Vinstri stjórn eftir fall Berlínarmúrsins

Kannski væri best að þegja og sjá til hvað stjórnarsáttmálinn segir, áður en maður fullyrðir of mikið eða gefur sér of mikið fyrirfram. En kannski er í lagi að vera svolítið djarfur og segja hreint út: Að fá vinstri stjórn núna, sem leggur áherslu á hag alþýðunnar og vill hreinsa til í spillingarbælum, er ferskur andblær eftir of mörg ár af afskiptaleysis-frjálshyggju og stöðugt vaxandi stéttamun.

Þær hugmyndir sem maður hefur heyrt og lesið, um áherslur væntanlegrar vinstri stjórnar, hljóma vel og rétt að líta á þessar yfirlýsingar sem "kosningaloforð" komandi ríkisstjórnar. Almenningur og fjölmiðlar eiga að fylgjast með gjörðunum og haka við efndirnar. Og muna eftir þeim þegar að kosningum kemur.

Það blása núna ferskir vindar. Þjóðin greip í taumana. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde er fallin. Ráðherrar hafa loks axlað ábyrgð. Ræsting er hafin í Fjármálaeftirlitinu. Ræsting að hefjast í Seðlabankanum.Aðgerðir að hefjast sem miðast við hagsmuni fjöldans, ekki hinna útvöldu. Gott fordæmi á að setja með fækkun ráðherra (vonandi). Talað er um að fá inn í ríkisstjórn aðra en atvinnupólitíkusa (vonandi).

Mér finnst eiginlega eins og að Berlínarmúr hafi fallið. Við séum að losna undan þungbæru oki afskiptaleysis-frjálshyggju Davíðskunnar.


mbl.is Falið að mynda stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og íburtu með íhaldið

hjalli (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 13:32

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Er þetta ekki fullmikil bjartsýni, Friðrik ? Heldurðu virkilega, að ráðherrum muni fækka ?

Kv., KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 27.1.2009 kl. 13:34

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ef ekki verður fækkun þá er það bara vegna innkomu ráðherra sem eru ekki atvinnustjórnmálamenn. Fækkun væri ágætt fordæmi, en er ekki aðalatriði þó.

Ætlaði að minnast á annað í færslunni sjálfri; að óbreyttu stefnir í fyrsta kvenkyns forsætisráðherra Íslands. Reyndar sér Stefán Friðrik Stefánsson einhverja sérstaka ástæðu til að nefna að það stefni (líklega) í fyrsta samkynhneigða forsætisráðherrann á Íslandi og gott ef ekki í heiminum, en mér er hulin ráðgáta hvers vegna honum finnst það vera merkilegra en að fyrsti kvenkyns forsætisráðherrann er að koma til.

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 13:42

4 identicon

Já kanski ágætt að fá nýja stjórn, eftir að fólkið í landinu felldi hina siðspilltu ríkisstjórn Samfylkingar- og Sjálfstæðisflokksins svo eftirminnilega.

Víst var það fólkið í Samfylkingunni og þjóðin sem felldi þessa Ríkisstjórn, sem betur fer.

Það var ekki Samfylkingar flokksforystan sem gerði þetta sjálfviljug, þvert á móti hamaðist Ingibjörg Sólrún alveg fram í rauðan dauðan við að hanga á völdunum og dásama þessa Ríkisstjórn og var sérlega handgenginn forsætisráðherranum alveg fram í rauðan dauðann, eins og hann hefur sjálfur sagt svo frómt frá.

Hún hamaðist með hroka og yfirlæti við að segja þjóðinni að hún væri alls ekkert þjóðin og hún reyndi meir að segja líka að segja fólkinu í sínum eigin flokki að það væri heldur alls ekkeret fólkið.

En að lokum sáu þau að þessar sjónhverfingar og þetta valdaspil var tapað og að völd hennar og flokksmaskínunnar væru í hættu ef þau gæfu ekki eftir og að hætti tækisfærissinna settu þau þá fram nýjar og óaðgengilegar tillögur við samstarfsflokkinn, sem þau vissu vel að yrði aldrei gengið að, til þess eins að slíta þessu stjórnarsamstarfi.

Svona gera ekta lýðskrumarar og flinkir tækifærissinnar og kunna alveg fram í fingurgóma, á það hefur ekkert skort hjá forystu Samfylkingarinnar !

En þetta forystulið í Samfylkingunni hefur ekkert breyst þó það hætti nú tilneytt um stund í meðvirkni sinni og valdabrölti með Sjálfstæðisflokknum í þessari Ríkisstjórn.

Þeir vilja ekki þjóðstjórn, þó svo að allir stjórnmálaflokkar utan þeir hafi tekið undir það.

Nei Samfylkinginn einn stjórnmálaflokkana neitar því með öllu og tekur þannig sem oft áður þrönga eigin flokks hagsmuni og valdagræðgi fram yfir þjóðarhagsmuni !

Ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki það síðasta heldur !

Sennilega væri þjóðstjórn lang best fyrir þjóðarhagsmuni nú þann stutta tíma sem er fram til kosninga og stjórnmálamennirnir gætu þá einbeitt sér að því að endurskipuleggja sig og halda í prófkjör.

Nei Samfylkingin vill nú svona korteri fyrir kosningar reyna að lappa aðeins uppá dapurt ástandið á sjálfri sér með því að kreysta fram löngu dáið og fölnað vinstra-brosið, reyndar af tómri sýndar- og tækifærismennsku eins og annað. 

Með því ætla þeir nú að reyna á síðustu metrunum fram að kosningum að laska ímynd VG og taka nú eitthvað til baka af því mikla fylgi sem fyllilega verðskuldað hefur farið yfir til VG nú síðustu mánuði. 

Enn og aftur flokkshagsmunir fram yfir þjóðarhagsmuni !

Ég segi bara við Steingrím og Ögmund og aðra í VG varið ykkur á fláræði og fláttaskap Samfylkingar forystunnar. 

Nei, Samfylkingin þarf að lofta ærlega út til að verða trúverðugt stjórnmálaafl á ný, ekki síst fyrir það fólk sem telur sig vera vinstra megin við miðju í litrófi stjórnmálana.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 14:17

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gunnlaugi er þökkuð útrásin. Hann þurfti augljóslega að létta mikið á sér. Ég mótmæli svo sem fæstu af því sem hann segir, en er með hugann við annað. Þannig er þetta með sjónarhornin. Mér finnst merkilegt að það stefni í fyrsta kvenkyns forsætisráðherra Íslands en Stefáni Fr. Stefánssyni finnst merkilegra að það stefni í samkynhneigðan forsætisráðherra. Ég gleðst yfir því að þjóðin fái (vonandi) að hvíla sig á frjálshyggjuflokknum, Gunnlaugur úthúðar Samfylkingarforystunni. Áherslurnar eru mismunandi og allt gott um það að segja.

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 14:46

6 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Dómurinn um nýju ríkisstjórnina verður kannski þessi: Þetta var vanhæf ríkisstjórn.  Það verður að vera hér ríkistjórn sem hefur hagsmuni alþýðu að leiðarljósi. Ríkisstjórn sem er ekki feimin við ríkisafskipti og ríkisrekstur og það sem menn í heiminum í dag, ekki bara á Íslandi þurfa að snúa til það er einhvers konar áætlanabúskapur og einhvers konar hagkerfi sem er ónæmt fyrir peningabólum.

Flosi Kristjánsson, 27.1.2009 kl. 15:47

7 Smámynd: Hlédís

Hvað veit Stefán, blessaður, um kynhneigð fyrri forsætisráðherra hérlendis og erlendis - og hvaða heimildir styðst hann við ?

Hlédís, 27.1.2009 kl. 16:21

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held maður fari sér hægt við að fagna.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.1.2009 kl. 17:29

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Sigurður Þór, líklega best að hafa það 30 km íbúabyggðarhraða. En svo er munur á því hvort maður fagnar nýrri ríkisstjórn eða falli fyrri ríkisstjórnar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 17:31

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Eitthvað af fólki í jakkafötum fagnar:

"Úrvalsvísitala Kauphallarinnar styrktist um 2,01% í viðskiptum dagsins í dag".

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 17:34

11 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Líst vel á aðgerðaráætlunina sem liggur fyrir, og hefur víst legið fyrir um nokkurn tíma. Það tókst að fella stjórnina, nú er að byggja upp. Kynhneigð forsætisráðherra er ekki til umræðu - fremur en annars fólks.

Halldóra Halldórsdóttir, 27.1.2009 kl. 17:55

12 identicon

Þú talar um að aðrar áherslur en frjálshyggju en í sömu setningu viltu fækka ráðuherrum sem er auðvitað tekið beint upp eftir frjálshyggjunni.

Ég skil heldur ekki hvernig fólk getur verið á móti frjálshyggju sem fyrst og síðast snýst um frjáls samskipti einstaklinga. Hvernig er hægt að vera á móti því að leyfa fólki að stjórna lífi sínu sjáflt og fylgjandi þvi að láta aðra taka ákvarðanir fyrir sig og aðra einstaklinga? Hvernig tekst mönnum svo að tengja efnahagsástandið við frjálshyggju þegar ríkið hefur blásið út undanfarin ár og kreppan sem nú liggur á okkur er peninga/gjaldmiðlakreppa sem eru ávalt ríkiskreppur?

Eitt að lokum, af hverju er fólk að missa sig yfir því að Jóhanna sé lespía?  það gerir hana hvroki verri né betri í starfi og ég sé að það komi það nokkrum við þó hún sé samkynhneigð.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 21:06

13 Smámynd: Hlédís

Tökum það rólega  - og fylgjumst vel með!  BjBj verður þó ekki til vandræða meir  'gúskeló'

Hlédís, 27.1.2009 kl. 21:18

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Vilhjálmur. Bráðfyndin kenning að fækkun ráðherra hafi eitthvað með frjálshyggju að gera. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn kannski ástundað kommúnisma með stöðugri fjölgun ráðherra undanfarin ár?

Fækkun ráðherra hefur ekkert með -isma að gera. Að það sé gott fordæmi að fækka ráðherrum hefur hins vegar mikið með kreppu að gera, enda minnkar það niðurskurðarþörfina á öðrum og viðkvæmari sviðum.

Heldur þú Vilhjálmur að ég og fleiri séum að leggjast gegn "frjálsum samskiptum einstaklinga"? Hjá flestum er markaðsbúskapur viðurkenndur sem grunnstoð í samfélaginu en um leið er hjá flestum lögð áhersla á öflug velferðarúrræði - blandað hagkerfi er normið. Það er hins vegar sjálfsagt of gott orð, frjálshyggja, yfir þann óskapnað sem Davíðskan, Hólmsteinískan, Thatcherisminn og Friedmanisminn hefur leitt yfir þjóðina. Þessi óskapnaður hefur ekkert með "frjáls samskipti einstaklinga" að gera heldur að útvaldir fái skotleyfi á að skaða aðra með óprúttnum viðskiptum.

Að ríkið hafi tútnað út er hárrétt og lýsir hugmyndafræðilegu gjaldþroti "Bákns"-andstæðinganna. Þetta á vissulega ekki að gerast í óskaheimi frjálshyggjunnar, en gerist í Íslenskum raunveruleika, í íslensku útgáfunni af frjálshyggju. Þetta er kannski frekar spurningin um hver borgar þennan vöxt. Hjá hverjum hafa skattað lækkað og hjá hverjum hækkað (skattbyrði)? Hvaða sameignir hafa verið seldar?

Auðvitað kemur það ekki málinu við hvort Jóhanna er samkynhneigð eða ekki. Fráleitt að vera týna svoleiðis til. Hver veit nema að einhverjir forsætisráðherrar hingað til hafi átt einhver skringilegheit til í sinni kynhneigð og tilburðum, án þess að menn eins og Stefán Fr. Stefánsson hafi hugmynd um. Út í hött að hafa orð á þessu. Það er hins vegar stórmerkileg tímamót, ef af verður, að kona verði í fyrsta skiptið forsætisráðherra. Kominn tími til!

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 22:15

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sá í fréttum að Skagfirðingar voru að fagna ummælum Steingríms Joð um að taka skipulagsbreytingar Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra til endurskoðunar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkum áformum verður frestað með reglugerð (fæðist vinstristjórn). Á hinn bóginn er alls ekki svo að ekki megi breyta og hagræða, ef tilgangurinn er að forða heilbrigðisþjónustunni frá of miklum niðurskurði í þjónustunni. Bóka má að á þessu ári og því næsta verði hvaða stjórn sem er að forgangsraða. Einkavinavæðing verður auðvitað strikuð út.

Merkileg gjörð Einars Kr. Guðfinnssonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að grípa til stórvægilegrar ákvörðunar um hvalveiðar, verandi bara pössunaraðili í ráðuneytinu til bráðabirgða meðan ný stjórn er mynduð. Ég er ekki á móti hvalveiðum sem rök eru fyrir (fellst á rök og vísindi, en ekki tilfinningar til keikóanna), en þessi ákvörðun lyktar nú samt af hefnd. Einkum ef ráðherrann hefur ekki fengið hið minnsta óformlegt samþykki ráðherra Samfylkingarinnar og helst allra hinna flokkanna.

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.1.2009 kl. 23:27

16 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

"Merkileg gjörð Einars Kr. Guðfinnssonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að grípa til stórvægilegrar ákvörðunar um hvalveiðar, verandi bara pössunaraðili í ráðuneytinu til bráðabirgða meðan ný stjórn er mynduð."

Dettur helst í hug að E.Kr.G. (og flokkurinn) hafi skuldað forsvarsmönnum og talsmönnum hvalveiða þennan gjörning. Þeir hafa verið óþreytandi í "lobbýisma" sínum fyrir hvalveiðum í mörg herrans ár.

Halldóra Halldórsdóttir, 28.1.2009 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband