Er ástæða til að halda sigurhátíð?

 Raddir fólksins stefna fólki á Austurvöll í dag, ekki fyrst og fremst til að mótmæla, eins og hingað til, heldur til að halda sigurhátíð. Er það tímabært? Hefur einhver sigur unnist? Svarið er bæði já og nei. Það vantar bara viðeigandi forskeyti á undan orðinu sigur. Það vantar t.d. forskeytið "áfanga-". Að öðru leyti er varla hægt að horfa framhjá stórfenglegum - áfangasigrum - fólksins.

Egill Helgason fjallar um þetta á Eyjubloggi sínu og segir: "Mér er alveg fyrirmunað að skilja hví Raddir fólksins boða til sigurhátíðar í dag. Lítið hefur gerst nema að ein ríkisstjórn er fallin. Önnur hefur ekki einu sinni tekið við. Nánast á hverjum degi berast fréttir af nýjum hneykslismálum í banka- og fjármálakerfinu. Maður sér ekki að sé mikið verið að taka á fjárglæframönnunum sem settu Ísland á hausinn. Atvinnuleysi eykst og kjörin versna. Er virkilega tilefni til að fagna sigri?"

Við Egil vil ég segja: Settu fyrrnefnt forskeyti á viðeigandi stað og þá getur þú fagnað eins og flestir aðrir. Fólkið er 5:0 yfir í hálfleik og spillingarliðið er nokkrum mönnum undir vegna rauðra spjalda. Réttnefndur sigur er í öruggu sjónmáli.

Er það ekki? Það Íslands- og jafnvel heimssögulega hefur gerst (miðað við langlundargerð Íslendinga) að fólk stormaði út á göturnar og flæmdi í burtu óvinsæla ríkisstjórn. Það er ekki lítil gjörð. Það stefnir í nýja ríkisstjórn sem endurspeglar mun betur (samkvæmt könnunum) vilja fólksins. Það er ekkert slor (þótt vissulega verði að líta á hana sem tímabundna starfsstjórn þar til annað kemur í ljós). Það er búið að bóka kosningar. Eins og fólkið vildi. Það er búið að bóka stjórnlagaþing, endurskoðun stjórnarskrárinnar, með í farteskinu að auka lýðræði og til að mynda auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er búið að stöðva aðhaldsleysis-nýfrjálshyggjuna. Eins og fólkið vildi. Það er búið að senda Sjálfstæðisflokkinn í frí eftir 18 ára stanslausa stjórnarsetu - eins og fólkið vildi. Það er búið að skipa sérstakan saksóknara og sérstaka rannsóknarnefnd (hvítbókarnefnd) til að fara í saumana á bankahruninu. Eins og fólkið vildi.

Vissulega mætti sumt vera fastara í hendi, eins og aðgerðir gegn "snillingunum" í bönkunum og eignarhaldsfélögunum, sem eru höfuðpaurar hrunsins. Eins mætti vilji fólksins hafa endurspeglast betur í myndun nýrrar breiðfylkingar um framboð. Eitt og annað mætti vera skýrara. En fólkið er búið að vinna svo margar orrustur og slík yfirburðastaða í stríðinu að "sigurhátíð" er í góðu lagi - meðan huglægt forskeyti er á réttum stað.

Að þessari sigurhátíð lokinni verður fólkið hins vegar að gera upp við sig hvað það vill gera næst. Mynda breiðfylkingu um framboð? Þá er nú aldeilis farið að liggja á. Það er verið að mynda nýja ríkisstjórn og í samkomulaginu verður kveðið á um kosningar, að líkindum í apríl.Viðkomandi "gömlu" flokkar virðast vilja hafa kosningarnar í fyrra fallinu. Það er slæmt að því leyti að þá gefst lítill tími til að undirbúa framboð; hjá öllum. Gömlu flokkarnir hlaupa út í uppstillingu í stað prófkjörs og það er ekki beint í anda virks lýðræðis. Ný framboð hafa skemmri tíma til að skipuleggja kosningastarfið - og munu líka eiga erfitt með að ástunda lýðræðislegt val á framboðslista. Það er ekki í anda þeirra lýðræðiskrafna sem uppi hafa verið. Væntanlega eiga Hörður Torfason og Gunnar Sigurðsson ekki að raða upp lista. Það væri ekki mikill sigur.


mbl.is Stjórnin mynduð á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fólk er eitthvað ruglað... sigur my ass, framsókn er með lífið okkar í lúkunum... með Birkir og nýja gamla formanninum.
Hvernig sem á þetta er horft þá er ekki neinn sigur í gangi... total FAIL

DoctorE (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 13:05

2 identicon

Ó já, innilega til hamingju með sigurinn!

1. Fólkið vildi nýtt fólk í brúnna, hvað fékk það? Jú helmingurinn er sama fólkið og var í síðustu ríkisstjórn, stutt sama fólki og var í þarsíðustu stjórn. Það sem meira er, báðir þessir flokkar hafa haft með viðskiptakerfi og bankakerfi landsins síðustu 18 ár og eiga allt í einu enga ábyrgð að bera. Til hamingju!

2. Fólkið vildi kosningar strax. Það hefur nú reynst þrautin þyngri að fá samkomulag um það. Til hamingju!

3, Fólkið vildi Seðlabankastjórnina og stjórana burt. Þeir sitja ennþá. Til hamingju!

Jú frábært að fagna meðan Róm brennur, nei afsakið Ísland brennur. Lengd samningaviðræðnanna gefur tóninn um það sem koma skal.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 13:19

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Friðrik Þór hafðu þökk fyrir þenna pistil.  Við höfum áorkað alveg ótrúlega miklu, ekki síst ef við skoðum stjórnmálasögu okkar.

 Ég held að flestir þeir þingflokkar sem eru á þingi í dag, átti sig á mætti fólksins, mætti hinna frjálsu fjölmiðla, netsins - en slík barátta hefði aldrei getað átt sér stað án tilvistar hinnar frjálsu netmiðla.

En kröfur og aðhald almennings/kjósenda er framtíðin.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 31.1.2009 kl. 13:22

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst að menn eigi að fara sér hægt í sigurvímu. Ég geri ekki lítið úr því sem áunnist hefur en sigur er ekki enn kominn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 15:47

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En vilji menn endilega fagna legg ég til að sunginn verði sálmurinn Sigurhátíð sæl og blíð, ljómar nú og gleði gefur. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 15:49

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Friðrik,

tek heils hugar undir með þér. Það á ekki að tala niður árangur fólksins í landinu. Þegar Hörður og Gunnar hófu sitt sitt starf í haust, hverjum hefði dottið í hug þessi niðurstaða. Síðan er gott að hugsa til þess að ef enginn hefði hreyft neinum mótmælum þá sæti ríkisstjórnin ennþá. Við eigum að klappa okkur hvort öðru á bakið og hrósa okkur. Aftur á móti þá vita allir að Róm var ekki byggð á einum degi.

Gunnar Skúli Ármannsson, 31.1.2009 kl. 21:45

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þAÐ VAR SVONA GRISKT "KARÞASUS" Á AUSTURVELLI Í DAG!...veit ekki hvort það sé tímabært eða viðeigandi, en það var svo sannarlega gott!...sérstakleg fyrir fólk sem hefur misst vinnu og fleira....söngur og m´tmæli, án ofbeldis og krafa fyrir réttælæti...

sem sagt =hreinn appelsínudjus

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 31.1.2009 kl. 23:44

8 identicon

... góð greining hjá þér Friðrik Þór. Egill Helgason veður áfram í sínum venjulega óupplýsta og ófaglega gír. Ef hann hefði gefið sér nokkrar mínútur til að lesa fréttatilkynningu Radda fólksins þá hefði hann (væntanlega) skilið að við vorum að fagna áfangasigri.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband