk Sverrisdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu. Málþingið er haldið á alþjóðlegum degi til varnar blaðamennskunni - og veitir ekki af vörnum nú. Miklir óvissutímar eru framundan og veitir almenningi þá ekki af að hafa sæmilega öfluga fjölmiðla, einkum þegar við blasir að breyskir stjórnmálamenn eru gjarnan að þegja yfir málum og jafnvel segja ósatt.


mbl.is Geir aðvaraði Brown í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Því verður ekki trúað að fjölmiðlaeigendur eins og Baugsfólk, Landsbanka-Bjöggar, Bakkavararbræður og fleiri reyni að lama fjölmiðla sína niður í getuleysi og tilkynningaskyldu."

Er þetta ekki lýsing á íslenskum fjölmiðlum eins og þeir eru? Er ekki sjúklingurinn þegar kominn í hjólastól og eigendaskipti hans eina von um að ganga á eigin fótum á ný?

Maður spyr sig.

Páll Ásgeir (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 13:37

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Bloggararnir verða að taka að sér hlutverk fjölmðla.  Aðhald o.s.frv.

En mér dettur nú í hug er ég sé að Árvakur er að segja upp fólki... að eins og með mbl.is að það er auðvelt að fækka blaðamönnum.  Afhverju ?  Jú vegna þess að fjöldi manna er í blaðamannastarfi fyrir þá... ókeypis !  (sem sagt bloggararnir)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.11.2008 kl. 15:39

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það verður fróðlegt að fá að að vita hvað hátt hlutfall í þessum uppsögnum eru blaðamenn. Blaðamennska var annars í skötulíki hjá mbl. Þar voru ungmenni í copy paste fréttaflutningi svona rétt eins og Stefán kollegi okkar Friðrik. Mest af erlendum fréttum voru hráþýðingar upp úr conservatívri mediu.  Rannsóknarblaðamennska varla til að kalla. Aðallega voru kynferðisafbrotamál ofarlega þar af því að það seldi, eins og einn blaðasnápur sagði.

Jæja. En ég vona að þessar uppsagnir séu ekki yfirvarp til að gera skoðanahreinsun á fjölmiðlinum og skerpa flokkslínur hans á ný. Það kæmi mér persónulega ekkert á óvart.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 15:49

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp um fjölmiðla, sem maður vonar að snúist um fleira en það eina sem nefnt hefur verið; að RÚV dragi úr ásókn sinni á auglýsingamarkaðnum.

Menntamálaráðherra; ég býð mig hér með fram til setu í starfshópnum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.11.2008 kl. 18:21

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Blaðamannafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp í fjölmiðlum sem birtist í fjöldauppsögnum og lokun fjölmiðla. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn félagsins sendi frá sér fyrir stundu.

Félagið fagnar því að menntamálaráðherra ætli að skipa starfshóp til að koma með tillögur til úrbóta. Félagið telur augljóst að skoða þurfi sérstaklega stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Félagið segir að samkeppnisstaða fjölmiðla hafi verið erfið vegna sterkrar stöðu Ríkisútvarpsins sem hafi haft sig mikið í frammi á auglýsingamarkaði auk þess að hafa lögboðin afnotagjöld. Í því árferði sem sé núna sé hætta á því að slík staða geti orðið til þess að einkareknir fjölmiðlar leggist af. Það séu umbrotatímar og þá sé aðhald fjölmiðla og lýðræðisleg umræða nauðsynleg. Það sé ljóst að einn sterkur fjölmiðill dugi ekki til, það þurfi fleiri raddir til að endurspegla samfélagið
.

http://visir.is/article/20081101/FRETTIR01/366368408/-1

Menn sem muna söguna rétt vita að þeir sem mótmæla því hvað mest að dregið sé úr vægi RÚV á auglýsingamarkaði eru AUGLÝSENDUR. Rétt að halda því til haga.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.11.2008 kl. 19:49

6 identicon

Gekk fundurinn útá "sérstaka stöðu RUV á auglýsingamarkaði" og "samkeppnisstöðu fjölmiðla"

Ég hélt að hlutverk "fjórða valdsins" væri "gagnrýni og aðhald" blaða og fréttamanna á málefnum líðandi stundar og þá sérstaklega á gerðum og ákvörðunum stjórnvalda.

Eru fréttamenn þrælar eigenda fjölmiðilsins sem þeir vinna hjá?? Nú á tímum reynir verulega á að þið vinnið ykkar störf af heiðarleika og fagmennsku.

sigurvin (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband