Breiðavík IV: Umræðu um skýrsluna sem víðast

Það er vel til fundið hjá Degi B. Eggertssyni að biðja um umræður um Breiðavíkurskýrsluna. Hún er einfaldlega þess eðlis að hana þarf að ræða sem víðast og að sem flestir dragi af henni lærdóm. meðal annars með því að gaumgæfa barnaverndarúrræði dagsins í dag í ljósi þessarar skýrslu. En borgin getur þó verið stolt af einu.

Árin 1970-1971 hætti Barnaverndarnefnd Reykjavíkur að mestu að senda drengi á vistheimilið að Breiðavík. Ekki hefur með formlegum hætti verið greint frá því hvers vegna þessi ákvörðun var tekin, nema með óljósum tilvísunum um breytta stefnu í félagsmálum. En það ku vera hálfsannleikur. Á umræðufundi í Háskólabíói í kjölfar sýningar heimildamyndarinnar Syndir feðranna beindi ég einmitt þeirri spurningu að Kristjáni Sigurðssyni, sem á ofangreindum tíma var forstjóri Unglingaheimilis ríkisins í Kópavogi, hvers vegna Reykvíkingar hefðu hætt að senda drengi vestur. Kristján sagði beinum orðum að það hefði verið vegna þess að Sigurður Sigurðarson, síðar vígslubiskup, koma að máli við hann og viðhafði slíkar frásagnir að menn tóku fyrir það að senda fleiri drengi vestur. Þetta hefur að öðru leyti ekki verið gert opinbert og væri fengur í því að Sigurður greindi nánar frá þessu og skora ég hér með á hann og Kristján að segja þessa sögu alla. Sigurður hafði verið afleysingamaður fyrir vestan á sumrin rá 1966 og kynntist vafalaust málefnum Þórhalls Hálfdánarsonar þokkalega.

Annað vil ég nefna. Fram kemur í skýrslunni og frá hefur verið sagt í útvarpsfréttum RÚV að þegar Þórhallur þessi kom til starfa fyrir vestan hafi verulega dregið úr ofbeldi eldri drengja gagnvart yngri drengjum, þótt ofbeldi starfsmanna (Þórhalls) hafi aukist margfaldlega. Páll Rúnar Elísson hefur staðfest þetta með sínum hætti í bók sinni Breiðavíkurdrengur; að ofbeldi Þórhalls hafi tekið við af ofbeldi stóru strákanna (en hann bætti við þeirri hrikalegu niðurstöðu, Páll, að hann vissi ekki enn hvort hafi verið verra). En hér verður að hafa eina mikilvæga breytu í huga. Þegar Þórhallur tók við af forvera sínum ákvað stjórn vistheimilisins að gera hinum nýja forstöðumanni léttara um vik að venjast starfinu og drengjum var fækkað verulega. Stærsta breytingin fólst í því að einmitt stóru drengirnir, gerendurnir, voru sendir heim. Svörtu sauðirnir fóru burt og því dró að vonum úr ofbeldi þeirra á staðnum! Þannig að ef einhver er að telja þessari breytingu Þórhalli til tekna þá er vissara að hafa þetta atriði í huga.

Mér finnst rétt, svona í leiðinni, að gefa annars hart að sóttum manni smá kredit. Sálfræðingurinn Símon Jóh. Ágústsson hefur fengið á sig töluverðan brotsjó eftir að mál þessi komu upp. Hann á vafalaust skilið ádrepu, en mér finnst rétt að menn hafi til hliðsjónar að ár eftir ár sendi hann menntamálaráðuneytinu skýrslur um gang mála að Breiðavík. Honum tókst að sönnu ekki, að því er virðist, að koma auga á það sem drengirnir máttu þola. En ár eftir ár benti hann meðal annars á að aldursbil drengjanna væri of mikið og að þarna ættu kynþroska drengir ekki að vera með sér yngri drengjum. Og ár eftir ár eftir ár áréttaði hann og ítrekaði nauðsyn þess að málum drengjanna yrði fylgt eftir að dvölinni vestra lokinni - annars færi "meðferðin" fyrir bý. Ekkert slíkt gerðist og einna helst að sjá að skýrslur sálfræðingsins hafi allar farið að mestu ólesnar í skúffu innan menntamálaráðuneytisins. Það er erfið tilhugsun, því lengst af var menntamálaráðherra hinn annars virti og vammlausi Gylfi Þ. Gíslason. Mér finnst að afkomendur Gylfa þurfi að knýja á um skýringar á því hvers vegna þetta gerðist, með von um að þær lúti að öðru en því að Gylfa hafi verið slétt sama um hvað af drengjunum vestra yrði.


mbl.is Breiðavíkurskýrslan verði rædd í borgarráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar pælingar um annars erfitt mál.

Valsól (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband