Finnst Svartliðum sigurinn vondur?

Gasmökkinn lagði yfir Austurvöll.Ég hefði haldið að samþykktin hjá Samfylkingarfélaginu (sem studd er af stjórn Kópavogsfélagsins og fleiri S-félögum) með þeim augljósu breytingum sem í henni felast hefði róað mannskapinn nægilega til að leyfa gleðinni að taka völdin. En ég er hræddur um að róttækustu svartliðarnir hafi aðra stefnu en massinn og hafi þegar allt kemur til alls ekki svo mikinn áhuga á lýðræðislegum lausnum.

Það er náttúrulega ekki glóra í þessu. Hvers vegna magnast mótmæli þegar rosalegur áfangasigur vinnst? Þegar tekist hefur svo gott sem borðleggjandi að koma núverandi ríkisstjórn frá og meira og minna búið að ganga frá því að gengið verði til kosninga eftir lýðræðislegan undirbúningstíma - af hverju æsast hinir æstu um allan helming? Hvers konar eiginlega sigra þarf til að bros og léttir haldi aftur af ofbeldi?
mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

getur verið að það sé nefnileg engin lýðræðisást. hjá flestum byltingarsinnum í gegnum söguna fólst lýðræðið í því að gefa þeim völd.

Fannar frá Rifi, 22.1.2009 kl. 01:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta kallast útrás...

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2009 kl. 01:31

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Langmesti hluti hinna reiðu mótmælenda heldur sér innan siðferðilegra marka og langflestir lögreglumennirnir gera það líka. Fólk sem skilur, vill og boðar lýðræðislegar lausnir. Ekki Anarkisma og ofbeldi.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 01:32

4 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Takk fyrir þessa færslu Friðrik, eins og töluð út úr mínu hjarta.

Kristlaug M Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 01:35

5 Smámynd: Terkjavafla

Það er ekkert meira og minna búið að ganga frá neinu. Það er ekkert búið að ske enn.

Ég veit ekki afhverju þetta skeði í kvöld, slæmt ástand.

Þeir sem voru þarna segja sig saklausa alla mála..

Terkjavafla, 22.1.2009 kl. 01:45

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Gæti þetta verið spurning um hið margumtalaða "traust" ?

"Jæja, þá er þetta búið. (Er stjórnin annars farin frá ?  Nei, hélt ekki).  Allir stilltir heim að sofa.  Nú erum við í góðum málum..."

Hverjir eru svo aðal "stjórnleysingjar" Íslands þessa dagana ?  Fólkið fyrir UTAN Alþingishúsið ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 01:49

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nafnlausa verkjatafla; það er víst búið að ganga frá ýmsu. Ríkisstjórnin er að fara frá. Starfsstjórn er að taka við. Kosningar eru boðaðar. Ekkert af þessu er hægt að taka aftur. Ekki þarftu vottorð? Og hvað ætlar þú að gera við slíkt vottorð? Kveikja í því og troða því ofan í næsta lögregluþjón? Bara af því?

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 01:49

8 identicon

Því miður Friðrik, þá hafa þessir ,,anarkistar'' náð athygli fjölmiðlanna og espast upp við það. Þau heilbrigðu og eðlilegu mótmæli sem við höfum upplifað fram að þessu hverfa og missa marks þegar stjónlaus lýður sem virðist ekki hafa neitt annað fram að færa en eyðileggingu og ,,kaos'' hefur tekið völdin af Herði Torfasyni og Co.

Svona lagað þarf að stoppa! Ákveðnir fulltrúar fjölmiðla hafa kynt undir þessari heimsku og ber þar fyrstan að nefna Sigmund Erni í pistli sínum í dag þegar hann segir að byltingin sé hafin og Alþingi muni brenna! Hver er ábyrgð þessara manna? Lögreglan er að sinna sínu starfi á kostnað okkar skattgreiðenda, eigur okkar er skemmdar og stjórnlaus (hugsunarlaus) skríll veður uppi. Á sama tíma eru þingmenn VG (Álfheiður Inga og vafalaust fleiri) ,,peppandi'' þessa fáráðlynga. Síðan ætlast þau til að þjóðin treysti þeim til verka við uppbyggingu landsins! Nei takk! Hvað hafði Steingrímur J fram að færa í Kastljósi í kvöld? Ekkert! Það er bara reynt að spila á ,,populisma'' og komast til valda, sama hvað það kostar! Þessir bjálfar eru ekki fulltrúar þjóðarinnar og verða aldrei!

Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 01:50

9 identicon

Upplýsingaflæðið var vandamál í dag og í kvöld, það voru nokkrir sem tóku að sér að reyna að láta ýmis boð út ganga en það gengur hægt og illa í svona hávaða og æsingi. Margir vissu ekki hvað var í gangi inni í Þjóðleikhúsinu, bara að "einhverjir þingmenn" væru þar, svo kom yfirlýsing um stjórnarslit og allt varð bandbrjálað, ég stóð við hliðina á Degi B. og félögum þegar verið var að lýsa þessu yfir og þeir voru hylltir sem hetjur.

Hver man ekki hvísli-leikinn þar sem maður hvíslar orð að næsta manni og svo koll af kolli þangað til eitthvað bull kemur út. Á endanum hélt fólk að ríkisstjórnin væri fallin, eins og gerðist reyndar fyrr í dag líka. Þegar ljóst varð að svo var ekki braust aftur út mikil reiði, sérstaklega meðal svartliðana sem þú nefnir sem notuðu tækifærið til að minna á sinn boðskap: "Engin breyting án byltingar!" sem þeir kölluðu í gríð og erg um leið og þeir hvöttu fólk til að fara á Austurvöll. Þar fór sem fór.

gaursemvaranna (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 01:51

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hildur Helga; ekkert af því sem samþykkt var í kvöld verður tekið aftur. Stjórnin er fallin. Ný stjórn mun taka við. Kosningar verða í bráð. Það er ekki hægt að plata fólk. grasrótin í Samfylkingunni (félögin í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og víðar) láta enga ráðherra snúa sér. Því treysti ég. Svartliðar ekki.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 01:52

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

gaursemvaranna; næsta stóra verkefni, fyrir utan hið augljósa, er að fylgja sigrinum eftir með sigurgöngu en ekki ofbeldi.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 01:54

12 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Ég fór í bæinn eftir SFFR fundinn í kvöld svona til að kíkja á stemninguna.fékk mér bjór á Englis pub.þar sem ég stóð þar fyrir utan að fá mér rettu þá sá ég unga svartklædda stúlku henda grjóti í rúðuna á ÁTVR búðinni en henni tókst ekki að brjóta í gegn stuttu síðar komu tveir svartklæddir strákar og hentu líka grjóti í sömu rúðu og mölvuðu hana.

þetta hafði ekkert með mótmæli að gera þar sem mótmælin voru við þinghúsið heldur voru þetta hrein og klár skemmdarverk.Ég ákvað að koma mér heim því mér fannst það sem ég horfði uppá þarna ekki vera það sem ég get skrifað uppá. þ.e. skrílslæti, fimm mínútum seinna beitti lögregla táragasi.

og svo er fólk hissa á aðgerðum lögreglu!

Tjörvi Dýrfjörð, 22.1.2009 kl. 01:57

13 identicon

Svo skil ég ekki þegar fólk sem vill láta taka sig alvarlega lætur móðan mása á bloggsíðum án þess að koma fram undir nafni! Svipað og skríllinn sem hylur andlit sitt, þora ekki að koma fram í sviðsljósið! Aumkunnarvert!

Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 02:00

14 Smámynd: Gunnar

Ég var þarna og af hálfu mótmælenda var ekkert ofbeldi fyrr en eftir að þeir sprengdu gasið. Vissulega voru einn og einn að atast í löggunni en það var bara í formi þess að ýta á skildina þeirra og einstaka sinnum að kalla þá illum nöfnum.

Ef þeir vildu losna við þetta bögg (sem ég myndi alveg skilja) þá áttu þeir að mazea viðkomandi og taka einstaklinga úr umferð en ekki gasa hundruðir friðsamra mótmælenda sem voru að tromma og syngja.

Algjörlega tilefnislaus árás með baneitruðu gasi. Ég forðaði mér eftir að þeir héldu áfram að sprengja táragas aftur og aftur og aftur. Hátt í 20 bombur sprengdar fyrir kl. 1.

Þetta er auðvitað ekki ákvörðun einstakra lögreglumanna sem flestir standa sig eins og hetjur við mjög erfiðar aðstæður. Þetta er stjórnvaldsákvörðun um að sýna hver ræður. Ruddaleg aðferð og baneitruð til þess að dreifa mannfjöldanum.

Gunnar, 22.1.2009 kl. 02:04

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Lýsandi fyrir stefnu Svartliðanna, Tjörvi; tilgangslaust ofbeldi. Gjörsamlega glórulaust. Hina eiginlegu byltingu framkvæmdu friðsamir mótmælendur og óbreyttir félagar í Samfylkingunni í Reykjavík - ekki Svartliðar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 02:04

16 Smámynd: Gunnar

Og já, eftir að þeir gösuðu ÞÁ kom ofbeldi frá mótmælendum. Skrítið.

Gunnar, 22.1.2009 kl. 02:05

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gunnar; vangavelta mín hér snýst um það, hvers vegna sigurinn (Þjóðleikhúskjallarinn; stjórnarslit, ný stjórn, kosningar) hafi ekki brotist út í friðsamlegum fagnaðarlátum í stað þess að halda á Austurvöll að "bögga" löggur.

Löggurnar hafa iðulega brugðist hart við vegna aðgerða sumra, en ekki fjöldans.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 02:07

18 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Vissulega kallar það ástand, sem við lifum við þessa dagana, á öfgar í allar áttir.  Er við öðru að búast ?

Það er hins vegar þvílíkt búið að fótum troða traust almennings á stjórnvöldum -og dekurpakkinu, sem þau hafa haldið uppi- að jafnvel ekki samþykkt Rvíkurdeildar Samfó í Þjóðleikhúskjallaranum sendir alla sæla heim á svæfilinn klst. síðar.  Skrýtið...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 02:08

19 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hvað með að fara á næsta bar að fagna og brjóta þar engar rúður, Hildur Helga?

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 02:09

20 identicon

Ég tek undir það sem Gunnar segir, og vill bæta því við að ég kæmi glaður fram undir nafni á blogginu ef ég teldi ekki sterkar líkur á því að fá uppsagnarbréf samdægurs.

Friðrik Þór: ert þú virkilega að segja að þú teljir að þessi stjórnaða geðbilun fyrir utan þjóðleikhúsið hafi ekki haft áhrif á fundargesti sem komu út öskrandi sömu slagorð og þau höfðu heyrt inn um veggi og glugga, klappandi okkur lof í lófa og steitandi hnefa á lofti í samstöðu? Er þú að segja að fólkið sem kom út og tók við pottum og pönnum og kallaði "Áfram Ísland" með okkur hafi verið einhverskonar sjónhverfing?

gaursemvaranna (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 02:11

21 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

gaursemvaranna; ég skil ekki spurningu þína. Ég skil ekki hvaða skoðun þú ert að reyna að koma á mig. Hljómar ekki eins og neitt sem ég hef sagt allavega. Kannski þú umorðir þetta? Ég reyndar að fara að láta gott heita í dag, en skoða hvort ég skil þig betur á morgun.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 02:15

22 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Kannski eiga þau bara ekki aur.! En eiginlega skil ég ekki hvað gerðist þegar ég fór heim uppúr ellefu var ekkert nema gleði og dans. En í svona stórum hópi berast upplýsingarnar ekkert alltof vel- ég var búin að fá tvennskonar upplýsingar og þær miður góðar áðuren ég hitti rúvara og komst að hinu sanna.

En í svona ástandi ætti pinsípið að vera að trúa mótmælendum þar til annað sannast. Á DV er lýsing á atburðunum og hallar þar mjög á lögreglu. 

María Kristjánsdóttir, 22.1.2009 kl. 02:16

23 identicon

Afsakaðu, þetta er búinn að vera langur og strangur dagur, ég er að vitna í eftirfarandi:

"Lýsandi fyrir stefnu Svartliðanna, Tjörvi; tilgangslaust ofbeldi. Gjörsamlega glórulaust. Hina eiginlegu byltingu framkvæmdu friðsamir mótmælendur og óbreyttir félagar í Samfylkingunni í Reykjavík - ekki Svartliðar."

 Ég er þessu fullkomlega sammála efnislega séð en finnst þú samt gera lítið úr tengingu sjálfra mótmælanna við það sem SF RVK gerði, kannski misskildi ég þig af því að þú varst að tala um Svartliðana frekar en okkur hin. Ég biðsf afsökunar ef svo er, hef alltaf haft mikið álit á þér sem blaðamanni, álitsgjafa og bloggara.

Með kveðju.

 gaursemvildigetagetiðnafns

gaursemvaranna (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 02:19

24 identicon

OK, ég er greinilega með ógreinda með dyslexíu eða eitthvað, ég bara sá ekki "friðsamir mótmælendur" í þessari setningu fyrr en ég las hana núna aftur, ég biðst innilegrar velvirðingar.

gaursemvaranna (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 02:20

25 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Ég er á því að Halelújakórinn og Hörður Torfason hafi tafið fyrir falli stjórnarinnar, það fór ekkert að gerast fyrr en mótmælendur tóku til sinna ráða. Það er fólk úr öllum stéttum sem tekur þátt í ólátunum, ekki bara svokallaðir svartliðar.

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 22.1.2009 kl. 02:26

26 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

visir.is:

"Samkvæmt upplýsingum Fréttastofu eru nokkrir mótmælendur nú farnir að stilla sér upp fyrir framan lögreglu til að varna því að aðrir mótmælendur kasti grjóti í lögregluna".

Góða nótt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 02:51

27 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég var á fundinum í kvöld þegar unglingar komu þar inn og ætluðu að koma í veg fyrir hann. Veit ekki hvers vegna, vegna þess að ég taldi hann einmitt áfanga að því sem mótmælin hafa stefnt að, koma á breytingum, stuðla að nýjum kosningum. Eftir smá stund fóru flestir unglingarnir, hinir sem eftir voru ákváðu að hlusta. eftir fundinn þá stóð ég fyrir neðan tröppurnar þegar Ásgeir las upp ályktun fundarins. Ég var einmitt spurð af ungum mótmælendum hvað þetta þýddi, væri ríkisstjórnin fallin? Nei ekki enn - en afleiðingin verður fall hennar sagði ég. Það gerist næstu daga úr þessu sagði ég. Það var hátíðarstemming fyrir utan og flestir fögnuðu saman. Nú veit ég ekki hvernig einhverjum gat dottið í hug að Samfylkingarfélag Reykjavíkur gæti eitt og sér slitið stjórnarsamstarfinu en það er ljóst að þetta var með fjölmennari fundum, þarna voru þingmenn að hlusta. Þetta var baklandið þeirra og þeir fengu mjög skýr skilaboð. Skilaboð sem þeir geta ekki horft framhjá.  

Hinn almenni samfylkingarfélagi vill út úr þessu bandalagi dáðaleysis.

Kristín Dýrfjörð, 22.1.2009 kl. 03:04

28 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bendi á lýsingu Heiðu hér. Hún kallar fólkið "mótmælendasníkjudýr" og segir atganginn ekkert eiga skylt við mótmæli eða mótmælendur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.1.2009 kl. 03:08

29 identicon

Kristín: Þú svarar eigin spurningu. Við fórum þarna inn til að ná eyra ykkar og stóðum fyrir utan í sama tilgangi (margir reyndar háaldraðir, hehe, ekki eigna krökkunum þetta einum þó þeir hafi verið síðastir til að fara). Tilgangnum virðist hafa verið náð.

Málið er að margir fyrir utan höfðu ekki hugmynd um hver var fyrir innan, við reyndum að miðla upplýsingum eins og hægt var en margir vissu ekki hverjir voru að funda eða hvers vegna. Fólk vissi bar að þarna var samfylkingarfólk sem þurfti að gefa út afgerandi yfirlýsingu um að þessu stjórnarrugli væri lokið. Það kom, þó ekki hafi verið um að ræða þann hóp áhrifamanna innan SF sem margir héldu.

gaursemvaranna (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 03:35

30 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég var þarna og sá ekkert ofbeldi fyrr en eftir táragasið. Mótmælin voru ekki friðsöm en þau voru alls ekki ofbeldisfull og þeir 5 lögreglumenn sem stóðu fyrir framan glerhurðirnar voru í rólegheitum að spjalla við fáeina mótmælendur meðan flestir mótmælendur voru við bálið. Eftir táragasárásina varð eitthvað um steinkast en alls ekkert stórfellt og hver sá sem telur að um stjórnlausan hóp anarkista hafi verið að ræða ætti að röllta um bæinn og sjá að það er varla brotin rúða í bænum. Látum ekki stjórnleysi nokkurra einstaklinga í báðum herbúðum skyggja á að þarna voru þúsundir manneskja sem voru fullir af gleði og von um að betra samfélag væri mögulegt. Hver sem telur að þessi mótmæli séu byggð á reiði og hatri hafa hvorki kynnst hatri né reiði. Þessi mótmæli byggðust í kringum vonina um breytingar. Heima sitja vonlausir Íslendingar og örvænta en við Austurvöll lifði vonin. Vonin um betra land er það sem mun reisa landið úr öskunni. Best væri ef við getum komið á friðsamlegum valdaskiftum en valdaskifti munu eiga sér stað. 

 Áfram Ísland!

Héðinn Björnsson, 22.1.2009 kl. 03:46

31 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Þeir anarkistar sem ég sá koma inn á fundinn með pottlok og dúka fyrir andlitum voru ungt fólk. Og í upphafi fundarins gaf hegðun þeirra ekki tilefni til að ætla að þeir vildu að við töluðum saman. En eftir smá stund breyttist það, þeir föttuðu hvað við vorum að gera. Fyrir utan var fólk á öllum aldri, ég sá og heilsaði fólki sem hefur mótmælt áratugum saman sem og öðrum. Ég hélt reyndar að fundurinn hafi verið afar vel auglýstur og um hann fjallað í fjölmiðlum svo ekki veit ég hvað misskilningur var í gangi. Ég stóð með öðrum mótmælendum á Austurvelli í gær og í gærkvöldi. Þar var fólk á öllum aldri, í gærdag fannst mér reyndar áberandi eldra fólk framan við þinghúsið. Þar sá ég líka margt Samfylkingarfólk. Ég held að við höfum ansi mörg viljað gefa forystunni okkar ákveðið svigrúm í haust, en nú er hinsvegar það svigrúm búið og því miður virðast þau ekki hafa nýtt það sem skildi.

Annars bloggaði ég svo um mína upplifun af fundinum á eigin bloggi.   

Kristín Dýrfjörð, 22.1.2009 kl. 04:14

32 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Ég held að það þurfi bara að flýta setningu næstu annar í MH, þannig að stærstur hluti af þessu liði komist aftur í einhverja fasta rútínu.

Í stað þess að ráfa um með skemmdarverkum, eins og enginn sé morgundagurinn.

Ingólfur Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 04:46

33 identicon

Sæll Friðrik.

Nú er komið fram á Bjargbrún og ....................................................?

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 04:48

34 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það eru nú óvart tveir flokkar í núverandi -já ennþá- ríkisstjórn.  Það að annar þeirra hafi nú loksins séð ljósið og vilji -hugsanlega- reyna að yfirgefa hið sökkvandi skip, ætti ekki að verða æstum fylgismönnum tilefni til persónulegra svívirðinga í garð þeirra, sem þurfa dulítið lengri tíma en nokkrar klukkustundir til að byggja upp glatað traust.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 05:08

35 Smámynd: Júlíus Valsson

Friðrik. Gott inlegg hjá þér.

Júlíus Valsson, 22.1.2009 kl. 08:00

36 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Góð færsla Friðrik.

Eysteinn Þór Kristinsson, 22.1.2009 kl. 08:13

37 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég var á mótmælunum kvöldið 21. janúar og þar var tómur fögnuður. Það var eiginlega hátíðarstemming, fólk að reyna að gera eitthvað í málunum. Þetta var líka eins og eins konar sefjunar- og dáleiðsluástand - þegar mannfjöldi er í marga tíma búinn að efla sig til átaka þá brjótast átök út.

Það hefur verið sleginn nýr strengur í mótmælum á Íslandi síðustu daga. Það er ekki ástæða til að ætla annað en að það haldi áfram.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.1.2009 kl. 08:44

38 Smámynd: Pétur Henry Petersen

bara smá komment, var á fundi samfylkingarinnar og ef einhver einfeldningur heldur að grímuklætt fólk sem öskrar slagorð hafi áhrif á félagsmenn samfylkingarinnar, þá hefur hann rangt fyrir sér. Því var það enginn sigur að troða sér inn á félagsfund samfylkingarinnar og hafði engar afleiðingar.  Almennir félagsmenn í samfylkingunni er bara búnir að fá nóg. Þetta var því þeirra áfangasigur, engra annarra.

Pétur Henry Petersen, 22.1.2009 kl. 09:27

39 identicon

Svartliðarnir hafa ekkert verið að mótmæla til að fá fram breytingar á ríkisstjórn. Þeir vildu bara fá útrás fyrir löngun sína til að ráðast gegn stjórnvöldum. Þess vegna lækkaði ekkert í þeim rostinn við niðurstöður fundar samfylkingarinnar heldur vildu þeir þvert á móti fá að njóta síðusta möguleikann á að fá frekari útrás áður en hegðun þeirra verður aftur tabú. Ef hinir viti bornu mótmælendur hafa trúað því að þetta fólk sé á sömu línu og þeir vita þeir nú hið sanna. Svartliðarnir eru stjórnleysingjar sem eru fullir af reiði sem hefur safnast upp í þeim, þeir hefðu mætt í hvaða mótmæli sem er til að fá útrás fyrir hvatir sínar.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:24

40 Smámynd: Sigurður Rúnarsson

Myndband hér af þeim sem rak okkur og einum Samfylkingarmanni að rífast við tvo mótmælendur.

http://www.metacafe.com/watch/2328521//

S.

Sigurður Rúnarsson, 22.1.2009 kl. 10:58

41 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Í gærkvöldi komu óbreyttir félagsmenn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík saman til að krefjast stjórnarslita og kosninga og samþykktu það samhljóða. Þeir sem halda að ríkisstjórnin sé ekki á útleið þar með eru á villigötum. Ráðherrar og þingflokkur Samfylkingarinnar hreinlega geta ekki hunsað þessa einróma samþykkt og ákveða að sitja áfram. Það er beinlínis barnaskapur að halda það.

Ég sá myndbandið Sigurður R. Beck. Það er ekki mjög lýsandi. Nema fyrir það, að róttækustu mótmælendurnir virðast ekki hafa skynjað hvað væri að fara að gerast þarna (og kannski sá sem gargaðist á við ljóshærðu dömuna ekki heldur!?). Þarna var bylting að gera sitt besta til að eyðileggja hluta byltingarinnar. Er það ekki nokkuð ljóst? Ef tekist hefði að eyðileggja fundinn hefði engin einróma ályktun komið um stjórnarslit og kosningar þessa lykilfélags í stjórnarsamstarfinu.

Áður en ég fór að sofa setti ég þetta hér inn:

"Samkvæmt upplýsingum Fréttastofu eru nokkrir mótmælendur nú farnir að stilla sér upp fyrir framan lögreglu til að varna því að aðrir mótmælendur kasti grjóti í lögregluna".

Það kann vel að vera að lögreglan hafi enn brugðist of hart við og að ofbeldi af hálfu mótmælenda hafi ekki byrjað fyrr en eftir táragas. En það er gjörsamlega sýnilegt að hinn breiði fjöldi mótmælenda er ekki hlynntur ofurviðbrögðum Svartliða, eins og að henda grjóti og gangstéttarhellum í lögregluþjóna. Og ekki er með nokkrum hætti hægt að skilja tilgang þess, sem Tjörvi Dýrfjörð lýsir að ofan, að fara um og brjóta t.d. rúður hjá ÁTVR. Þar er hreinræktuð eyðileggingarþörf á ferð. Ofbeldi ofbeldisins vegna. Stefnu- og tilgangslaust.

Þetta er kannski það sem ég óttast mest; að Svartliðar gangi fram af okkur hinum, þessu venjulega hávaðasama en friðsama fólki sem mótmælir (með árangri) - og þá snýr hið sama fólk baki í samherjana svörtu og bregst til varnar lögreglumönnunum.

Ég er ekki að segja að einn fundur hjá Samfylkingunni þýði að leggja eigi mótmælin af, síður en svo, það er sjálfsagt að fylgja þeim eftir þangað til punkturinn er komið yfir i-ið. En ef það stendur til að slasa lögregluþjóna þá tek ég mér stöðu með þeim. Enda skil ég ekki hvers vegna svo illa er brugðist við stórfenglegum (áfanga)sigri. Kannski er ég bara tregur...

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 11:28

42 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Og Atli Gíslason, þingmaður VG, er sýnilega mjög tregur líka:

"Atli Gíslason þingmaður VG sagði í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun að háttsemi mótmælenda sem köstuðu grjóthellum í lögregluþjóna í nótt, málningu að Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu og reyndu íkveikju ætti að sæta refsingu. Hann kvaðst telja að lögreglan hefði vitneskju um hvaða einstaklingar ættu hlut að máli.

„Auðvitað á þessi háttsemi að sæta refsingu“, sagði þingmaðurinn þegar stjórnandi þáttarins spurðu um viðbrögð hans við mótmælunum sem fóru úr böndunum í nótt".

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 11:30

43 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hörður Torfason:

„Það þarf alltaf einhver að taka af skarið og það virðist beinast að mér, og það er bara allt í lagi. Ég lá aðeins yfir þessu í morgun og ég held að það sé langbest að hvetja fólk, sem kemur niður á Austurvöll, að sameinast um það þegar það sér einhvern kasta grjóti eða fara yfir strikið, að umkringja þann einstakling og reyna að tala hann til vinsamlega. Ekki með neinu offorsi, heldur sýna að þetta er ekki það sem við viljum.“ mbl.is

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 11:39

44 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

mbl.is:

"Á netinu hafa verið birtar myndir af lögreglumönnum, nöfn þeirra og heimilisföng, ásamt korti sem sýnir leið að heimili viðkomandi. Jafnframt er hvatt til þess að farið sé heim til viðkomandi að næturlagi og honum gert ónæði".

Missa stjórn á sér? Augnabliks-æði?

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 12:23

45 identicon

Þakka þér fyrir að standa í lappirnar Friðrik. Mörgum finnst svo auðvelt að láta berast með straumnum og láta sér í léttu rúmi liggja hvert hann ber þá.

Þetta síaukna ofbeldi ber að fordæma, enda leiðir það aðeins til sífellt meiri vandræða. Friðsömum mótmælaaðgerðum þarf að halda áfram þar til búið er að skipta um valdhafa og silkihúfur í fjármála- og eftirlitsstofnunum.

Losum okkur við óeirðaseggi og ofbeldismenn! Þeir hafa engan málstað að verja.

Benedikt (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 12:59

46 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Þetta er súrrealísk staða, en þú mælir rétt.

Það var gaman að vera við Þjóðleikhúsið í gærkvöldi, fólk mætti verulega pirrað yfir því að Fýlu-Geir hafði sagt að ekki yrði kosið, en allt fór vel fram, engin skemmdarverk, ekkert ofbeldi. Lögreglan hélt sig álengdar og fékk frið fyrir vikið, og enginn reyndi að misnota þá stöðu. Og sigurinn var sætur. En nokkrum ofbeldisseggjum tókst að eyðileggja allt er komið var aftur á Austurvöll...sorglegur endir á góðum degi.

En sorglegast er að sjá að ríkisstjórnin misnotar lögregluna, í hugleysi sínu stilla þau lögreglunni upp sem andliti spillingarinnar, og gera lögregluna að holdgervingi svikamyllunnar sem við vorum plötuð í.....og að sjá að fólk er ekki að fatta það.

Það eru vissulega svartir sauðir inn á milli, hjá lögreglu eins og annarsstaðar, og þess hafa verið nokkur dæmi undanfarið, en þeir sem stilla þeim upp eru þeir sem bera ábyrgðina, ekki hinn almenni lögreglumaður.

Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 13:43

47 Smámynd: Zaraþústra

Sem sagt anarkismi getur ekki verið lýðræðislegur?  Gott að þið hafið fundið ykkur blóraböggul, ég er búinn að vera leita af einum slíkum.  Andskotans anarkistar maður!

Zaraþústra, 22.1.2009 kl. 16:40

48 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Stjórnin að segja af sér og boða til kosninga og málið er dautt!.

Við viljum ekki ofbeldi!

Rut Sumarliðadóttir, 22.1.2009 kl. 19:06

49 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Um helgar eru mörg þúsund manns sem sækja kaffihús og vínveitingastaði og rölta um miðbæinn. Alltaf einhverjir sem fara um með ofbeldi. Engum dettur í hug að leggja næturlífið niður af þeim sökum.

Varast ber að fagna of snemma. Þingmenn Samfylkingarinnar eru á því að réttast væri að kjósa í vor. Samt styðja þeir ríkisstjórnina núna. Ingibjörg Sólrún sagði í fréttum í kvöld að "líklegt yrði kosið á árinu".

Er þessi yfirlýsing nóg til þess að hætta friðsælum mótmælum?

Sigurður Haukur Gíslason, 22.1.2009 kl. 21:39

50 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nei, Sigurður Haukur; ekki að hætta friðsömum mótmælum. Þótt ég sé hér að tala um tiltekinn áfangasigur þá getur þú mætavel lesið út úr mínu bloggi hér almennt (fjölmörgum færslum og kommentum) að ég styð heilshugar áframhaldandi mótmæli og þau mega endilegahreint vera hávaðasöm og stöðug. Ég mæli á engan hátt með því að slík mótmæli stöðvist og raunar hefur mér litist vel á flest það sem gert hefur verið og einkum frá 21. janúar við þingsetninguna. Ég er og var fyrst og fremst að frábiðja mér ofbeldi og eyðileggingu. Af hverra hálfu sem er (í lögreglunni eru líka misjafnlega stilltir einstaklingar).

Í kvöld urðum við vitni að merkum tímamótum í mótmælunum. Órans lituðu borðarnir stukku fram og fer auðvitað ekki á milli mála hvaða skilaboð er verið að senda.

Nú á skömmum tíma höfum við séð grasrót tveggja flokka vinna vinnuna sína í aðgerðastíl, ef svo má segja. Tala má þar um hallarbyltingar. Það hafa orðið eftirminnileg umskipti hjá Framsókn, í forystu og í fylgi. Og svæðafélög Samfylkingarinnar hafa tekið til sinna ráða og ályktað með ótvíræðum hætti. Ekki má vanmeta slíkar hræringar og áhrifamátt þeirra. Byltingin er líka utan Austurvallar og Bloggheima.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 21:54

51 identicon

Það er ekki samasem merki á milli anarkisma og ofbeldis, þvert á móti gengur anarkismi út á það að fólki sé treystandi til að skapa samfélag sem byggir á friði og jafnrétti, án þess að það sé kúgað til hlýðni af valdhöfum. Eins er ekki samasem merki á milli anarkisma og frjálshyggju, flestir anarkistar nútímans (a.m.k annars staðar en á Íslandi) beina aðgerðum sínum fremur gegn stórfyrirtækjum en gegn stjórnvöldum, enda eru þar hin raunverulegu völd að finna. Að vísu er, eðli málsins samkvæmt, svolítið erfitt að skilgreina nákvæmlega hugmyndafræði anarkisma, þar sem hann er ekki miðstýrð hugmyndafræði, og því ýmsar stefnur sem þrífast innan hans. Ein hugmynd innan anarkisma er þó að dreifa valdi, þ.e ekki hafa eina ríkisstjórn heldur fleiri ráð eða nefndir sem stýra tilteknum málaflokkum, þar sem hlustað er á hinn almenna borgara.

Í fréttunum í kvöld kom fram að helstu óeirðarseggirnir í nótt hafi verið góðkunningjar lögreglunnar. Ofbeldismenn mættu því á mótmæli til að spilla þeim fyrir sjálfum sér og öðrum. Það að fólk setji upp grímu og haldi jafnvel á svörtum fána þýðir ekki sjálfkrafa að það hafi kynnt sér málstað anarkisma. Beiti anarkisti ofbeldi er hann að skjóta sjálfan sig í fótinn því um leið er hann að sanna að fólki sé ekki treystandi til að stjórna sér sjálft.

Helga (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 22:10

52 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Sporin hræða Friðrik. Fyrir jól lak það út að ráðherraskipti yrðu um áramót. Ekkert var af því. Svo lak það út að skiptin yrðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Geir sagði svo í viðtali við moggann sl. sunnudag að það væri misskilningur. Engar breytingar yrður á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins í tengslum við landsfundinn. Með þessu er verið að draga okkur á asnaeyrum og þeir kaupa sér tíma í leiðinni.

Það er ekki nóg að þingmenn Samfylkingarinnar gefi það út að "réttast" væri að kjósa í vor en styðja svo ríkisstjórnina. Stefna ríkisstjórnarinnar er að hún sé best til þess fallin að koma landinu út úr efnahagsvandanum.

Ef þingmönnum er alvara þá eiga þeir að bera upp vantrausttillögu á ríkisstjórnina strax í fyrramálið. Ef ekki þá þarf ég að fá mér hjólböru undir asnaeyrun mín, þau eru orðin svo löng.

Sigurður Haukur Gíslason, 22.1.2009 kl. 22:12

53 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það var talað um ráðherraskipti alveg frá byrjun ríkisstjórnarinnar og raunar eru ráðherraskipti orðin býsna "reglulegur" hlutur í stjórnarsamstarfi. Þótt slík áform hafi gufað upp á dögunum varðar meiru hvort stjórnin lifir.

Ég er ósammála, Sigurður, um vantraust strax á morgun, þótt ég skilji inntakið. Verður ekki fyrst að láta reyna á friðsamlega myndun nýrrar stjórnar, en að efna til kringumstæðna þar sem gallhart rifrildi fer fram -myndi VG kannski hlífa Samfylkingunni til að ýta undir vinstri stjórn? Er þá ekki betra að vinda sér í stjórnarskipti án þess að þvinga flokka til harðrar sóknar og harðrar varnar?

Hún ristir kannski dýpra en maður hélt, tillitsemin hjá grasrót Samfylkingarinnar við ISG og veikindaforföll hennar og kannski að mörgu leyti hægagangur við að taka hart á henni og forystunni - svo einhverjum dögum muni. Ég held ekki að nokkrum manni innan Samfylkingarinnar telji annað en eftirsjá af henni, verði hún að draga sig í hlé eða einfaldlega stíga pólitískt til hliðar ef hún vill fyrir alvöru starfa með Sjálfstæðisflokknum og engum öðrum. Ég held að við núverandi aðstæður myndi vantrauststillaga frekar þjappa forystu Samfylkingarinnar saman á annan hátt en ég vil sjá.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 22:54

54 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Ingibjörg er mikilsverður leiðtogi en það er misskilin góðmennska að setja það álag á hana sem þessi pattstaða er. Hún á ekki að þurfa að leysa hana í sínu veikindaleyfi í útlöndum.

En gott og vel, við bíðum einn dag enn og svo annan. Fyrr en varir verður komið vor, 2.200 milljarða skuldin orðin 4.400 milljarðar, atvinnuleysi 20% og Davíð enn í Seðlabankanum.

Sigurður Haukur Gíslason, 22.1.2009 kl. 23:11

55 Smámynd: Zaraþústra

Anarkismi er ekki stjórnleysi, þú ert að rugla saman anarcy og anarchism Einar.  Þegar menn skrifa anarkismi (sérstaklega með stóru A) þá hljóta þeir að eiga við ákveðið samfélagsskipulag sem menn aðhyllast en ekki stjórnleysi.  Úr orðum manna á þessu bloggi má ráða að anarkistar séu ólýðræðislegir ofbeldisseggir, sem ég er einfaldlega að hæðast að.  En þetta er svo sem enginn nýlunda, það er afskaplega auðvelt að kenna anarkistum um.

Zaraþústra, 22.1.2009 kl. 23:49

56 identicon

Ágætisfundur í Kjallaranum í gær hjá okkur Samfylkingarmönnum.  Niðurstaðan  afdráttarlaus. 

En enn eru þingmenn okkar að væbblast og gera ekki neitt bíðandi eftir Ingibjörgu.  Allir spyrjandi hvað segir hún o.s.f.  Manneskjan er veik hví fer hún ekki í veikindafrí og lætur stjórnina í heldur annarra löglega kjörina manna í Samfykinguni.  Ég bara spyr ?   Þora þeir ekki að taka við stjórninni  ?  Er Samfylkingin komin í sömu hnapphelduna og Sjálfstæðirflokkurinn með Davíð  ?  Ef skipulagið er koma okkur upp Davíðslíki þá erum við sjálfdauð sem hreyfing.  Menn verða að muna að maður kemur í mans stað.  Nóg er af duglegu fólki.

Áfram Ísland.

Rúnar Vernharðsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 00:01

57 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég nennti ekki að lesa þetta allt .. en er það ekki komið fram ?

Þetta voru ekki mótmælendur heldur góðkunningjar lögreglunnar.sem höfðu sig frammi þarna á Austurvelli og vel flestir þekktir af lögreglunni.  

þannig að þetta lið hefur verið á örvandi efnum þegar þetta gerðist og ættu flestir sem við það efni kannast ... að vita við slíka menn er ekki ræðandi , sér í lagi ef þeir eru búnir að vera á marga daga keyrslu.

Ég mótmæli því að þeir skuli vera titlaðir sem mótmælendur.... Þetta eru slagsmálabullur.  



Brynjar Jóhannsson, 23.1.2009 kl. 06:35

58 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sama komment og við "Svartir Baugsliðar":

Hvað Anarkisma og Anarkista varðar er ég mjög feginn að það fór eins og ég vonaði. Hófsamir og "normal" Anarkistar hafa hópast inn á síðustu færslur mínar til að sverja af sér ofbeldið og hafna ábyrgð á því sem nú er helst kennt við "góðkunningja lögreglunnar". Og hinir svartklæddu nú að keppast við að setja á sig Órans borða. Þetta er gott. Línur eru skýrari og það vildi ég sjá. Ég þakka (að ætla má skipulegar) heimsóknir A-istanna til mín og höfnun þeirra á ofbeldi og eyðileggingu. Það vildi ég heyra. Og því trúi ég. En A-istar verða þá að átta sig á því að óprúttið lið er að klæðast "múnderingu" A-ista og ekki að undra þótt ég og fleiri dragi tilteknar ályktanir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 11:54

59 identicon

"Ég hefði haldið að samþykktin hjá Samfylkingarfélaginu"

Samfylking-liðið hefur nákvæmlega ekkert sýnt eða hvað þá gagnrýnt þessa Ríkisstjórn fram til þessa, og þetta lið hefur sungið sama lélega lagið og þessi Ríkisstórn. Þessi samþykkt ein og sér er ekki nægilega góð það þarf meira til, eins og þið vitið 

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband