Breiðavík III: Fjölmiðlaumfjöllunin verðlaunuð

Ég fagna því að Kastljós og DV deili með sér verðlaunum fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins (2007) vegna umfjöllunar þessara fjölmiðla um Breiðavíkurmálin. Hvað sem samkeppni annars líður þá stóðu þessir fjölmiðlar báðir sig vel í vandasömu máli, hver með sínum hætti og bættu hvor annan upp.

Fjölmiðlaumfjöllun um Breiðavíkurdrengina opnaði upp á gátt barnaverndarmál fortíðarinnar og framkallaði umhugsun um barnaverndarmál nútímans. Það er því miður ekki liðin tíð að illa sé farið með börn og unglinga. Þegar hópur miðaldra karlmanna steig fram umfjöllunarinnar vegna og beraði sálir sínar frammi fyrir alþjóð gerðist eitthvað sem líkja má við efnahvörf. Þjóðin fékk kalda gusu í andlitið en stendur þroskaðri á eftir. Ný skýrsla Breiðavíkurnefndarinnar staðfestir síðan að frásagnir "drengjanna" voru ekki bull og ímyndun; þeir sögðu okkur sannleikann eins vel og hægt var að muna hann. Skýrslan eykur og vægi hinnar frábæru heimildarmyndar, Syndir feðranna.

Jafnframt eru kveðnar í kútinn máttlitlar tilraunir stöku fyrrum starfsmanna vistheimilisins að fegra ímyndina. Meira að segja var dreginn fram einn alversti gerandinn á meðal "stóru strákanna" til vitnis um að allt hefði verið í himnalagi.

Ég óska Sigmari, Þóru og DV-fólki innilega til hamingju. Jafnframt öðrum verðlaunahöfum BÍ. 


mbl.is Kristján Már hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband