Bréfritarinn Davíð

Davíð Oddsson.Þann 3. júní 1999 birtist í Degi opnufréttaskýringu mín um, þá landsfrægar orðnar, bréfaskriftir Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Nú hefur enn eitt bréfið bæst í hópinn og kannski eru þau miklu fleiri. Ég var að rifja upp þessa næstum 10 ára gamla grein mína (sem þá var vegna stutts en mergjaðs bréfs til biskups Íslands) og langar til að endurbirta hana hér.


 "Bréfið sem Davíð Oddsson skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, vakti mikla athygli og umræðu um stjórnunarstíl forsætisráðherra. Nú hefur Erni Bárði verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en þar á forsætisráðherra sæti.

 Harka í framgöngu við þá sem Davíð Oddssyni mislíkar við af einhverjum ástæðum þykir hafa einkennt stjórnunarstíl hans allt frá því hann tók við borginni í upphafi níunda áratugarins. Má ef til vill segja að fyrsta opinbera vísbendingin hafi komið árið 1982 þegar Davíð  sagði upp ræstingarkonu úr starfi fyrir að hafa hringt til útlanda úr einkasíma á skrifstofu borgarstjórans. Á borgarstjórarárunum hvessti líka milli hans og Guðrúnar Pétursdóttur og fleiri andstæðinga ráðhúsbyggingarinnar. Frá þessum árum má einnig nefna þau viðbrögð borgarstjórans  að taka heitt og kalt vatn, rafmagn, slökkvilið og sorphirðu af Kópavogskaupstað, þegar vinstri meirihlutinn þar  ákvað árið 1989 að segja upp samningi um Fossvogsbrautina. Þetta kallaði Jónas Kristjánsson ritstjóri "ofbeldishneigðan" stjórnunarstíl.

 Smásagan dýra

 Nýjasta tilefni umræðna um stjórnunarstíl Davíðs er bréfið sem hann skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, en hún var birt í Lesbók Morgunblaðsins. Erni Bárði hefur verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en í nefndinni á sæti forsætisráðherra sæti. Sú skýring hefur verið gefin  af Karli Sigurbjörnssyni biskupi að ástæða þessarar mannaskiptingar sé sú að "á biskupsstofu er kominn maður til starfa sem hefur umsjón með öllu sem viðkemur kristnihátíðinni," en þar á biskup við séra Bernharð Guðmundsson.

 Flestir viðmælenda blaðsins draga í efa að þetta sé allur sannleikur málsins og vísa til bréfsins sem Davíð sendi biskupi vegna fyrrnefndrar smásögu. Davíð fannst að sér vegið með sögunni og myndskreytingu hennar (sagan var lítt dulbúin gagnrýni á auðlindasölu og/eða á gagnagrunnsmál Íslenskrar erfðagreiningar) og skrifaði biskupi Íslands svohljóðandi bréf, undir bréfshaus forsætisráðuneytisins:

 "Það er athyglisvert að í kynningu á "smásögu" þar sem forsætisráðherranum er lýst sem landráðamanni (manni sem selur fjallkonuna) og landsölumanni er gefið til kynna að sendingin sé á vegum fræðslustarfs kirkjunnar. Davíð Oddsson."

 Biskup lýsti vanþóknun sinni á myndskreytingunni með smásögu Arnar Bárðar, en sagði söguna skondna og að hann gæti ekki borið ábyrgð á tómstundagamni samstarfsmanns síns. Í viðtali við fjölmiðla hefur biskup ekki viljað segja nánar frá samtölum sínum við forsætisráðherra um þetta mál.

 Óvænt og á óvart

 Örn Bárður Jónsson gaf ekki færi á sér við smíði þessarar greinar, en orðalagið sem haft er eftir honum í DV bendir til að brotthvarf hans sem ritari Kristnihátíðarnefndar hafi komið honum mjög á óvart. Hann segir: "Ég get staðfest að biskupinn tilkynnti mér á fimmtudaginn að ég væri ekki lengur ritari Kristnihátíðarnefndar en því starfi hef ég gegnt undanfarin ár."

 Orðalagið bendir til þess að tilkynning biskups hafi verið án fyrirvara og því komið Erni Bárði á óvart. Um leið liggur fyrir að Bernharður er ekki nýr í þeim verkefnum sem hann nú sinnir og því rökréttara að þessi breyting hefði komið löngu fyrr en nú, ef hún stóð til á annað borð.

 Karl biskup lýsir því yfir í DV að Erni hafi ekki verið vikið úr þessu starfi, heldur hafi hann vikið fyrir Bernharði á eðlilegan hátt. Séra Geir Waage er á sama máli. "Ég tek fullt mark á þeim orðum biskups að með þessu hafi hann verið að skapa séra Bernharði verkefni. Þetta er augljóst og ég sé engin tengsli milli þessarar breytingar og þessa smásögumáls," segir séra Geir. Örn Bárður hefur sjálfur ekki viljað tjá sig um mál þetta.

 Bréfið til Sverris

 Davíð hefur áður stundað gagnrýnar bréfaskriftir með góðum árangri. Á síðasta ári var gert opinbert bréf sem hann ritaði Sverri Hermannssyni þáverandi Landsbankastjóra í febrúar 1996, eftir að Sverrir hafði hafnað vaxtalækkunarboðskap ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar og sagt að það væri eins og að "éta óðs manns skít" að fylgja fordæmi Íslandsbanka í þeim efnum.

 Þá skrifaði forsætisráðherra Sverri Hermannssyni bréf, sem hljóðar svo: "Sverrir. Mér finnst þú fara offari. Ég gæti belgt mig út og sagt að þessir snillingar í Landsbankanum hafi tapað 11 þúsund milljónum á síðustu árum og þyrftu því að vaxtapína landið. Þeir tækju ekki eftir því þegar strákur á þeirra snærum týndi fyrir þeim 900 milljónum!! ­ og viðskiptavinum væri vafningalaust sendur reikningur. Þetta mun ég ekki segja, en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr."

 Strax daginn eftir að þetta bréf var sent lækkaði Landsbanki Íslands vexti sína. Aðspurður um þetta bréf segir Sverrir Hermannsson nú að hann hafi satt að segja orðið hissa þegar hann fékk bréfið. "En ég er hættur að vera hissa fyrir nokkru. Þetta bréf mun hafa verið skrifað í fljótræði og í bræðikasti, en annars hef ég ekki leitað eftir skýringu," segir Sverrir. Aðspurður hvort Davíð hafi ekki orðið ofan á í málinu viðurkennir Sverrir að svo hafi verið. "Það var hart tekist á um vaxtamál og félagar mínir beygðu," segir Sverrir.

 "Ansi tippilsinna"

 En hvað sýnist Sverri þá um bréfið til biskups og brotthvarf Arnar Bárðar frá Kristnihátíðarnefnd? "Ef þetta er vegna skrifa hans í grínstíl í Lesbók Morgunblaðsins eru menn orðnir ansi tippilsinna og orðið nokkuð vandlifað í henni veröldinni," segir Sverrir, sem um leið upplýsir blaðamanninn að tippilsinna þýði ofurviðkvæmur.

 Fræg er bréfasending Davíðs til Heimis Steinssonar þáverandi útvarpsstjóra, en Davíð sendi útvarpsstjóra hvasst bréf í apríl 1993 þegar Heimir hafði framið þann verknað að reka Hrafn sem dagskrárstjóra frá RÚV. Sjálfstæðismenn brugðust hart við og voru ekki lengi að láta Ólaf G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, ganga í að ráða Hrafn sem framkvæmdastjóra RÚV.

 Heimir sagðist hafa metið "þetta bréf mikils" og þótt "vænt um að Davíð Oddsson skyldi segja mér hvað honum lá á hjarta vegna þessa máls. Bréfið, sem var skrifað eftir að umrætt mál var um garð gengið, var hins vegar einkabréf og sent mér sem trúnaðarmál, svo ég mun ekki gefa upp efni þess," sagði Heimir á sínum tíma. Ekki þarf að orðlengja það hvors vilji varð ofan á, forsætisráðherrans eða útvarpsstjórans.

 "Glæpur minn..."

 Davíð var ekki löngu síðar sagður hafa komið að málum þegar Arthúr Björgvin Bollason var rekinn úr starfi skipulags-  og dagskrárráðgjafa útvarpsstjóra hjá RÚV fyrir að skrifa forystu bændasamtakanna og lýsa þar yfir að þorri starfsmanna RÚV skammaðist sín fyrir þætti Baldurs Hermannssonar (Í hlekkjum hugarfarsins) um m.a. bændur. Þá sagði Arthúr: "Heimir er skapmaður og hann setti ofan í við mig, en nefndi ekki uppsögn fyrr en á fundi okkar í gær, þegar hann hafði sjálfur verið kallaður á fund Davíðs Oddssonar. Það kom fram hjá útvarpsstjóra að brottrekstrarsökin var að í bréfinu talaði ég um valdníðslu menntamálaráðherra. Glæpur minn var sá að styggja þá sem ekki má styggja." Samkvæmt þessari frásögn skipaði Davíð útvarpsstjóra að reka Arthúr.  Og Arthúr  var látinn fara.

 Enn er óupptalið bréf sem Davíð sendi til að snupra embættismanninn Þórð Ólafsson, þáverandi forstöðumann Bankaeftirlitsins, árið 1993, þegar ríkisstjórnin sleit skyndilega þingfundi og ákvað að setja háar fjárhæðir  í að styrkja Landsbankann. Þetta var gert í án þess að beðið væri eftir niðurstöðum sérstakrar nefndar sem þó var sett á laggirnar til að fjalla um málefni Landsbankans.

 Þórður lýsti því efnislega yfir í Tímanum og DV að þessar aðgerðir væru illa ígrundaðar, klastur og vitleysa. Davíð varð ofsareiður og sendi Þórði bréf eftir að hafa skammað hann í síma. Þórður neitaði að draga gagnrýni sína efnislega til baka, en viðurkenndi að orðalag hefði verið heldur hvatskeytislegt hjá sér. Þórður er nú kominn í stjórnunarstöðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann vildi alls ekki tjá sig um mál þetta í samtali við Dag.

 Snemma á forsætisráðherraferli Davíðs, eða sumarið 1991, skammaði hann einnig opinberlega Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar. Guðmundur hafði gerst sekur um að tala óvarlega í morgunþætti útvarps um afskipti stjórnmálamanna af byggðamálefnum, eftir að Ríkisendurskoðun hafði gefið út skýrslu um stöðu Byggðastofnunar. Davíð brást hart við í fjölmiðlum, en eftir að Guðmundur hafði viðurkennt á sig "misráðið orðalag" og beðið Davíð formlega afsökunar féll málið niður og Guðmundur hélt stól sínum.

 Harðara yfirbragð

 Sagt er að Davíð ráði því sem hann vill í forystu Sjálfstæðisflokksins. Það var þó ekki alltaf þannig. Þegar Davíð hafði velt Þorsteini Pálssyni úr formannsstól (með 53% atkvæða gegn 47%), leitt flokkinn til sigurs í þingkosningum 1991 og myndað ríkisstjórn á fjórum dögum, fékk hann ekki alveg öllu ráðið í þingflokknum. Þá vildi Davíð til dæmis fá Björn Bjarnason, sem formann utanríkismálanefndar, en í atkvæðagreiðslu tók þingflokkurinn völdin af honum og Eyjólfur Konráð Jónsson var valinn með 15 atkvæðum gegn 11. "Þetta kemur hægt og rólega. Við erum að vinna í þingflokknum," var haft eftir "Davíðsmanni" þegar þetta hafði gerst. Og sú vinna bar skjótt árangur í þægari þingflokki.

 Reyndar má segja að spá Þorsteins Pálssonar frá þessum tíma hafi ræst. Eftir að hann féll fyrir Davíð í formannskjörinu sagði Þorsteinn opinberlega "að vinnubrögð í kringum framboð Davíðs" væru þess eðlis að niðurstaða formannskjörs hlyti að túlkast sem ósk landsfundarins "um harðara yfirbragð á Sjálfstæðisflokknum en áður"."

 


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Líklega er það rétt sem ég heyrði í morgun að Do og Jón St

hafi verið að spila á netinu í nótt. Sennnilega hefur bréfið þar orðið til

Manni í Hlíð (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 19:58

2 Smámynd: Tiger

Leyfi mér líka að setja tengil til þín á blogginu mínu. Finnst að þetta megi alveg fara um víðan völl..

Tiger, 8.2.2009 kl. 20:08

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er opinber bloggsíða og greinin í Degi opinbert skjal...

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.2.2009 kl. 20:18

4 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Frábært hjá þér að koma með svona dæmi!

Sérstaklega núna þegar Sjálfstæðismenn væla um valdníðslu og einelti á sinn mann!

Góð vinnubrögð Friðrik!!

Konráð Ragnarsson, 8.2.2009 kl. 20:19

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Davíð er snillingur og þið eruð bara örg yfir því að eiga ekki svona mann í ykkar flokkum

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2009 kl. 20:43

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég á ekki orð, og þó er ég orðinn jafn skemmdur og Sverrir á sínum tíma. Bendi á athugasemd Hjartar við þessa færslu: http://umbiroy.blog.is/blog/umbiroy/entry/798019/#comments

Villi Asgeirsson, 8.2.2009 kl. 20:46

7 Smámynd: Heidi Strand

Góð samantekt Friðrik.

Nú fer allt í bál og brann aftur.


Heidi Strand, 8.2.2009 kl. 20:59

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ef ég væri í flokki myndi ég vilja einhvers konar DO með mér. En ég er sammála þér að maðurinn er snillingur. Hann hefur bara ákveðið að nota snilligáfuna með neikvæðum hætti. Þannig snillingar eru hættulegri en allir meðalmenn.

Villi Asgeirsson, 8.2.2009 kl. 21:03

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Stjórnendur Moggabloggsins báðu mig um að fjarlægja komment hér frá "Kikku", þar sem komu fram fullyrðingar um geðheilbrigði DO. Ég ákvað að verða við því, enda fer ég sjálfur fram á háttvísi.

Gunnar: "Svona mann"... góður.

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.2.2009 kl. 21:25

10 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Mér finnst merkilegt að moggabloggsmenn hafi tíma til að lesa allar athugasemdir og gera athugasemdir. 

Mér finnst líka merkilegt að flestir sem ég sé verja Davíð og þeir eru allnokkrir eru að verja stjórnmálamanninn Davíð ekki embættismanninn Davíð. Kannski þeir hafi ekki frekar en hann áttað sig á mismuninum.

Kristín Dýrfjörð, 8.2.2009 kl. 22:13

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta var nú dálítið þörf og tímabær athugasemd hjá þér Kristín. En um smásöguna hans sr. Arnar Bárðar þá var full þörf að rifja upp þá valdníðslu og minna á hvernig þetta óhuggulega heilkenni hefur þróast til þess ástands sem birtist okkur í dag.

En nú kemur í ljós hvort stjórnvöld okkar í dag standa jafn bernsk og vanburða gegn þessum merkilega starfsmanni þjóðarinnar eins og fyrr?

Árni Gunnarsson, 8.2.2009 kl. 23:13

12 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Hmmm... athugasemdin hér var nú á kurteisu nótunum. Það var athugasemdin á mínu eigin bloggi sem ekki þótti nógu málefnaleg og var fjarlægð.  Stóð ekki til að koma þér í nokkurn vanda Friðrik

Kristlaug M Sigurðardóttir, 8.2.2009 kl. 23:46

13 identicon

Flott hjá þér að rifja þetta upp.  Er embættismaðurinn ekki alltaf pólítíkusinn innst inni, eða öfugt.

Kidda (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 23:46

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Góð upprifjun. takk fyrir þetta

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.2.2009 kl. 23:49

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nei, Kristlaug (Kikka), ég var líka beðinn um að fjarlægja kommentið þitt hér og ákvað að gera það. Ekki til að forðast vanda per se, heldur háttvísinnar vegna - mér finnst óþarfi að fullyrða (á mínu bloggi) að DO sé haldinn tilgreindum sjúkdómi. Ég hef áður beðið fólk að forðast slíkt, enda vel hægt að fjalla um manninn án þess viðhafa (þó ekki óleyfilega endilega) gildisdóma sem kunna að vera meiðandi. Þér er í lófa lagið að segja það sem þú sagðir á annan hátt. Getur verið að þú hafir fjarlægt þína færslu í staðinn fyrir að breyta henni?

Friðrik Þór Guðmundsson, 8.2.2009 kl. 23:55

16 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Já ég fjarlægði bara færsluna, nennti ekki að fara að rífast við mbl.is um orðafar og þar að auki get ég strangt til tekið verið sammála því að ég rauf skilmála, í hita leiksins, sem ég skrifaði undir þegar ég stofnaði bloggið. Ég hélt að ég hefði bara sett á þina síðu að ég vildi tengja úttektina hér fyrir ofan , sem mér finnst afa góð, við mína síðu, en ekki rætt um mína skoðun á meintu heilsufari DO.  Kæri mig heldur ekki um að vera með dónaskap á annarra manna síðum og biðst hér með afsökunar á því. Langar samt að svara Kristínu, það er kvartað yfir færslu og þá er hún lesin... ekki þannig að allt sé lesið, að minnsta kosti var búin að haka við að það væri búið að rjúfa á tengingu við frétt vegna kvartana á mínu bloggi.

Kristlaug M Sigurðardóttir, 9.2.2009 kl. 00:07

17 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Þörf upprifjun og nauðslynlegt að halda þessu til haga í samfélagi sem virðist oft hafa gullfiskaminni. Valdníðslan sem kemur fram í þessum málum er ekki hugguleg - það eru margar sögur á sveimi um hvernig þessi stjórnmálamaður hagar sér en þessi dæmi eru þó uppi á borðinu.

Halldóra Halldórsdóttir, 9.2.2009 kl. 00:39

18 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Iss ég vissi það Kikka, fannst hitt bara hljóma betur, lið að lesa á mogganum, svona eins og maðurinn bak við tjöldin hjá spaugstofunni. En svo er spurning hvar liggur kvarðinn, þú mast það sem svo að þú hafir farið á eða yfir strikið. En ef þú hefðir ekki verið sammála þeim dómi hvað þá. Er hægt að skjóta máli sínu til einhvers á mogganum? Bara forvitni í mér.

EN ÉG SÉ að MOGGINN ER líka búinn að rjúfa við þessa færslu hans Lilló og finnst það afar áhugavert, var það vegna fleiri þátta en orða Kikku að það var gert?

Kristín Dýrfjörð, 9.2.2009 kl. 00:51

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Voðalega finnst mér það skrítið að tengingin við færsluna skuli rofin við þessa færslu. Hvað er í gangi eiginlega? 

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2009 kl. 01:04

20 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Ja, vonadi svarar Mogginn því. Það er eins og það hafi verið kvartað yfir hans færslu líka. En varla hefur það verið gert vegna minnar færslu hér, hún var fjarlægð um leið og um það var beðið og því engin ástæða til að rjúfa færsluna þess vegna

Kristlaug M Sigurðardóttir, 9.2.2009 kl. 01:11

21 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Gunnar, mér finnst það líka skrítið, í ljósi þess að ég fjarlægði góðfúslega kommentið sem kvartað var yfir - enda boða ég háttvísi.

Ég hef sent Árna Matthíassyni fyrirspurn um þetta, en heldur seint og fæ vonandi svar á morgun. Ég get ekki séð að neitt í minni færslu sé viðkvæmt. bara gamalt sagnfræðilegt stöff. Get ómögulega skilið að nokkur hafi kvartað yfir því og ekki hef ég fengið meldingu um það.

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 01:15

22 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er verðmæt og mikilvæg samantekt frá forsætisráðherratíð Davíðs Oddsonar. - En örugglega ekki tæmandi, en varpar skýru ljósi úr fortíðinni á það við hvað er að eiga hér. - Verður ekki þjóðin að fara að horfast í augu við það? - og þá aðdáendaklúbburinn líka?

Helgi Jóhann Hauksson, 9.2.2009 kl. 02:00

24 Smámynd: Villi Asgeirsson

Fyrst vil ég leiðrétta eitt. Ég vildi segja EKKI vildi ég mann eins og DO með mér. Eitt orð getur breytt öllu. Svo finnst mér það óforskammanlegt að rjúfa tenginguna eftir að bloggari hefur orðið við beiðni blog.is. Eigum við ekki bara öll að skrifa færslu þar sem þetta er tekið fyrir?

Villi Asgeirsson, 9.2.2009 kl. 08:27

25 Smámynd: Hlédís

Undirrituð verðu enn meir hugsi um biskupinn "okkar" við lestur pistilsins. Margur veit sjálfsagt að sá sem sem Karl Sigurbjörnsson skaut svona snarlega inn í stað Arnar B. Jónssonar sem ritara Kristnihátíðarnefndar 1999. er mágur biskups. Bernaharður sá er hinn prýðilegasti maður, en....

Var farin að ígrunda að hverju biskup þiggur yfirleitt margföld mánaðarlaun venjulegra Íslendinga úr vasa skattgreiðenda fyrir að predika yfir þeim auðmýkt og nægjusemi, -  En þetta kastar tólfum. Basta!

Hlédís, 9.2.2009 kl. 10:52

26 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sé að það er búið að tengja færsluna aftur við fréttina, gott mál.

Kristín Dýrfjörð, 9.2.2009 kl. 12:32

27 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góður pistill Friðrik.

Ég var að blogga um þetta rétt áðan og tengdi á þessa færslu þína.

 Bestu kveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.2.2009 kl. 12:33

28 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Moggabloggs-stjórnendur kipptu þessu snarlega og góðfúslega í liðinn með tenginguna við fréttina. Þetta snérist ekki um færsluna sjálfa heldur kommentið hennar Kikku.

Mogginn sýnir það í leiðara í dag að hann er í engri fyrirvaralausri varðstöðu um DO.

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 12:53

29 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þessa nauðsynlegu upprifjun.

Það minnir mig á við hvað er að eiga.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.2.2009 kl. 13:41

30 identicon

Vilja menn þá meina að fyrrum skrif Davíðs hafi þótt og þykja til fyrirmyndar og þá til eftirbreytni fyrir Jóhönnu?

joð (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 16:26

31 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heill og sæll Friðrik Þór!

Ég legg ekki í vana minn að eyða mörgum orðum á þann er hér er til umfjöllunar, finnst hann einfaldlega ekki þess virði og það eiginlega bara tímaeðsla, en geri smá undantekningu hér og þá bara til viðbótar þinni upprifjun.

Á þessum tíma þegar Dagur, tíminn og Alþýðublaðið höfðu runnið saman í eitt, fyrst sem Dagur-Tíminn og svo aftur Dagur, starfaði ég fyrir blaðið hér nyrðra og man því vel þessa atburði og fleiri er þú rifjar hér upp. Raunar mætti svo bæta allavega tvennu við þessa samantekt ef ekki þrennu, sem mitt bærilega minni geymir.

Frægu símtali við Umboðsmann Alþingis vegmna mjög svo umdeildra skipana dómara í Hæstarétt.

Endalok Þjóðhagsstofnunar og togstreitu sem á undan hafði myndast hjá manni vegna vinnubragða þar og og orða forstjórans.

Og að lokum bréf, sem vissulega var ekki skrifað beint af manninum sjálfum, en var sannarlega á hans ábyrgð ekki síst, bréf forsætisnefndar alþingis með beinum tilmælum um "Rétta túlkun" á Öryrkjadómnum svonefnda!

Magnús Geir Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 16:38

32 Smámynd: Hlédís

joð ip-tala!  Skilaðu kveðju til hins nafnlausa fjölda sem ver nú FLOKKINN baki brotnu.  Ruddabréf Davíðs í gær er í stíl við gömlu bréfin hans - er hann var enn við völd. Ekki hafa sést slíkir taktar hjá núverandi forsætisráðherra, né mörgum ráðamönnum Íslands enn. Mætti þó líta á bréf Jónasar frá Hriflu í lok hans ferils sem sagnfróðir þekkja.

Hlédís, 9.2.2009 kl. 16:47

33 identicon

Hlédís G.  Ég tengist nákvæmlega ekkert flokknum frekar en nokkrum öðrum spillingargrenjum sem flokkarnir eru.  Ég kýs þá ekki meðan þeir eru byggðir upp eins og er.

 Ég spyr einfaldrar spurningar hvort að Davíð sé til fyrirmyndar í skrifum fyrir heilaga Jóhönnu?

 Vona að þetta flækir ekki of mikið þína flokkhollustu í þínum skrifum.

joð (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 17:00

34 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk fyrir þessa upprifjun, Magnús Geir. Bæta má við upprifjun Hallgríms Helga, sem segir frá því er hann var tekinn á "teppið" hjá DO og sá hafi hótað föður HH, opinberum starfsmanni, atvinnumissi...

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 17:01

35 Smámynd: Hlédís

joð ip !  Ég skal trúa því að þú tilheyrir ekki flokki - það hef ég heldur aldrei gert. Ég trúi hinsvegar ekki að þú þurfir svar við spurningunni sem hefur tvísett fram hér.

Hlédís, 9.2.2009 kl. 17:29

36 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ekkert að þakka, en sjálfsagt er ekki allt upptalið enn!?

Magnús Geir Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 20:16

37 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gleymdi að svara joð:

AÐ SJÁLFSÖGÐU eru bréfaskriftir DO engin fyrirmynd nokkrum manni. Spurningin er að nokkru leyti óskiljanleg, því bréf Jóhönnu er ekki á nokkurn hátt fruntalegt, fantalegt, dónalegt, geðvonskulegt og hótandi.

Eða sérðu í bréfi Jóhönnu eitthvað í líkingu við;

"... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr."

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 21:42

38 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

DO er eitthvað pínu eldri núna en hann var er hann sendi Sverrir bréfið, hann er orðinn slakari í dag heldur en hér áður, þó eðlið hans Davíðs Oddssonar hafi lítið breyst. 

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 10.2.2009 kl. 07:49

39 Smámynd: Hlédís

Guðbjörg Elín! Þú hefur etv tekið eftir hve það var  málfræðilega ruglað og stíllinn losaralegur. Var einhver að stinga upp framhaldi ritferils á efri árum?

Hlédís, 10.2.2009 kl. 08:03

40 identicon

Ætla að setja tengil á þessa grein,þarf ekki að segja neitt meir.

Kristján Blöndal (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 17:16

41 identicon

Eldri mönnum til upprifjunar gæti verið fróðlegt að rifja upp skrif notenda vefsetursins www.malefnin.com í nóvember-mánuði árið 2003

Gerið svo vel - hér er hlekkur á 7. síðu skrifa:

http://www.malefnin.com/ib/index.php?s=096ac2ccbf554c45d39ee05329918dc9&showtopic=2711&st=60&p=59295&#entry59295

Friðrik Hilmarsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 23:53

42 identicon

Nú get ég vel skilið í prinsippinu viðleitni moggamanna til að leyfa ekki rógburð um nafngreinda einstaklinga.

Hinsvegar þætti mér áhugavert að velta upp og ræða í prinsippinu hvert hlutverk fjölmiðla er, ef við gefum okkur ímyndað dæmi sem gæti t.d. verið svona:

Hátt settur embættismaður - við skulum dæmisins vegna segja að hann sé starfandi forsætisráðherra - gerir sig ítrekað sekan um hegðun sem ekki undir nokkrum kringumstæðum getur talist heilbrigð eða eðlileg, þótt hún brjóti ekki beinlínis í bága við lög. Dæmi um slíka hegðun gæti verið ofsafengin reiðiköst, aðsóknarkenndar fullyrðingar um að menn eða losaralega skilgreindir hópar úti í bæ vilji klekkja á sér, en við eftirgrennslan reynast hóparnir ekki til. Áberandi sveiflur í líkamsþyngd, lífsstíl eða þvíumlíku, jafnvel samfara ákveðinni félagslegri einangrun. Drottnunargirni, árásargirni eða eftirtektarvert athafnaleysi gæti líka verið dæmi.

Vinsamlega hafið í huga að hér er ég ekki að dylgja um nokkurn mann, þetta er eingöngu "Gedankeneksperiment", eða uppskáldað dæmi sem hægt er að nota til umræðu um ákveðna grundvallarhluti.

Einkennin (hver sem þau eru) eru vel sýnileg nánum samstarfsmönnum og valda verulegum og vaxandi erfiðleikum í nánasta umhverfi viðkomandi.

Eðli stjórnmálalegra átaka er þannig, að röklega er talsverð hætta á að innan valdabandalags sé hætt við því að samstarfsfólk sé meðvirkt og reyni að dylja vandann út á við (enda séu einkennin eins og áður sagði ekki þannig að þau leiðið til ítrekaðrar hegðunar sem varði augljóslega við lög).

En eðli mannlegra samskipta er þannig, að svona hlutir kvisast út með tímanum. Og ná á endanum eyrum fólks, sem starfar á fjölmiðlum.

Hvað á slíkt fólk að gera? Á það að þagga niður umræðuna, banna athugasemdir um hana á bloggum og annars staðar, eða á að spyrja viðkomandi og aðra er málið varðar, beint út í málið? Á að gera það fyrir opnum tjöldum? Eða undir fjögur augu?

Netverji (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 13:02

43 identicon

Það má kannski orða þetta svona:

Er það hlutverk fjölmiðla í þessu samhengi:

A) að segja "Hann er ekki í neinum fötum!!"

eða 

B) að þagga niður í þeim sem spyrja hvort keisarinn sé klæðalaus, og skamma þá fyrir dónaskap.

Þessi spurning er mikilvæg, því raunveruleikinn er sá að mörg mein sem hrjáð geta mannfólkið eru þess eðlis að þau er erfitt að greina, en á sama tíma geta þau haft óumdeilanleg áhrif á bæði starfsgetu, -hæfni og dómgreind.

Og það er hægt að taka þessa umræðu upp alveg hlutlaust, og án þess að verið sé að vísa í saklaust fólk úti í bæ.

Netverji (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband